Þrátt fyrir að fjöldi nýrra smita sé á niðurleið má fólk ekki slaka á varðandi handþvott og samskiptafjarlægð, að sögn Ölmu Möller landlæknis og Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Áætlun um hvernig slakað verður á samkomubanni verður kynnt síðar í vikunni.
Alma fór yfir stöðuna í faraldrinum á daglegum upplýsingafundi dagsins og sagði að talið væri að smit yrði áfram viðvarandi á Íslandi, en í litlum mæli. Þó gætu komið upp minni hópsýkingar. „Þá þurfum við að grípa til harðari aðgerða,“ sagði landlæknir.
Samkomubann, í núverandi mynd, er í gildi til 4. maí og því verður aflétt í mjög hægum skrefum. Víðir sagði á fundinum að áætlun um hvernig þessi skref yrðu stigin yrði kynnt síðar í þessari viku, en verið er að leggja lokahönd á hana.
Þá verður meðal annars, að sögn Víðis, tilkynnt hvernig verður unnt að opna aftur fyrir sundferðir og líkamsræktarferðir.
„Það sem er lykilatriði í þessu og allir heimsins sérfræðingar eru sammála um er að þetta þarf að gerast mjög hægt. Það þarf að losa mjög hægt um þessar takmarkanir og sjá hvernig það kemur út áður en farið er í næstu,“ sagði Víðir. Annars gæti farið svo að annar toppur kæmi í faraldurinn, með auknu álagi á heilbrigðiskerfið.
Framtíð ferðalaga þurfi að skoða í alþjóðlegu samstarfi
Víðir sagði einnig, spurður hvort eitthvað lægi fyrir um hvernig ferðalögum yrði mögulega háttað þegar slakað yrði á samkomubönnum, að það væri í skoðun hjá ýmsum alþjóðlegum stofnunum.Svo væri hvert ríki fyrir sig að skoða hlutina og Ísland einnig.
Þó er ljóst, að sögn Víðis, að ákvarðanir um hvernig ferðalögum verður háttað þarf að taka í alþjóðlegu samstarfi. Hann sagðist búast við því við því að eitthvað liggi nánar fyrir um framtíð ferðalaga á næstu vikum.