Mynd: Samherji

Samherji kynnti Síldarvinnsluna sem hluta af samstæðunni

Þegar Samherji kynnti samstæðuna sína erlendis þá var Síldarvinnslan kynnt sem uppsjávarhluti hennar og myndir birtar af starfsemi fyrirtækisins. Á Íslandi hefur Samherji aldrei gengist við því að Síldarvinnslan sé tengdur aðili, enda fer sameiginlegur kvóti samstæðunnar þá langt yfir það þak á kvóta sem einn hópur má halda á. Samherji á, beint og óbeint, 49,9 prósent í Síldarvinnslunni.

Í glæru­kynn­ingum Sam­herja, sem eru hluti af þeim gögnum sem Wiki­leaks hefur birt á net­inu og eru ræki­lega merktar trún­að­ar­mál, má skýrt sjá að erlendis er Síld­ar­vinnslan kynnt sem hluti af Sam­herj­a­sam­stæð­unni. Á Íslandi hefur því hins vegar ætið verið haldið fram að Sam­herji og Síld­ar­vinnslan séu ekki tengdir aðil­ar, þrátt fyrir að Sam­herji og tengdir aðilar eigi alls 49,9 pró­sent í Síld­ar­vinnsl­unni og að Þor­steinn Már Bald­vins­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Sam­herja, hafi verið stjórn­ar­for­maður Síld­ar­vinnsl­unnar þangað til á mánu­dag, þegar hann steig tíma­bundið til hliðar úr þeim stóli. Eign­ar­haldið er með þeim hætti að Sam­herji á beint 44,6 pró­sent í Síld­ar­vinnsl­unni en auk þess á Kald­bak­­ur, félag í eigu Sam­herja, á 15 pró­­sent hlut í öðru félagi sem á 5,3 pró­­sent hlut í Síld­­ar­vinnsl­unn­i.  

Í kynn­ingu frá árunum 2011 og 2012, sem unnin var af Aðal­steini Helga­syni, fyrr­ver­andi for­stjóra Síld­ar­vinnsl­unnar og yfir­manni Afr­íku­veiða Sam­herja, og Bald­vini Þor­steins­syni, fram­kvæmda­stjóra við­skipta­þró­unar Sam­herja og sonur Þor­steins Más, og sýnir starf­semi þess sem er kallað „Sam­herji Group“ er Síld­ar­vinnslan flokkuð sem hluti af upp­sjáv­ar­starf­semi sam­stæð­unn­ar.

 Á Íslandi eru Sam­herji og Síld­ar­vinnslan hins vegar ekki flokkuð sem tengdir aðil­ar. Raunar hafa báðir aðilar lagt sig mjög fram um að sann­færa stjórn­völd og almenn­ing um að svo sé ekki. Í frétt sem birt­ist á vef Síld­ar­vinnsl­unnar árið 2013, ári eftir að umrædd glæru­kynn­ing var útbú­in, var til að mynda verið að svara því sem fyr­ir­tækið taldi vera „vill­andi full­yrð­ingar um tengsl Síld­ar­vinnsl­unnar og Sam­herja, þar sem við­kom­andi aðilar hafa vís­vit­andi reynt að gera eign­ar­hald á Síld­ar­vinnsl­unni hf. tor­tryggi­leg­t.“

Ástæðan er sú að ef Sam­herji og Síld­ar­vinnslan væru flokk­aðir sem tengdir aðilar væru þeir komnir langt yfir það 12 pró­sent kvóta­há­mark sem eitt íslenskt sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki, eða sam­stæða, má halda á. Sam­kvæmt lögum um stjórn fisk­veiða telj­ast aðilar tengdir ef „annar aðil­inn, ein­stak­lingur eða lög­að­ili, á beint eða óbeint meiri hluta hluta­fjár eða stofn­fjár í hinum aðil­anum eða fer með meiri hluta atkvæð­is­rétt­ar.“ 

Í sept­em­ber 2019 var Sam­herji með 7,1 pró­­sent kvót­ans. Útgerð­ar­fé­lag Akur­eyr­ar, sem er í 100 pró­sent eigu Sam­herja, heldur svo á 1,3 pró­sent kvót­ans og Sæból fjár­fest­inga­fé­lag heldur á 0,64 pró­sent hans. Síld­­ar­vinnslan heldur á 5,3 pró­­sent allra afla­heim­ilda og sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tækið Berg­­ur-Hug­inn er síðan með 2,3 pró­­sent kvót­ans en það er að öllu leyti í eigu Síld­­ar­vinnsl­unn­­ar. 

Úr kynningu sem stjórnendur Samherja unnu og er frá árinu 2012.
Mynd: Wikileaks lekinn

Sam­an­lagt er afla­hlut­­deild þess­­ara aðila er því rúm­lega 16,6 pró­­sent, eða langt yfir lög­bundnu hámarki, sem var sett til að koma í veg fyrir að of mikið af afla­heim­ildum myndi safn­ast á fárra hend­ur. 

Eft­ir­litið í molum

Rík­is­end­ur­skoðun benti á það í stjórn­sýslu­út­tekt á Fiski­stofu, sem birt var í jan­úar síð­ast­liðn­um, að hún kanni ekki hvort yfir­ráð tengdra aðila í sjáv­ar­út­vegi yfir afla­hlut­deildum væri í sam­ræmi við lög. Þ.e. að eft­ir­lits­að­il­inn með því að eng­inn hópur tengdra aðila ætti meira en 12 pró­sent af heild­ar­afla væri ekki að sinna því eft­ir­liti í sam­ræmi við lög. Hingað til hefur eft­ir­litið með þessu verið þannig háttað að starfs­menn frá Fiski­stofu hafa farið tvisvar á ári og spurt sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækin um hversu miklum kvóta þau og tengdir aðilar halda á. Sam­kvæmt skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar var um tvö dags­verk að ræða á ári. „Fiski­stofa treystir nán­ast alfarið á til­kynn­ing­ar­skyldu fyr­ir­tækja við eft­ir­lit með sam­þjöppun afla­heim­ilda,“ segir í skýrsl­unni.

Ef ein­hver reyn­ist vera með yfir 12 pró­sent af kvót­an­um, sam­kvæmt eigin skil­grein­ingu á því hvað felist í tengdum aðil­um, þá fær við­kom­andi sex mán­uði til að kom­ast undir þak­ið. 

Rík­is­end­ur­skoðun sagði í skýrslu sinni að ráð­ast þyrfti í end­ur­skoðun á ákvæðum laga um stjórn fisk­veiða um „bæði yfir­ráð og tengsl aðila svo tryggja megi mark­visst eft­ir­lit með sam­þjöppun afla­heim­ilda“.

Í skýrsl­unni er líka rakið að Fiski­stofa hafi, á árunum 2009 og 2010, fram­kvæmt frum­kvæð­is­rann­sókn á Sam­herja, Síld­ar­vinnsl­unni og Gjög­ur, sem er næst stærsti eig­andi Síld­ar­vinnsl­unnar með 34,2 pró­sent eign­ar­hlut. Gjög­ur, sem er meðal ann­ars í eigu Björg­ólfs Jóhanns­son­ar, sitj­andi for­stjóra Sam­herja, og systk­ina hans, heldur einnig á 1,05 pró­sent alls kvóta um þessar mund­ir. Björgólfur er auk þess í stjórn Gjög­ur­s. 

Rík­is­end­ur­skoðun segir að sér­stakur vinnu­hópur Fiski­stofu hafi þá „til skoð­unar hvort telja ætti fyr­ir­tækin sem tengda aðila. Þau svör­uðu því til að engin rök væru fyrir því að Sam­herji og Gjögur færu með raun­veru­leg yfir­ráð yfir Síld­ar­vinnsl­unni. Rann­sóknin átti sam­kvæmt upp­lýs­ingum Rík­is­end­ur­skoð­unar stóran þátt í þeirri nið­ur­stöðu Fiski­stofu að erfitt sé að sýna fram á óbein yfir­ráð aðila yfir afla­hlut­deildum miðað við núgild­andi lög og færa rök fyrir því hvenær tveir eða fleiri aðilar skuli telj­ast tengd­ir[...]­Fiski­stofa hafi af þeim sökum ekki sinnt virku eft­ir­liti með tengslum fyr­ir­tækja sam­kvæmt ákvæð­in­u.“

Tveimur árum eftir að þessi skoðun var fram­kvæmd var Sam­herji að kynna Síld­ar­vinnsl­una sem hluta af sam­stæðu sinni í Afr­íku, sam­kvæmt áður­nefndri glæru­kynn­ing­u. 

Upp­sjáv­ar­starf­semi Sam­herja

Þessi mál er einnig rakin í bók­inni „Ekk­ert að fela – Á slóð Sam­herja í Afr­ík­u“, sem kom út síð­ast­lið­inn mánu­dag og er eftir þá Helga Selja, Aðal­stein Kjart­ans­son og Stefán Aðal­stein Drengs­son, sama teymi og vann Kveiks-þátt­inn um við­skipta­hætti fyr­ir­tæk­is­ins í Namib­íu. Þar segir að í glæru­kynn­ingum sem höf­undar höfðu undir höndum hafi verið fjöl­margar myndir af starf­semi Sam­herja á Íslandi. „Til dæmis er mynd af athafna­svæði Síld­ar­vinnsl­unnar í Nes­kaup­stað, hinni risa­vöxnu kæli­geymslu, fisk­vinnslu og fiski­mjöls­verk­smiðju í fjarð­ar­botn­inum í Norð­firði sem Sam­herji kallar „upp­sjáv­ar­starf­semi Sam­herj­a“. 

Í bók­inni segir enn frem­ur: „Í sömu kynn­ingum er full­yrt að Sam­herji sé stærsta sjávar - útvegs­fyr­ir­tæki Íslands, og enn fremur stærsta upp­sjáv­ar­veiði­fyr­ir­tæki lands­ins. Sam­herji telst vera hvor­ugt, nema starf­semi Síld­ar­vinnsl­unnar sé talin hluti af Sam­herj­a.“

Úr glærukynningunni frá árinu 2012.
Mynd: Wikileaks lekinn

Þar er auk þess greint frá því að Sam­keppn­is­eft­ir­litið hafi, í kjöl­far skoð­unar Fiski­stofu, ákveðið að kanna hvort að Sam­herji, Gjögur og Síld­ar­vinnslan væru ótengd líkt og þau hefðu haldið fram. „Sam­keppn­is­eft­ir­litið sagði um nið­ur­stöður frum­rann­sóknar sinn­ar: Rann­sókn máls­ins hefur leitt í ljós umtals­verða sam­vinnu milli þess­ara fyr­ir­tækja í útgerð, fisk­vinnslu og sölu afurða. Þá eiga Sam­herji og Gjögur full­trúa í stjórn Síld­ar­vinnsl­unn­ar. Í ljósi þessa er það nið­ur­staða Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins að óhjá­kvæmi­legt sé að hefja nýtt stjórn­sýslu­mál þar sem tekið verður til athug­unar hvort Síld­ar­vinnslan, Sam­herji og Gjögur hafi brotið gegn banni sam­keppn­islaga við sam­keppn­is­hamlandi sam­vinnu keppi­nauta. Nærri fimm árum síðar spurð­ist blaða­maður Frétta­blaðs­ins fyrir um gang rann­sókn­ar­inn­ar. Svörin sem hann fékk voru þau að rann­sókn­inni hefði verið hætt. Ekki vegna þess að til­efnið skorti, heldur vegna þess að málið hafði dagað uppi hjá Sam­keppn­is­eft­ir­lit­inu vegna seina­gangs og því þótti ekki for­svar­an­legt annað en að ljúka því án nið­ur­stöðu. Það hefði ein­fald­lega verið of mikið að gera hjá Sam­keppn­is­eft­ir­lit­in­u.“

Fjórir hópar með rúm­lega helm­ing kvót­ans

Sam­herj­a­sam­stæðan er ekki sú eina sem liggur undir grun um að vera komin vel yfir 12 pró­sent afla­hlut­deild­ar­mark­ið. Raunar liggur fyr­ir, líkt og Kjarn­inn greindi frá á mánu­dag, að Brim fór yfir það hámark fyrr í nóv­em­ber þegar stjórn þess sam­þykkti samn­inga um kaup á tveimur sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tækjum í Hafn­­ar­­firði, Fisk­vinnsl­unni Kambi og Grá­brók. Sam­an­lagt kaup­verð nemur rúm­­lega þremur millj­­örðum króna. 

Stærsti eig­andi Brim er Útgerð­­ar­­fé­lag Reykja­vík­­­ur, sem á allt að 56 pró­­sent hlut í því félagi. Það félag var 1. sept­­em­ber síð­­ast­lið­inn með 3,9 pró­­sent af öllum úthlut­uðum kvóta. Auk þess var félagið Ögur­vík með 1,3 pró­­sent afla­hlut­­deild. Stærstu ein­­stöku eig­endur þess eru Guð­­mundur Krist­jáns­­son, aðal­­eig­andi Útgerð­­ar­­fé­lags Reykja­víkur og for­­stjóri Brims, og tvö syst­k­ini hans með sam­an­lagðan 36,66 pró­­sent end­an­­legan eign­­ar­hlut.

Sam­an­lagður kvóti þess­­ara þriggja félaga, sem eru ekki skil­­greind sem tengd, var því 15,6 pró­­sent í byrjun sept­­em­ber síð­­ast­lið­ins, og hið minnsta rúm­lega 17 pró­sent eins og er. 

Aðrir hópar eru líka stór­ir. Kaup­­fé­lag Skag­­firð­inga á til dæmis FISK Seafood, sem heldur á 5,3 pró­­sent heild­­ar­kvót­ans. FISK á 32,9 pró­­sent í Vinnslu­­stöð­inni í Vest­­manna­eyjum sem er með fimm pró­­sent heild­­ar­afla­hlut­­deild. Þá eign­að­ist FISK allt hlutafé í Soff­an­­ías Cecils­­son hf. síðla árs 2017, en það fyr­ir­tæki heldur á um 0,3 pró­­sent kvót­ans. Sam­tals nemur heild­­ar­kvóti þess­­ara þriggja aðila 10,6 pró­­sent. 

Vísi og Þor­birni í Grinda­vík halda síðan sam­an­lagt á 8,4 pró­­sent af heild­­ar­kvót­­an­um. Þau fyr­ir­tæki eru nú í sam­eig­ing­­ar­við­ræð­­um. Sam­an­lagt eru þessar fjórar blokkir því með vel yfir helm­ing alls úthlut­aðs kvóta, eða tæp­lega 53 pró­sent hið minnsta.

Nánir vinir en aldrei van­hæfur

Eftir að skýrsla Rík­is­end­ur­skoð­unar um Fiski­stofu var birt í jan­úar skip­aði Krist­ján Þór Júl­í­us­son verk­efn­is­stjórn til að koma með til­lögur um bætt eft­ir­lit með fisk­veiði­auð­lind­inni. Hún átti meðal ann­ars að bregð­ast við ábend­ingum um þá stöðu að eft­ir­lit með kvóta­sam­þjöppun væri í mol­u­m. 

Krist­ján Þór og Þor­steinn Már Bald­vins­son eru nánir vin­ir. Auk þess var Krist­ján Þór stjórn­ar­for­maður Sam­herja um tíma fyrir tæpum tveimur ára­tugum og hefur farið á veiðar á skipum sam­stæð­unnar í þing­fr­íum í for­tíð­inni. Þegar Krist­ján Þór var gerður að sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra í rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur síðla árs 2017 skap­að­ist umræða um hæfi hans sam­kvæmt stjórn­sýslu­lögum til að koma að ákvörð­unum sem tengd­ust Sam­herja, í ljósi ofan­greindra tengsla. Krist­ján Þór sagði þá sjálfur að hann kunni að vera van­hæfur í málum sem tengj­ast Sam­herja. Í sam­tali við Stund­ina á þeim tíma sagði hann: „Komi upp mál sem snerta Sam­herja sér­stak­lega mun ég að sjálf­sögðu meta hæfi mitt í ljósi fram­an­greinds.“ Krist­ján Þór upp­lýsti um það á Alþingi 14. nóv­em­ber síð­ast­lið­inn að hann hafi aldrei metið sig van­hæfan til að taka ákvarð­anir sem snerta Sam­herja.

Í gær, þriðju­dag, fund­aði rík­is­stjórn Íslands um „að­gerðir sínar til að auka traust á íslensku atvinnu­líf­i“. Ástæðan fyrir þessu var Sam­herj­a­mál­ið. Þar var til­greint um sjö aðgerðir sem grípa ætti til vegna þessa, þótt þorri þeirra hefði áður komið fram og væru ekki nýjar af nál­inni. Krist­ján Þór sat fund rík­is­stjórn­ar­innar og tók þátt í mótun aðgerð­anna sem eru til komnar vegna Sam­herj­a­máls­ins. 

Í morgun skrif­aði hann svo grein í Morg­un­blaðið þar sem hann sagði að í kjöl­far umræðu síð­ustu daga hefði hann óskað eftir því við nefnd­ina sem hann skip­aði til að taka á fram­fylgd laga um kvóta­þak, sem Sam­herji liggur undir grun um að hafa snið­geng­ið, að hún skili til­lögum þar að lút­andi fyrir 1. jan­úar 2020.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar