Jónas Atli Gunnarsson hóf störf sem ritstjóri Vísbendingar, vikurits um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun sem gefið er út af Kjarnanum miðlum í byrjun mars síðastliðins. Hann tók við starfinu af Magnúsi Halldórssyni sem hafði stýrt ritinu frá árinu 2017, en Kjarninn miðlar keypti útgáfuna þá um sumarið.
Jónas Atli er hagfræðingur að mennt með B. Sc-gráðu frá Háskóla Íslands og M. Sc.-gráðu frá Bocconi-háskólanum í Mílanó. Hann starfaði um skeið sem blaðamaður á Kjarnanum og hefur undanfarin ár skrifað reglulega í Vísbendingu. Jónas Atli hefur einnig starfað sem hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði og hjá umhverfis-og landbúnaðarráðuneyti Bretlands. Þá hefur hann starfað við hagfræðirannsóknir við Bocconi-háskólann og hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.
„Vísbending hefur verið leiðandi rit í greiningum á efnahagsmálum, viðskiptum og nýsköpun hér á landi síðustu 38 árin. Ég tek þakklátur við starfi ritstjóra þess og hlakka til að leggja mitt af mörkum til að viðhalda þeim gæðum sem ritið hefur staðið fyrir allan þann tíma,” segir Jónas Atli.
Vísbending er vikurit um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun sem hefur komið út óslitið síðan árið 1983. Þar birtast greinar eftir marga af færustu hagfræðingum landsins á aðgengilegu máli. Áskrifendur að ritinu starfa í öllum kimum samfélagsins. Markmið Vísbendingar er að miðla fróðleik sem nýtist forystufólki í atvinnulífi og stjórnmálum. Ritið á að gefa heiðarlega mynd af íslensku viðskipta- og efnahagslífi, og stuðla að hreinskiptinni umræðu um frjáls viðskipti á Íslandi og við önnur lönd. Vísbending kemur út vikulega allt árið um kring, með fáeinum undantekningum. Áskrifendum að prentútgáfu Vísbendingar berst einnig yfirlit yfir þær greinar sem birst hafa allt árið um kring. Kjarninn miðlar ehf. eignaðist útgáfu Vísbendingar sumarið 2017 og hefur gefið ritið út í óbreyttri mynd síðan.