Mynd: Samherji

Samherji kynnti Síldarvinnsluna sem hluta af samstæðunni

Þegar Samherji kynnti samstæðuna sína erlendis þá var Síldarvinnslan kynnt sem uppsjávarhluti hennar og myndir birtar af starfsemi fyrirtækisins. Á Íslandi hefur Samherji aldrei gengist við því að Síldarvinnslan sé tengdur aðili, enda fer sameiginlegur kvóti samstæðunnar þá langt yfir það þak á kvóta sem einn hópur má halda á. Samherji á, beint og óbeint, 49,9 prósent í Síldarvinnslunni.

Í glærukynningum Samherja, sem eru hluti af þeim gögnum sem Wikileaks hefur birt á netinu og eru rækilega merktar trúnaðarmál, má skýrt sjá að erlendis er Síldarvinnslan kynnt sem hluti af Samherjasamstæðunni. Á Íslandi hefur því hins vegar ætið verið haldið fram að Samherji og Síldarvinnslan séu ekki tengdir aðilar, þrátt fyrir að Samherji og tengdir aðilar eigi alls 49,9 prósent í Síldarvinnslunni og að Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, hafi verið stjórnarformaður Síldarvinnslunnar þangað til á mánudag, þegar hann steig tímabundið til hliðar úr þeim stóli. Eignarhaldið er með þeim hætti að Samherji á beint 44,6 prósent í Síldarvinnslunni en auk þess á Kald­bak­ur, félag í eigu Sam­herja, á 15 pró­sent hlut í öðru félagi sem á 5,3 pró­sent hlut í Síld­ar­vinnsl­unni.  

Í kynningu frá árunum 2011 og 2012, sem unnin var af Aðalsteini Helgasyni, fyrrverandi forstjóra Síldarvinnslunnar og yfirmanni Afríkuveiða Samherja, og Baldvini Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar Samherja og sonur Þorsteins Más, og sýnir starfsemi þess sem er kallað „Samherji Group“ er Síldarvinnslan flokkuð sem hluti af uppsjávarstarfsemi samstæðunnar.

 Á Íslandi eru Samherji og Síldarvinnslan hins vegar ekki flokkuð sem tengdir aðilar. Raunar hafa báðir aðilar lagt sig mjög fram um að sannfæra stjórnvöld og almenning um að svo sé ekki. Í frétt sem birtist á vef Síldarvinnslunnar árið 2013, ári eftir að umrædd glærukynning var útbúin, var til að mynda verið að svara því sem fyrirtækið taldi vera „villandi fullyrðingar um tengsl Síldarvinnslunnar og Samherja, þar sem viðkomandi aðilar hafa vísvitandi reynt að gera eignarhald á Síldarvinnslunni hf. tortryggilegt.“

Ástæðan er sú að ef Samherji og Síldarvinnslan væru flokkaðir sem tengdir aðilar væru þeir komnir langt yfir það 12 prósent kvótahámark sem eitt íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki, eða samstæða, má halda á. Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða teljast aðilar tengdir ef „annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár í hinum aðilanum eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar.“ 

Í september 2019 var Sam­herji með 7,1 pró­sent kvót­ans. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag heldur á 0,64 prósent hans. Síld­ar­vinnslan heldur á 5,3 pró­sent allra afla­heim­ilda og sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækið Berg­ur-Hug­inn er síðan með 2,3 pró­sent kvót­ans en það er að öllu leyti í eigu Síld­ar­vinnsl­unn­ar. 

Úr kynningu sem stjórnendur Samherja unnu og er frá árinu 2012.
Mynd: Wikileaks lekinn

Sam­an­lagt er afla­hlut­deild þess­ara aðila er því rúmlega 16,6 pró­sent, eða langt yfir lögbundnu hámarki, sem var sett til að koma í veg fyrir að of mikið af aflaheimildum myndi safnast á fárra hendur. 

Eftirlitið í molum

Ríkisendurskoðun benti á það í stjórnsýsluúttekt á Fiskistofu, sem birt var í janúar síðastliðnum, að hún kanni ekki hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum væri í samræmi við lög. Þ.e. að eftirlitsaðilinn með því að enginn hópur tengdra aðila ætti meira en 12 prósent af heildarafla væri ekki að sinna því eftirliti í samræmi við lög. Hingað til hefur eftirlitið með þessu verið þannig háttað að starfsmenn frá Fiskistofu hafa farið tvisvar á ári og spurt sjávarútvegsfyrirtækin um hversu miklum kvóta þau og tengdir aðilar halda á. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar var um tvö dagsverk að ræða á ári. „Fiskistofa treystir nánast alfarið á tilkynningarskyldu fyrirtækja við eftirlit með samþjöppun aflaheimilda,“ segir í skýrslunni.

Ef einhver reynist vera með yfir 12 prósent af kvótanum, samkvæmt eigin skilgreiningu á því hvað felist í tengdum aðilum, þá fær viðkomandi sex mánuði til að komast undir þakið. 

Ríkisendurskoðun sagði í skýrslu sinni að ráðast þyrfti í endurskoðun á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða um „bæði yfirráð og tengsl aðila svo tryggja megi markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda“.

Í skýrslunni er líka rakið að Fiskistofa hafi, á árunum 2009 og 2010, framkvæmt frumkvæðisrannsókn á Samherja, Síldarvinnslunni og Gjögur, sem er næst stærsti eigandi Síldarvinnslunnar með 34,2 prósent eignarhlut. Gjögur, sem er meðal annars í eigu Björgólfs Jóhannssonar, sitjandi forstjóra Samherja, og systkina hans, heldur einnig á 1,05 prósent alls kvóta um þessar mundir. Björgólfur er auk þess í stjórn Gjögurs. 

Ríkisendurskoðun segir að sérstakur vinnuhópur Fiskistofu hafi þá „til skoðunar hvort telja ætti fyrirtækin sem tengda aðila. Þau svöruðu því til að engin rök væru fyrir því að Samherji og Gjögur færu með raunveruleg yfirráð yfir Síldarvinnslunni. Rannsóknin átti samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar stóran þátt í þeirri niðurstöðu Fiskistofu að erfitt sé að sýna fram á óbein yfirráð aðila yfir aflahlutdeildum miðað við núgildandi lög og færa rök fyrir því hvenær tveir eða fleiri aðilar skuli teljast tengdir[...]Fiskistofa hafi af þeim sökum ekki sinnt virku eftirliti með tengslum fyrirtækja samkvæmt ákvæðinu.“

Tveimur árum eftir að þessi skoðun var framkvæmd var Samherji að kynna Síldarvinnsluna sem hluta af samstæðu sinni í Afríku, samkvæmt áðurnefndri glærukynningu. 

Uppsjávarstarfsemi Samherja

Þessi mál er einnig rakin í bókinni „Ekkert að fela – Á slóð Samherja í Afríku“, sem kom út síðastliðinn mánudag og er eftir þá Helga Selja, Aðalstein Kjartansson og Stefán Aðalstein Drengsson, sama teymi og vann Kveiks-þáttinn um viðskiptahætti fyrirtækisins í Namibíu. Þar segir að í glærukynningum sem höfundar höfðu undir höndum hafi verið fjölmargar myndir af starfsemi Samherja á Íslandi. „Til dæmis er mynd af athafnasvæði Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, hinni risavöxnu kæligeymslu, fiskvinnslu og fiskimjölsverksmiðju í fjarðarbotninum í Norðfirði sem Samherji kallar „uppsjávarstarfsemi Samherja“. 

Í bókinni segir enn fremur: „Í sömu kynningum er fullyrt að Samherji sé stærsta sjávar - útvegsfyrirtæki Íslands, og enn fremur stærsta uppsjávarveiðifyrirtæki landsins. Samherji telst vera hvorugt, nema starfsemi Síldarvinnslunnar sé talin hluti af Samherja.“

Úr glærukynningunni frá árinu 2012.
Mynd: Wikileaks lekinn

Þar er auk þess greint frá því að Samkeppniseftirlitið hafi, í kjölfar skoðunar Fiskistofu, ákveðið að kanna hvort að Samherji, Gjögur og Síldarvinnslan væru ótengd líkt og þau hefðu haldið fram. „Samkeppniseftirlitið sagði um niðurstöður frumrannsóknar sinnar: Rannsókn málsins hefur leitt í ljós umtalsverða samvinnu milli þessara fyrirtækja í útgerð, fiskvinnslu og sölu afurða. Þá eiga Samherji og Gjögur fulltrúa í stjórn Síldarvinnslunnar. Í ljósi þessa er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að óhjákvæmilegt sé að hefja nýtt stjórnsýslumál þar sem tekið verður til athugunar hvort Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur hafi brotið gegn banni samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samvinnu keppinauta. Nærri fimm árum síðar spurðist blaðamaður Fréttablaðsins fyrir um gang rannsóknarinnar. Svörin sem hann fékk voru þau að rannsókninni hefði verið hætt. Ekki vegna þess að tilefnið skorti, heldur vegna þess að málið hafði dagað uppi hjá Samkeppniseftirlitinu vegna seinagangs og því þótti ekki forsvaranlegt annað en að ljúka því án niðurstöðu. Það hefði einfaldlega verið of mikið að gera hjá Samkeppniseftirlitinu.“

Fjórir hópar með rúmlega helming kvótans

Samherjasamstæðan er ekki sú eina sem liggur undir grun um að vera komin vel yfir 12 prósent aflahlutdeildarmarkið. Raunar liggur fyrir, líkt og Kjarninn greindi frá á mánudag, að Brim fór yfir það hámark fyrr í nóvember þegar stjórn þess samþykkti samn­inga um kaup á tveimur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækjum í Hafn­ar­firði, Fisk­vinnsl­unni Kambi og Grá­brók. Sam­an­lagt kaup­verð nemur rúm­lega þremur millj­örðum króna. 

Stærsti eig­andi Brim er Útgerð­ar­fé­lag Reykja­vík­ur, sem á allt að 56 pró­sent hlut í því félagi. Það félag var 1. sept­em­ber síð­ast­lið­inn með 3,9 pró­sent af öllum úthlut­uðum kvóta. Auk þess var félagið Ögur­vík með 1,3 pró­sent afla­hlut­deild. Stærstu ein­stöku eig­endur þess eru Guð­mundur Krist­jáns­son, aðal­eig­andi Útgerð­ar­fé­lags Reykja­víkur og for­stjóri Brims, og tvö systk­ini hans með sam­an­lagðan 36,66 pró­sent end­an­legan eign­ar­hlut.

Sam­an­lagður kvóti þess­ara þriggja félaga, sem eru ekki skil­greind sem tengd, var því 15,6 pró­sent í byrjun sept­em­ber síð­ast­lið­ins, og hið minnsta rúmlega 17 prósent eins og er. 

Aðrir hópar eru líka stórir. Kaup­fé­lag Skag­firð­inga á til dæmis FISK Seafood, sem heldur á 5,3 pró­sent heild­ar­kvót­ans. FISK á 32,9 pró­sent í Vinnslu­stöð­inni í Vest­manna­eyjum sem er með fimm pró­sent heild­ar­afla­hlut­deild. Þá eign­að­ist FISK allt hlutafé í Soff­an­ías Cecils­son hf. síðla árs 2017, en það fyr­ir­tæki heldur á um 0,3 pró­sent kvót­ans. Sam­tals nemur heild­ar­kvóti þess­ara þriggja aðila 10,6 pró­sent. 

Vísi og Þor­birni í Grinda­vík halda síðan sam­an­lagt á 8,4 pró­sent af heild­ar­kvót­anum. Þau fyrirtæki eru nú í sam­eig­ing­ar­við­ræð­um. Samanlagt eru þessar fjórar blokkir því með vel yfir helming alls úthlutaðs kvóta, eða tæplega 53 prósent hið minnsta.

Nánir vinir en aldrei vanhæfur

Eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar um Fiskistofu var birt í janúar skipaði Kristján Þór Júlíusson verkefnisstjórn til að koma með tillögur um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Hún átti meðal annars að bregðast við ábendingum um þá stöðu að eftirlit með kvótasamþjöppun væri í molum. 

Kristján Þór og Þorsteinn Már Baldvinsson eru nánir vinir. Auk þess var Kristján Þór stjórnarformaður Samherja um tíma fyrir tæpum tveimur áratugum og hefur farið á veiðar á skipum samstæðunnar í þingfríum í fortíðinni. Þegar Kristján Þór var gerður að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur síðla árs 2017 skapaðist umræða um hæfi hans samkvæmt stjórnsýslulögum til að koma að ákvörðunum sem tengdust Samherja, í ljósi ofangreindra tengsla. Kristján Þór sagði þá sjálfur að hann kunni að vera vanhæfur í málum sem tengjast Samherja. Í samtali við Stundina á þeim tíma sagði hann: „Komi upp mál sem snerta Samherja sérstaklega mun ég að sjálfsögðu meta hæfi mitt í ljósi framangreinds.“ Kristján Þór upplýsti um það á Alþingi 14. nóvember síðastliðinn að hann hafi aldrei metið sig vanhæfan til að taka ákvarðanir sem snerta Samherja.

Í gær, þriðjudag, fundaði ríkisstjórn Íslands um „aðgerðir sínar til að auka traust á íslensku atvinnulífi“. Ástæðan fyrir þessu var Samherjamálið. Þar var tilgreint um sjö aðgerðir sem grípa ætti til vegna þessa, þótt þorri þeirra hefði áður komið fram og væru ekki nýjar af nálinni. Kristján Þór sat fund ríkisstjórnarinnar og tók þátt í mótun aðgerðanna sem eru til komnar vegna Samherjamálsins. 

Í morgun skrifaði hann svo grein í Morgunblaðið þar sem hann sagði að í kjölfar umræðu síðustu daga hefði hann óskað eftir því við nefndina sem hann skipaði til að taka á framfylgd laga um kvótaþak, sem Samherji liggur undir grun um að hafa sniðgengið, að hún skili tillögum þar að lútandi fyrir 1. janúar 2020.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar