Sjö útgerðir krefja íslenska ríkið um samtals 10,2 milljarða króna auk hæstu fáanlegu vaxta vegna fjártjóns sem þau telja sig hafa orðið fyrir vegna makrílkvóta sem fór ekki til þeirra á árunum 2011 til 2018. Útgerðirnar ákváðu að höfða mál eftir að tveir dómar féllu í Hæstarétti í desember 2018 sem sögðu að ekki hefði verið rétt haldið á úthlutun á makrílkvóta.
Um er að ræða fyrirtækin Gjögur hf., Ísfélag Vestmannaeyja hf., Skinney-Þinganes hf., Loðnuvinnslan hf. og Huginn ehf., Eskja hf. og Vinnslustöðin hf.
Langhæsta krafan er frá Ísfélagi Vestmannaeyja, sem krefst tæplega 3,9 milljarða króna auk vaxta úr ríkissjóði. Stærsti eigandi Ísfélagsins er Guðbjörg Matthíasdóttir. Félög í eigu Guðbjargar og fjölskyldu hennar eru einnig stærstu eigendur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.
Eskja krefst þess að fá rúmlega tvo milljarða króna í bætur, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes vilja rúman milljarð króna og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum krefst þess að fá tæpan milljarð króna auk vaxta. Huginn vill fá 839 milljónir króna og Gjögur, sem er næst stærsti eigandi Síldarvinnslunnar (Samherji er stærsti eigandinn) krefst 364 milljóna króna. Í stefnu Gjögurs er einnig krafist bóta vegna kostnaðar við að leigja aflaheimildir á árunum 2015 til 2018.
Þetta kemur fram í svari sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, birti í dag, um páskahelgina, við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, um málið.
Fjölmiðlum meinað um aðgang að sömu upplýsingum
Kjarninn hefur reynt að fá sömu upplýsingar frá hinu opinbera frá síðasta sumri.
Í júní 2019 var fyrirspurn send á upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar þar sem óskað var eftir því að fá stefnur útgerðanna afhentar auk þess sem beðið var um upplýsingar um hversu háar kröfur þeirra væru.
Erindið var sent til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem brást ekki við því í á aðra viku. Þegar viðbrögð komu fólst í þeim að áframsenda erindið á embætti ríkislögmanns.
Hann taldi rétt að bera það undir lögmenn útgerðanna sem um ræddi hvort þeir myndu samþykkja að upplýsingar um málin yrðu veittar og staðfesti í kjölfarið við Kjarnann að fyrirspurnir þess efnis hefðu verið sendar á umrædd fyrirtæki.
Síðan barst ekkert viðbótarsvar í rúma fimm mánuði, eða þar til 20. desember 2019, þegar ríkislögmaður sendi svar þess efnist að hann teldi ekki heimilt að afhenda stefnurnar. Hann hefði óskað eftir afstöðu umræddra fyrirtækja gagnvart því að fjölmiðlar myndu fá stefnurnar með því að beina spurningum til lögmanna þeirra. „Liggur ekki fyrir samþykki stefnenda um að afhenda stefnurnar og verður að skilja afstöðu þeirra í ljósi seinni málsliðar 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og telur embættið því gögnin undanþegin upplýsingarétti.“
Auk þess sagði í svarinu að ríkislögmaður mæti það „óraunhæft að rýmri aðgangur sé fyrir hendi þótt kröfu um afhendingu sé beint að stjórnvaldi ef um sömu gögn er að ræða. Gögnin eru því eðli sínu samkvæmt undanþegin upplýsingarétti.“
Kjarninn kærði synjun ríkislögmanns á aðgengi að umræddum upplýsingum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál strax í kjölfarið.
Augljósir almannahagsmunir
Beiðni Kjarnans um aðgang að gögnunum byggði á 5. gr. upplýsingalaga. Í kærunni sagði að augljósir almannahagsmunir væru af því að fjölmiðlar og almenningur fái upplýsingar um það þegar fyrirtæki stefni ríkinu til greiðslu bóta vegna úthlutunar á gæðum sem samkvæmt fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða séu sameign íslensku þjóðarinnar. því geti vart staðist að takmarka upplýsingarétt vegna einkahagsmuna. Bæði sé sú „eign“ sem sé undir sameign þjóðarinnar auk þess sem sá stefndi sé íslenska ríkið, og þar af leiðandi almenningur. Réttur þeirra sem stefna til að halda gögnum sem þeir telja einka- og fjárhagsmálefni sín geti ekki talist æðri rétti almennings til að vita hvað sé undir í málinu.
Sögðu almenning og fjölmiðla ekki eiga lögvarða hagsmuni
Úrskurðarnefndin sendi bréf til þeirra sjávarútvegsfyrirækja sem stefndu ríkinu í lok janúar síðastliðins og óskaði eftir afstöðu þeirra til afhendingar gagnanna. Í bréfum þeirra sem svöruðu er í öllum tilvikum lagst gegn því að stefnurnar yrðu afhentar.
Þar er sá tónn sleginn að fjölmiðill eða almenningur séu ekki lögvarinn aðili máls þrátt fyrir að hinn stefndi sé íslenska ríkið. Í einu svarbréfinu sagði meðal annars að málið væri „venjulegt einkamál samkvæmt lögum um meðferð einkamála, þótt stefndi sé opinber aðili. Umrædd stefna stafi ekki frá stjórnvaldi og sé ekki þáttur í meðferð stjórnsýslumáls heldur dómsmáls, þó það sé á könnu ríkislögmanns. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hafa neinna sérstakra lögvarinna hagsmuna að gæta í dómsmálinu.“
Kærandi gæti einfaldlega fengið þær upplýsingar sem hann sæktist eftir þegar dómur hefði verið birtur opinberlega eftir dómsuppkvaðningu.
Þá var því haldið fram að í stefnunum kæmu fram margvíslegar fjárhagslegar og rekstrarlegar upplýsingar um starfsemi fyrirtækjanna, umfram þær sem lesa megi úr ársreikningum frá þeim árum sem fjallað sé um í málinu.
Úrskurðarnefndin hafnaði þessum málatilbúnaði og komst að þeirri niðurstöðu að hagsmunir almennings af aðgangi að upplýsingum um málatilbúnað einkaaðila á hendur íslenska ríkinu vegiþyngra en hagsmunir sjávarútvegsfyrirtækjanna af því að þær fari leynt.
Kjarninn fór fram á það síðdegis á fimmtudag, 2. apríl, við embætti ríkislögmanns, að fá stefnurnar afhentar. Þrátt fyrir ítrekanir á þeirri beiðni hafa þær ekki fengist.
Nú hefur svar við hluta af fyrirspurn Kjarnans verið birt á vef Alþingis.