Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, segir milljarðakröfur sjö útgerðarfyrirtækja á hendur ríkinu vegna makrílúthlutunar „forkastanlegar og til dæmis um fáránlega græðgi og óbilgirni“.
Fjallað var um kröfurnar hér á Kjarnanum í gær, eftir að upplýsingar um þær birtust á vef Alþingis í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.
Kjarninn bíður þess enn að fá stefnur sjávarútvegsfyrirtækjanna afhentar, eftir að hafa kært synjun ríkislögmanns á aðgengi að þeim til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og haft betur.
Útgerðirnar sjö, sem eru að krefja ríkið um 10,2 milljarða króna auk hæstu mögulegu vaxta sökum þess að ekki var rétt staðið að úthlutun á makrílkvóta um árabil, vildu ekki að fjölmiðlar fengju upplýsingar um kröfurnar.
Úrskurðarnefndin komst þó að þeirri niðurstöðu í upphafi mánaðar að hagsmunir almennings af aðgangi að upplýsingum um málatilbúnað einkaaðila á hendur íslenska ríkinu væru ríkari en hagsmunir sjávarútvegsfyrirtækjanna af því að þær færu leynt þar til dómar væru gengnir í málunum.
„Þessar kröfur eru forkastanlegar og til dæmis um fáránlega græðgi og óbilgirni. Ágætt er að hafa í huga að dómurinn, sem kröfurnar byggja á, fjallaði ekki um að umrædd úthlutun hefði verið ósanngjörn, aðeins að hún hefði átt heima í lögum en ekki reglugerð,“ skrifar Kolbeinn um málið á Facebook í dag.
Þar ritar þingmaðurinn einnig að „holur hljómur“ sé í umkvörtunum útgerðanna vegna veiðigjalda nú og að það þurfi að hljóta „að setjast sérstaklega yfir uppsjávarálagið, skoða hvort það sé nógu hátt.“
„Þessar útgerðir verða dæmdar af verkum sínum, ef þær ætla að halda því til streitu að sælast eftir 10-15 milljörðum úr ríkissjóði (þegar vextir eru taldir með) í eigin vasa, í þeirri stöðu sem við nú erum í þar sem við þurfum hverja krónu til að komast saman í gegnum erfitt efnahagsástand,“ skrifar Kolbeinn.
Þessar kröfur eru forkastanlegar og til dæmis um fáránlega græðgi og óbilgirni. Ágætt er að hafa í huga að dómurinn, sem...
Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Sunday, April 12, 2020