Þorsteinn Víglundsson, þingmaður og varaformaður Viðreisnar, hefur sagt af sér þingmennsku frá 14. apríl næstkomandi.
Í tilkynningu sem Þorsteinn sendi á fjölmiðla í morgun segir að hann hafi tilkynnt Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, um ákvörðun sína síðdegis í gær. „Ég hef að vandlega íhuguðu máli samþykkt að taka að mér spennandi verkefni á vettvangi atvinnulífsins og mun hefja störf síðar í þessum mánuði. Þá hef ég á sama tíma tilkynnt stjórn Viðreisnar um afsögn mína sem varaformaður flokksins.“
Sæti Þorsteins á þingi tekur fyrsti varaþingmaður Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir lögfræðingur.
Í tilkynningunni segist Þorsteinn vera þakklátur fyrir það traust sem honum hafi verið sýnt á vettvangi stjórnmála frá því að hann hóf þátttöku í þeim fyrir tæpum fjórum árum síðan. Hann hefur á þeim tíma tvívegis verið kjörinn þingmaður Reykvíkinga. „Þótt átök einkenni gjarnan störf þingsins í opinberri umfjöllun er mér efst í huga á þessum tímamótum sú dýrmæta reynsla sem ég hef öðlast og góð samskipti og vinskapur við samherja jafnt sem pólitíska andstæðinga. Ég kveð með söknuði allt það góða fólk sem ég hef starfað með á Alþingi á undanförnum árum, bæði þingmenn og ekki síður allt hið hæfileikaríka starfsfólk sem starfar fyrir Alþingi.“
Þorbjörg Sigríður, sem tekur sæti Þorsteins á þingi, var aðstoðarmaður hans þegar hann gegndi embætti félags- og jafnréttismálaráðherra. Hún segir í tilkynningu sem send var til fjölmiðla í morgun að þingflokkur Viðreisnar sé skemmtilegur og sterkur hópur, sem henni finnist frábært að verða núna hluti af. „Auðvitað er síðan sérstakt að taka sæti á Alþingi með þau verkefni sem koma í kjölfar þess að faraldur er að breyta heiminum. Mér hefur fundist samstaða og samkennd einkenna fyrstu skref. Og ætla að leggja mitt af mörkum með þessi stef að leiðarljósi og frjálslyndar áherslur Viðreisnar.“