Katrín Jakobsdóttir gaf munnlega skýrslu vegna COVID-19 faraldursins og viðbragða stjórnvalda við upphaf þingfundar í dag og fór þar yfir þær aðgerðir sem næstar eru á dagskrá hjá stjórnvöldum. Hún sagði að stjórnvöld gerðu nú ráð fyrir því að framlengja hlutabótaleiðina, en að ríkisstjórnin gerði ráð fyrir því að gera hugsanlega einhverjar breytingar á henni, „út frá þeirri reynslu sem komin er á leiðina“.
„Upphaflega markmiðið var að þessi leið væri fyrir launafólk í landinu, fyrst og fremst, til þess að tryggja afkomu launafólks og þess vegna var hún mjög opin og samþykkt mjög opin hér á Alþingi. Þetta þarf að meta núna þegar við skoðum framkvæmd leiðarinnar,“ sagði Katrín.
Forsætisráðherra sagði einnig að það styttist í að við færum að sjá framkvæmd brúarlána með ríkisábyrgð, en hún sagði að Seðlabankinn og ríkið væru við það að ná samningum um framkvæmdina, ef samningar hefðu þá ekki þegar náðst fyrr í dag.
Katrín sagðist einnig ánægð með samstöðuna í samfélaginu, en fór líka fram á það að sjö fyrirtæki í sjávarútvegi drægju milljarðakröfur sínar á hendur ríkinu vegna makrílúthlutanna til baka og sýndu með því ábyrgð.
Lítil fyrirtæki, einyrkjar og námsmenn
Hún sagði að það blasti við að ríkisstjórnin þyrfti að kynna frekari aðgerðir til skemmri tíma til að hjálpa litlum fyrirtækjum sem hefðu þurft að loka vegna sóttvarnaráðstafana, einyrkjum sem ekki gætu sinnt vinnu sinni og námsmönnum, sem margir hverjir hafa ekki fengið sumarstörf.
Hún sagði einnig að þegar faraldurinn væri liðinn hjá myndi ný heimsmynd blasa við, sem erfitt væri að sjá fyrir sér á þessum tímapunkti. „Sumt munum við ekki ráða við, um það hvernig málin þróast, en við getum ráðið við ansi margt. Eins og ég hef ítrekað sagt stendur íslenskt samfélag vel til þess að takast á við þennan faraldur,“ sagði Katrín og nefndi sterka stöðu ríkisfjármálanna, lágt vaxtastig og samfélagslegar stoðir eins og skólakerfið og heilbrigðisstarfið.
„Í öllum kreppum felast nýir möguleikar. Við höfum tækifæri til að byggja hér upp á sviði nýsköpunar, rannsókna og þróunar,“ sagði Katrín og bætti við að mögulega myndi faraldurinn virka eins og „hraðall fyrir fjórðu iðnbyltinguna“ þar sem væntanlegar breytingar myndu ganga yfir hraðar.
Þá hefði faraldurinn minnt á það hversu hátt hlutfall matvæla á Íslandi væri innflutt. „Getum við ekki gert betur í því að framleiða aukið hlufall okkar matvæla hér heima, og vera þannig öðrum minna háð um innflutning matvæla?“ spurði forsætisráðherra.