Það er mat sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að Kristján Þór Júlíusson, ráðherra málaflokkanna, sé ekki vanhæfur til meðferðar mála sem varða Síldarvinnsluna, sem er í beint og óbeint í 49,9 prósent eigu Samherja. Einn úrskurður hefur verið kveðinn upp í máli þar sem Síldarvinnslan var aðili frá því að Kristján Þór tók við embættinu í lok árs 2017 og varðaði það veiðileyfissviptingu.
Þetta kemur fram í svörum ráðuneytisins við spurningum þriggja nefndarmanna í stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd vegna frumkvæðisathugunar á hæfi Kristjáns Þórs í ljósi stöðu hans gagnvart Samherja. Nefndarmennirnir þrír eru Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingar, og Andrés Ingi Jónsson, óháður þingmaður.
Eftir að Kristján Þór tók við sem ráðherra sjávarútvegsmála kom fram gagnrýni vegna tengsla hans við Samherja og Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra og eins aðaleiganda þess fyrirtækis. Kristján Þór hafði setið í stjórn Samherja, þar af í eitt ár sem stjórnarformaður, á árunum 1996 til 2000. Hann fór auk þess tvívegis sem háseti á makrílveiðar á vegum Samherja, annars vegar sumarið 2010 og hins vegar sumarið 2012, og þáði laun fyrir. Samherji styrki einnig framboð Kristjáns Þórs í prófkjöri innan Sjálfstæðisflokksins árin 2007 og 2013.
Segist ekkert hafa fundað með Samherjamönnum
Kristján Þór birti stöðuuppfærslu á Facebook 12. desember 2017 þar sem hann sagði að sér væri „ljúft og skylt að upplýsa að við Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, höfum þekkst síðan við vorum ungir menn“. Þar sagði einnig að hann teldi sig „hæfan til þess að taka ákvarðanir um málefni sem snerta sjávarútveginn á Íslandi í heild sinni. Komi upp mál sem snerta Samherja mun ég að sjálfsögðu meta hæfi mitt í ljósi framangreinds líkt og allir stjórnmálamenn þurfa að gera þegar fjölskyldu-, vina- og kunningjatengsl gætu haft áhrif á afstöðu til einstakra mála“.
Þegar Kristján Þór kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í janúar sagði hann að það væri erfitt að greina á milli þess hvenær maður væri að tala við vin og hvenær maður væri að tala við forsvarsmann fyrirtækis. Þetta væri einn og sami maðurinn. Þessi orð lét hann falla þegar ráðherrann var spurður út í símtal sem hann átti við Þorstein Má þegar málefni Samherja komust í hámæli í fyrrahaust. Það símtal, þar sem Kristján Þór spurði Þorstein Má meðal annars hvernig hann hefði það, hefur verið harðlega gagnrýnt af mörgum, meðal annars af þingmönnum stjórnarandstöðunnar.
Samherji kynnti Síldarvinnsluna sem hluta af samstæðunni
Hæfi Kristjáns Þórs kom á ný til umræðu eftir að Samherjamálið svokallaða var opinberað í nóvember þegar Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera birtu umfjöllun sína um viðskiptahætti Samherja í Namibíu og víðar þar sem fjallað var um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu.
Þorsteinn Már sagði af sér tímabundið sem forstjóri í kjölfar þeirrar umfjöllunar, en hann tók aftur við því starfi fyrir skemmstu.
Greint var frá því 20. desember síðastliðinn að Kristján Þór hefði ákveðið á grundvelli stjórnsýslulaga að víkja sæti við meðferð og töku ákvarðana í fjórum stjórnsýslukærum tengdum Samherja. Það gerði hann, að eigin sögn vegna þess að það skipti ekki síst máli að sá sem taki ákvörðun í málunum líti á sitt hæfi heldur líka hvernig hún muni horfa við borgurunum.
Í Samherjaskjölunum, sem Wikileaks birti samhliða umfjöllun áðurnefndra fjölmiðla, voru líka upplýsingar um Síldarvinnsluna. Samherji á, beint og óbeint, 49,9 prósent hlut í Síldarvinnslunni en samkvæmt lögum þarf sjávarútvegsfyrirtæki að eiga yfir 50 prósent í öðru slíku til að þau teljist tengd. Þorsteinn Már var stjórnarformaður Síldarvinnslunnar um árabil, en sagði af sér eftir að Samherjamálið kom upp seint á síðasta ári.
Í skjölunum kom fram að fyrrverandi forstjóri Síldarvinnslunnar og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar voru að kynna Síldarvinnsluna sem uppsjávarhluta Samherja á fundum erlendis á árunum 2011 og 2012.
Væru þessi tvö fyrirtæki, og önnur sem halda á kvóta og eru í þeirra eigu, skilgreind sem tengd þá væri samanlögð aflahlutdeild þeirra um 16,6 prósent samkvæmt tölum frá því í september, eða langt yfir lögbundnu tólf prósent hámarki, sem var sett til að koma í veg fyrir að of mikið af aflaheimildum myndi safnast á fárra hendur.