Mynd: Skjáskot

Raunveruleg ástæða þess að norskur stórbanki sagði upp viðskiptum við Samherja

Norska efnahagsbrotadeildin rannsakar hvort DNB bankinn hafi tekið þátt í glæpsamlegu athæfi með því að tilkynna ekki millifærslur Samherjafélags til félags í Dúbaí til fjármálaeftirlits sem grunsamlegar millifærslur. DNB sagði upp viðskiptum við Samherja eftir að meintar mútugreiðslur fyrirtækisins voru opinberaðar.

Norski bankinn DNB, sem er að hluta til í eiga norska ríkisins, lauk viðskiptasambandi sínu við Samherja í lok síðasta árs vegna þess að stjórnendur dótturfélaga sjávarútvegsrisans, sem áttu reikninga í bankanum, svöruðu ekki kröfu bankans um frekari upplýsingar um starfsemi þess, millifærslur sem það framkvæmdi og tengda aðila, með fullnægjandi hætti. Þá er norska efnahagsbrotadeildin Økokrim er með millifærslur sem greiddar voru út af reikningum Samherja hjá DNB og inn á reikning í Dúbaí, í eigu þáverandi stjórnarformanns ríkisútgerðar Namibíu, til rannsóknar. Undirliggjandi í þeirri rannsókn er hvort að DNB hafi tekið þátt í glæpsamlegu athæfi með því að tilkynna greiðslurnar ekki til norska fjármálaeftirlitsins. 

Þetta kemur fram í málsgögnum sem ríkissaksóknari Namibíu hefur lagt fram vegna kyrrsetningamáls þar í landi.

DNB krafðist upplýsinganna seint í nóvember í fyrra, í kjölfar þess að Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera opinberuðu viðskiptahætti Samherja í Namibíu. Í þeirri umfjöllun var fjallað um meintar mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti. 

Þegar svör Samherjasamstæðunnar reyndust ekki fullnægjandi ákvað DNB að slíta viðskiptasambandi við hana. Það var gert með bréfi sem var sent 9. desember 2019.

Auglýsing

Málefni Samherja eru nú til rannsóknar í að minnsta kosti þremur löndum: Namibíu, Íslandi og Noregi. Sex manns sitja í gæsluvarðhaldi í Namibíu vegna málsins og sex Íslendingar eru með réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á málinu á Íslandi. Á meðal þeirra er Þorsteinn Már Baldvinsson, annar forstjóra Samherja. 

Málsgögn aðgengileg á netinu

Á vefnum eJUSTICE Namibia er hægt að nálgast greinargerð ríkissaksóknara Namibíu í málum þar sem krafist er kyrrsetningar á eignum Samherja sem metnar eru á nokkra milljarða króna og kyrrsetningar á eignum þeirra sex Namibíumanna sem sitja í gæsluvarðhaldi, og tíu félaga á þeirra vegum. Þetta er meðal annars gert á grundvelli laga um varnir gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Í grein­ar­gerð­inni er sex­menn­ing­unum og fimm Íslend­ing­um, undir for­ystu Þor­steins Más, lýst sem skipu­lögðum glæpa­hóp.

Í gögnunum sem aðgengileg eru á eJUSTICE Namibia eru líka þúsundir annarra skjala, fylgigögn sem styðja við það sem sagt er í greinargerðunum. 

Á meðal þess sem þar er að finna eru tölvupóstsamskipti DNB og félaga í eigu Samherja sem áttu sér stað seint á síðasta ári. 

Óskað eftir gögnum

Í skjölunum má finna upplýsingar um það hvernig bankaviðskiptum DNB við fjölda félaga í eigu Samherja var lokið. Hægt er að sjá nöfn þeirra félaga hér að neðan.

Yfirlit yfir félög úr samstæðu Samherja sem voru með bankareikninga í DNB.
Mynd: Skjáskot

Eitt þessara félaga heitir Noa Pelagic Limited, er í eigu Samherja og með heimilisfesti á Kýpur. 

29. nóvember 2019 sendi norski bankinn DNB tölvupóst á Ingvar Júlíusson, fjármálastjóra Samherja á Kýpur, þar sem bankinn óskaði eftir uppfærðum upplýsingum um Noa Pelagic Limited, meðal annars á grundvelli laga um peningaþvætti. Í póstinum var vísað sérstaklega í þær upplýsingar sem komu fram í opinberun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera á viðskiptaháttum Samherja í Namibíu nokkrum dögum fyrr.

Í tölvupóstinum óskaði DNB eftir ýmiskonar gögnum og að Ingvar, fyrir hönd Noa Pelagic Limited, myndi leggja mat á þær ásakanir sem fram höfðu komið og hvort það væri hætta á því að viðskiptasamband félagsins við DNB hefði verið, eða gæti verið notað, til að meðhöndla illa fengið fé. 

Á meðal þeirra ganga sem óskað var eftir voru ársreikningar fyrir árin 2016,2017 og 2018, skráningargögn, endurskoðunarskýrslur, samantekt á öllum starfsmönnum félagsins og öðrum sem kæmu fram fyrir þess hönd og lýsingu á starfsemi félagsins. Þá krafðist DNB þess að fá upplýsingar um alla viðskiptavini Noa Pelagic og nánustu samstarfsfélög félagsins. 

Sérstök áhersla á millifærslur til Dúbaí

Þá vildi DNB fá upplýsingar um ýmsar millifærslur af reikningum Noa Pelagic á undanförnum árum. Sú beiðni var í tveimur hlutum. Fyrri hluti hennar snerist um að fá upplýsingar um á fjórða tug millifærsla inn á reikninga Cape Cod Fs. Ltd. á árunum 2016 til 2018. Samanlagt virði þeirra er um 155 milljónir króna á núverandi gengi. Seinni hlutinn snýst um fjölda millifærslna inn á reikninga félaga í eigu Samherja. 

Auglýsing

Annars vegar er um að ræða greiðslur frá félaginu Karee Investments One Eight Zero, nambísks félags í eigu Samherja, inn á reikninganna og hins vegar út af þeim til Tundavala Investment Limited. Umræddar millifærslur áttu sér stað frá febrúar 2017 og til loka janúar 2019. Samanlagt er um að ræða millifærslur upp á rúmlega 3,8 milljónir dala, um 490 milljónir króna á núverandi gengi.

Fyrra félagið, Karee Investments One Eight Zero, er dótturfélag Esju Investments, félags skráð í skattaskjólinu Mauritíus. Eignarhald Esju teygir sig svo í gegnum net aflandsfélaga, meðal annars á Kýpur, sem eru í eigu Sæbóls Fjárfestingafélags á Íslandi. Eini eigandi Sæbóls er Samherji hf., samkvæmt myndi sem norska efnahagsbrotadeildin Økokrim teiknaði upp af erlendri starfsemi Samherja.


Erlend starfsemi Samherja eins og hún var teiknuð upp af Økokrim fyrr á þessu ári.
Mynd: Skjáskot

Í umfjöllun Kveiks fyrir rúmu ári kom fram að Sam­herji hefði nýtt sér tvísköttunarsamning við eyj­una Mári­tíus í við­skiptum sínum í Namibíu og flutt hagnað sem varð til vegna veiða þar í lág­skatt­ar­skjólið Kýp­ur, þar sem Sam­herji hefur stofnað tug félaga á und­an­förnum árum. Frá Kýpur fóru pen­ing­arnir svo inn á banka­reikn­ing Sam­herja í DNB.

DNB til rannsóknar vegna millifærslna Samherja

Seinna félagið, Tundavala, var skráð í Dúbaí og er í eigu James Hatuikulipi. Hann er frændi Tamson Hatuikulipi, tengdasonar Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra. James er líka fyrr­ver­andi stjórn­ar­for­maður rík­is­út­gerð­ar­fyr­ir­tæk­is­ins Fischor sem tryggði Samherja hrossamakrílkvóta í Namibíu. Hann, Tamson og Bernhard Esau eru á meðal þeirra sex einstaklinga sem setið hafa í gæsluvarðhaldi í Namibíu í rúmt ár fyrir að hafa stundað skipulega glæpastarfsemi og þegið mútur í tengslum við kvótaviðskipti Samherja þar í landi.

Í tölvupóstinum til Ingvars er honum, og Noa Pelagic, gefið til 4. desember 2019 til að bregðast við, eða fimm daga. 

Það var kannski ekki skrýtið að DNB væri að bregðast hratt og hart við gagnvart Samherja. 

Økokrim var að rannsaka hvort að DNB hefði tekið þátt í glæpsamlegu athæfi vegna hlutverks hans í því sem „virðist vera mútugreiðslur sem greiddar voru af bankareikningum félaga Samherja hjá DNB,“ samkvæmt því sem fram kemur í bréfi Økokrim sem finna má í skjölunum, og er dagsett 29. apríl 2020.

Rannsóknin snýr enn sem komið er að uppistöðu að því að komast til botns í því af hverju DNB tilkynnti ekki greiðslur til Tundavala til norska fjármálaeftirlitsins sem grunsamlegrar millifærslur.

Úr bréfi Økokrim til namibískra yfirvalda dagsett 29. apríl 2020.
Mynd: Skjáskot

Þann 9. desember sendi DNB nýtt bréf til fyrirsvarsmanna Noa Pelagic. Þar er þeim tilkynnt að skýringar á þeim þáttum sem velt var upp í bréfinu 29. nóvember væru ekki fullnægjandi. Þessu dótturfélagi Samherja yrði hent úr viðskiptum við norska stórbankann og þremur gjaldeyrisreikningum þess hjá honum lokað. Það var meðal annars gert með vísun í norsk peningaþvættislög. 

Þetta þýddi að frá 2. janúar 2020 myndi hvorki vera hægt að leggja inn á eða taka út af umræddum reikningum. Sama átti við um bankareikninga annarra félaga innan Samherjasamstæðunnar hjá DNB.

Telur sig ekki hafa gefið rangar eða villandi upplýsingar

Í viðtali við Stundina 13. febrúar 2020 sagði Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóra Samherja, að DNB hafi ekki gefið neinar skýringar á því af hverju viðskiptasambandi bankans var sagt upp. 

Sú skýring stangast á við tölvupóst DNB til fjármálastjóra Samherja á Kýpur 9. desember 2019, sem rakinn var hér að ofan. Bréf Økokrim til namibískra yfirvalda dagsett 29. apríl 2020 sýnir líka svart á hvítu að rannsókn norsku efnahagsbrotadeildarinnar snýst um þátt DNB í því að tilkynna ekki greiðslur frá félögum Samherja til Tundavala. 

Björgólfur segir í svari við fyrirspurn Kjarnans um þessi ummæli að þau séu í óbeinni ræðu og byggð á SMS-samskiptum við blaðamann Stundarinnar. „Þannig virðist hann hafa túlkað orð mín í skilaboðum til hans á þann hátt að DNB hafi engar skýringar gefið fyrir sinni ákvörðun. Ég bendi þér á að í viðtölum við aðra fjölmiðla staðfesti ég að DNB hafi átt frumkvæði að lokun viðskiptanna og að Samherji hafi verið í samskiptum við bankann um skýringar á þeirri ákvörðun.“ 

Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóri Samherja.
Mynd: Samherji

Því til stuðning vísaði Björgólfur meðal annars í viðtal við sig á RÚV 12. febrúar síðastliðinn þar sem hann sagði meðal annars: „Það var að frumkvæði norska bankans og við höfum verið í samvinnu við hann varðandi spurningar sem þeir höfðu út af okkar viðskiptum og við vorum þá þegar að undirbúa flutning á öllum okkar viðskiptum sem þar voru.“

Því telur Björgólfur það ekki ekki rétt að hann hafi gefið rangar eða villandi skýringar á viðskiptasambandi Samherja og tengdra félaga við DNB.

Greiðslur lögmætar frá sjónarhóli félaga sem tengjast Samherja

Kjarninn óskaði eftir viðbrögðum frá Samherja vegna þess sem fram kemur í skjölunum sem hér eru til umfjöllunar. Sérstaklega var spurt um hvaða skýringar Samherji hefði á greiðslum af reikningi dótturfélags síns hjá DNB inn á reikninga Tundavala, allt fram til loka janúarmánaðar 2019. 

Þá var einnig spurt um hvernig það passaði við fyrri fullyrðingar annars forstjóra Samherja, Björgólfs Jóhannssonar um að Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn sem kom upp um viðskiptahætti Samherja í Namibíu og starfaði hjá fyrirtækinu fram á mitt ár 2016 hefði verið einn að verki þegar kom að greiðslum sem stæð­ust ekki skoð­un, þegar þær greiðslur sem DNB kallaði eftir upplýsingum um, meðal annars til Tundavala, voru allar framkvæmdar eftir að hann lét af störfum hjá Samherja.

Auglýsing

Umræddar fullyrðingar voru settar fram í viðtali við norska við­skipta­blaðið Dagens Næringsliv fyrir um ári síðan. Þar var haft eftir Björgólfi að hann efaðist „um að nokkrar mútu­greiðslur hafi átt sér stað eða að fyr­ir­tækið sé eða hafi verið flækt í nokkuð ólög­mætt.“ Þar sagði hann enn fremur að hann teldi að Jóhannes hafi verið einn að verki þegar kom að greiðslum sem stæð­ust ekki skoð­un. 

Í svari Björgólfs segir að Samherji hafi alfarið neitað því að félög tengd Samherja hafi greitt mútur eða aðrar óeðlilegar greiðslur. „Hvort sem það er í tengslum við reksturinn í Namibíu eða annars staðar. Við lítum svo á að greiðslur, í tengslum við reksturinn í Namibíu, séu lögmætar frá sjónarhóli félaga sem tengjast Samherja. Gildir það um allar greiðslur til félagsins Tundavala Invest.“

Hann segir að skortur hafi verið á eftirliti með rekstrinum í Namibíu og að Samherji hafi þegar brugðist við því með innleiðingu sérstaks kerfis fyrir regluvörslu sem gildi um öll félög innan Samherja. Markmið þeirra sé að Samherji verði leiðandi á sviði stjórnunar- og innra eftirlits í sjávarútveginum á heimsvísu. 

Stendur við fyrri fullyrðingar sínar

Björgólfur segir að eftir að Jóhannesi hafi verið sagt upp störfum sumarið 2016 hafi mikil vinna annarra starfsmanna farið í að taka til í rekstrinum í Namibíu, afla skýringa á einstökum viðskiptum og búa svo um hnútana að bókhald félagsins stæðist lögbundnar kröfur þar sem að undir stjórn Jóhannesar hafi þessi rekstur í molum. „Þannig eru til alls kyns gögn og tölvupóstar þar sem aðrir starfsmenn eru að afla skýringa á ýmsum reikningum og viðskiptum sem gerð voru í tíð Jóhannesar og stóðust ekki skoðun. Þá komu í ljós reiðufjárúttektir sem engar skýringar hafa fundist á og engin skjöl eru til um. Fjölmiðlar á Íslandi hafa hins vegar lítinn áhuga á þessari hlið málsins því það myndi eðlilega varpa rýrð á trúverðugleika heimildarmannsins og þeirra frétta sem sagðar voru í nóvember 2019.“ 

Björgólfur segist því standa við fyrri fullyrðingar, sem settar voru fram í viðtalinu við Dagens Næringsliv.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar