„Við vitum að við erum í betri færum en mörg lönd til að bregðast við, þar sem við höfum þrátt fyrir allt borið gæfu til, að hafa mikla samneyslu, með öflugu opinberu heilbrigðiskerfi, góðum skólum og velferðarþjónustu – þótt vissulega þurfi að gera enn betur. Við vitum líka að jafnvel hægrisinnaðasta fólk áttar sig á þessu og vill að ríkisvaldið komi nú atvinnulífinu til bjargar – og það þarf vissulega að gera það. Veita skjóta og skilvirka aðstoð sem þarf þó í ríkara mæli að ná til fólksins sjálfs og heimila þess. Við vitum hins vegar ekki hve lengi vinstri slagsíða hægrimanna endist – þótt okkur gruni það.“
Þetta er meðal þess sem Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni eftir að forsætisráðherra flutti munnlega skýrslu um áhrif COVID-19 faraldursins og um viðbrögð stjórnvalda við þeim áhrifum.
Logi sagði í ræðu sinni að það þyrfti að gera mun meira en þegar hefði verið gert. Styðja þyrfti betur við ýmsa hópa, til dæmis lítil fyrirtæki sem bannað hefur verið að veita þjónustu, heimila, leigjenda, atvinnulausra og námsmanna.
Vill áherslu á jöfnuð og fjölbreytni
Logi sagði að í augnablikinu væri verið að slökkva elda en í framhaldinu þyrfti að hafa kjark og framsýni til að ráðast í breytingar á skattkerfinu; deila gæðum jafnar og tryggja að auðlindir landsins skili almenningi sanngjörnum arði. „Óhjákvæmilegt er að þau sem eiga meira að borga meira, og þeim sem eiga minna sé hlíft. Og þó samstaða, samábyrgð og æðruleysi almennings vegi vissulega mjög þungt, þegar við siglum okkur hægt og rólega út úr þessari krísu, hafa síðustu vikur líka sýnt okkur nauðsyn þess að leggja í sameiginlega sjóði sem geta tryggt öflugt opinbert heilbrigðiskerfi, velferðarþjónustu og öryggisnet þegar á þarf að halda. Þess vegna er einmitt ágætur tími núna til að minna sig á skattgreiðslur eru vafalaust besta fjárfesting sem nánast hvert og eitt okkar ræðst í yfir ævina.“
Til framtíðar þyrfti að skjóta styrkari stoðum undir fjölbreyttara atvinnulíf og skapa fleiri störf sem byggi á hugviti. „Til þess þurfum við þó að ráðast í byltingarkennda sókn í menntamálum. Það kann að virka nokkuð bratt að horfa lengra fram í tímann nokkra daga við þessar aðstæður, en við höfum einfaldlega ekki efni á öðru.
Tvö orð þurfa að verða leiðarstef í leiðangrinum framundan: Jöfnuður og fjölbreytni.“