Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra segir að Íslendingar þurfi augljóslega að leggja aukna áherslu á matvælaframleiðslu á næstunni, þar sem eftirspurn eftir mat sé enn til staðar á meðan eftirspurn eftir ýmsu öðru, til dæmis ferðaþjónustu og afurðum orkufreks iðnaðar, fari þverrandi. Hann segir að skoða þurfi tollamál í því samhengi og auka tollvernd.
„Tollar eru jú notaðir til þess að vega upp kostnað við mismunandi stofnkostnað eða rekstrarkostnað við framleiðslu, það er hugsunin á bak við tolla. Við höfum látið það óáreitt í mjög langan tíma. Ef við meinum eitthvað með því að auka innlenda framleiðslu, þá er það nokkuð augljós leið að við þurfum að skoða það líka, myndi ég telja,“ sagði Sigurður Ingi í ræðu sinni á Alþingi í dag eftir munnlega skýrslu forsætisráðherra um COVID-19 faraldurinn og viðbrögð við honum.
Í máli hans kom fram að ríkisstjórnin og ráðherra landbúnaðarmála væru búin að vera í samningaviðræðum við garðyrkjubændur að undanförnu og að við þá samningagerð þyrfti að horfa til þess að lækka dreifikostnað raforku og viðhalda þeim stuðningi eins háum og hægt er. Auk þess sagði Sigurður Ingi ráðlegt að taka til skoðunar sérstakar landgreiðslur til þess að hvetja til útiræktunar á grænmeti.
Hann sagði einnig ljóst að huga þyrfti að því að hjálpa ferðaþjónustunni að takast á við stöðuna, með frekari hætti en þeim aðgerðum sem þegar hafa verið kynntar af hálfu stjórnvalda.
„Við þurfum kannski að hvetja enn frekar til innanlandsneyslu með ferðaþjónustunni í landinu á næstu mánuðum,“ sagði Sigurður Ingi og vísaði þar til þess að í fyrsta aðgerðapakkanum sem ríkisstjórnin kynnti var lagt til að hver og einn Íslendingur fengi nokkur þúsund króna gjafabréf frá ríkinu til þess að nota hjá ferðaþjónustufyrirtækjum sem eiga nú undir högg að sækja.
Næstu aðgerðir muni „án efa ekki duga“ til lengri tíma litið
Hann bætti því við að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin væri að velta fyrir sér þessa dagana myndu „án efa ekki duga“ til þess að mæta afleiðingum veirufaraldursins.
„Við þurfum að viðurkenna það að aðgerðirnar sem við erum að velta fyrir okkur núna munu án efa ekki duga. Ef veiran hagar sér með versta hætti getur verið að við þurfum að grípa hér inn í á næstu mánuðum og ef til vill lengra og lengra inn í framtíðina,“ sagði ráðherrann.