Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkurborgar tók þátt í fundi borgarstjóra víðs vegar að úr heiminum í gær þar sem fjallað var um COVID-19. Frá þessu greinir hann á Facebook-síðu sinni í dag.
Á fjarfundinum var fjallað um það risastóra verkefni sem framundan er: Að aflétta þeim takmörkunum sem öll borgarsamfélög hafa meira eða minna þurft að grípa til „og við köllum einu nafni „samkomubann“ hér landi,“ skrifar hann.
Fram kemur í færslu Dags að fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hafi verið á fundinum, ásamt fyrrverandi borgarstjóra New York-borgar og Tom Frieden, fyrrverandi yfirmanni Center of Disease Control í Bandaríkjunum, „sem hefur af mörgum verið þakkað fyrir árangursríka glímu við E-bólu og SARS-veiruna alþjóðlega“. Dagur viðurkennir að það hafi fylgt því sérstök tilfinning að vera með þessum herramönnum á fundi.
„Ég treysti mér nánast til að fullyrða að allar borgirnar á fundinum í gær hefðu sannarlega óskað þess að hafa undirbúið sig jafn snemma og við fengum tækifæri til,“ skrifar Dagur.
Þá kemur enn fremur fram í færslunni að í lok janúar hafi almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins fengið Þórólf Guðnason sóttvarnalækni til þeirra til að fara yfir hvað væri hugsanlega framundan. „Tilefnið var að við vorum komin á óvissustig almannavarna vegna yfirvofandi heimsfaraldurs. Þórólfur hitti neyðarstjórn borgarinnar strax sama dag og við hófumst handa við að uppfæra allar viðbragðsáætlanir og búa okkur undir það sem gæti verið í vændum. Fyrir tilviljun höfðum við skipulagt æfingu - sem átti að vera rútuslys með meiðslum á börnum - en snérum henni á punktinum í það að undirbúa starfsemi borgarinnar fyrir veiruna.“
Það séu ekki einungis sveitarfélögin sem hafi fengið tíma til að undirbúa sig heldur líka heilbrigðiskerfið, viðbragðaðilar og allir sem hafi þurft að vera viðbúnir í verkefnum sem þessum.
Sumt mun þurfa að breytast – jafnvel varanlega
„Mestu skipti þó að kerfi smitgreiningar, rakningar á smitum, sóttkví og einangrun fór strax af stað. Og öllu var miðlar opið og reglulega til almennings. Þetta er lykillinn að árangri og þetta er lykillinn að öllum frekari skrefum. Borgir, lönd og heiminn allan dreymir um að hafa þá yfirsýn og yfirvegun í öllum aðgerðum sem við höfum búið að hér á Íslandi frá fyrsta degi.
Það mun líka reynast okkur ómetanlegt í að feta leiðina fram á við, þar sem við opnum í áföngum fyrir stærri og stærri hluta starfsemi og samfélagsins. Sumt mun án efa þurfa að breytast, jafnvel varanlega í því hvernig við útfærum og hugsum hlutina. En við skulum gera þetta allt á sama hátt og við bjuggum okkur undir faraldurinn: með virku samtali og forsjálni, öflun og rýni gagna, með yfirvegun og fagmennsku að leiðarljósi, kjarki til að taka ákvarðanir en líka varfærni í ljósi óvissu. Við skulum ekki skella hlutum fram að óathuguðu máli og gætum þess áfram að skilaboð stjórnvalda og sóttvarna séu samræmd, rökstudd og skýr. Þá mun okkur áfram ganga eins og best verður á kosið í þessum erfiðu verkefnum,“ skrifar Dagur.
Stóra hrós dagsins fer að mati borgarstjórans til Ölmu Möller landlæknis, Þórólfs og Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns og þeim „ótrúlega stóra og öfluga hópi fagfólks sem að baki þeim stendur. Þið eruð hreint og beint á heimsmælikvarða!“
Ég er ekki viss um að við Íslendingar gerum okkur fyllilega grein fyrir því hvað við eigum magnaða framlínu og gott...
Posted by Dagur B. Eggertsson on Friday, April 10, 2020