Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sent Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra minnisblað með tillögum að aðgerðum varðandi næstu skref í COVID-19 faraldrinum. Frá þessu greindi hann á daglegum upplýsingafundi í dag. Hann sagði að það væri ráðherra að ákveða hvernig samkomubanni yrði aflétt. Ráðherrann myndi væntanlega tilkynna það í vikunni.
Hann sagði enn fremur að gott væri að leggja mat á þennan faraldur hér og að við gætum „fullyrt að faraldurinn er verulega á niðurleið hér og það er lítið samfélagslegt smit í gangi. Ég vil þakka það öllum þeim samfélagslegu aðgerðum sem í gangi hafa verið og sérstaklega þakka samtakamætti almennings, fyrirtækja, félagasamtaka og stjórnvalda“.
Það væri ótrúlegt að sjá hvernig allir hefðu tekið höndum saman og staðið sig vel. Fyrir það bæri að þakka sérstaklega.
Staðfest smit af kórónuveirunni eru orðin 1.703 hér á landi. Í gær voru þau 1.693 og hefur þeim því aðeins fjölgað um tíu síðasta sólarhringinn. Núna eru 2.711 manns í sóttkví en í gær var fjöldinn 2.861. Alls hafa 15.751 lokið sóttkví.
Í dag eru 770 einstaklingar með virk COVID-19 smit en í gær var fjöldinn 804. Alls hafa 933 manns náð bata eftir að hafa smitast af veirunni. Búið er að taka alls 35.788 sýni hér á landi.
Á svipuðum stað og Norðmenn
Sóttvarnalæknir bar árangur Íslendinga saman við það sem gerst hefur erlendis – en benti þó á að oft væri varhugavert að bera tölur saman milli landa þar sem þau væru stödd á mismunandi stað í faraldrinum og að verið væri að safna mismunandi upplýsingum.
Þórólfur bar þó tölur saman varðandi aukningu á fjölda smita á hvern íbúa. Ísland er þar í þriðja neðsta sæti – en hann sagði að lægsta talan í Evrópu væri hér á landi frá byrjun mars en fyrir neðan Íslendinga væru Færeyingar og Lichtenstein. „Ef við skoðum líka fjölda dauðsfalla hér á landi samanborið við önnur lönd – en við höfum því miður misst átta einstaklinga úr þessum sjúkdómi hér á landi – þá kemur í ljós að við erum mörgum sinnum lægri heldur en flestar aðrar þjóðir og þó að víða væri leitað.“
Af Norðurlöndunum væru það einungis Finnar sem væru lægri en Íslendingar. „Við erum á svipuðum stað og Norðmenn. En Danir og sérstaklega Svíar eru miklu hærri hvað þessar tölur varðar,“ sagði hann.
Tilefni til að gleðjast
Þórólfur sagði að þetta gæfi tilefni til að gleðjast yfir þeim árangri sem Íslendingar hefðu náð en þó væri engin sérstök ástæða til þess að berja sér á brjóst núna.
„Því enn er langt í land. Við eigum langt eftir til þess að geta virkilega hrósað sigri. Og eins og við höfum oft talað um áður: Í hönd fer sá tími að mikilvægt er að aflétta hægt þeim samfélagslegu aðgerðum sem að hér eru í gangi.“ Hann benti á að litlar hópsýkingar gætu komið upp og „verðum við að vera viðbúin að bregðast hart við þegar það gerist.“
Þórólfur sagði að samkomutakmörkunum yrði að aflétta hægt, eins og áður hefur komið fram í máli hans, en hann greindi frá því á fundinum í dag að hann hefði sent heilbrigðisráðherra minnisblað með tillögum að aðgerðum og að það væri ráðherra að ákveða með auglýsingu hvernig þetta verði útfært. Ráðherrann myndi væntanlega gera það í vikunni, eins og áður segir.