„Nú í morgun barst óvenjustór gjöf með fraktflugvél að utan þegar Landspítalinn fékk 17 nýjar og mjög fullkomnar gjörgæsluöndunarvélar að gjöf. Þýskar Heyer Medical-vélar.“ Þetta sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Að gjöfinni standa 14 íslensk fyrirtæki og Páll sagði að með henni vildu fyrirtækin leggja sitt að mörkum við að styðja við íslenskt heilbrigðiskerfi á erfiðum tímum. „En fyrirtækin sem standa að gjöfinni þau kjósa að láta nafns síns ekki getið.“
Til viðbótar keyptu fyrirtækin 14 umtalsvert magn af sérstökum hlífðarfatnaði og ýmsar lækningavörur fyrir starfsfólk heilbrigðiskerfisins. „Um er að ræða 6.500 svokallaðar N95-sóttvarnargrímur, þúsund varnargallar, 2.500 varnargleraugu og 140 þúsund veirupinna. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þessarara búnaðar alls,“ sagði Páll.
Hann sagði að þrotlaus vinna, útsjónarsemi og harðfylgi lægi að baki því að koma þessum búnaði til landsins enda væru öll ríki heims í kapphlaupi um þessar vörur um þessar mundir. Öll sú vinna hafi verið unnin í samvinnu við Landspítalann og gerð til að mæta þörfum hans. „Gjöfin er einkar vel tímasett og snýst um búnað sem munar mikið um.“