Atvinnuleysi í apríl mun verða allt að 17 prósent, samkvæmt spá Vinnumálastofnunar sem greint var frá á RÚV í gær. Inni í þeim tölum eru þeir sem hafa sótt um hlutabætur, en þeir eru um 33 þúsund talsins. Fjöldi þeirra er reiknaður út frá bótahlutfalli sem þeir fá. Gangi sú spá eftir verður það langmesta atvinnuleysi sem mælst hefur á Íslandi.
Guðrún Johnsen, doktor í hagfræði, fjallaði um afleiðingar atvinnuleysis í grein sem birtist í Vísbendingu í síðustu viku og bar fyrirsögnina „Það er dauðans alvara að missa vinnuna“.
Þar benti Guðrún á að neikvæð áhrif atvinnumissis séu ekki einskorðuð við lægri tekjur heldur leiðir hann einnig, þegar almenn óvissa ríkir, til aukinnar streitu. Margar rannsóknir sýni fram á að atvinnumissi fylgja mikil neikvæð sálræn áhrif og með honum aukist tíðni þunglyndis og alvarlegs kvíða um 15 til 30 prósent. „Líkamleg heilsa fólks minnkar einnig við uppsögn; sem er áhyggjuefni vegna aðstæðna sem nú ríkja í heilbrigðiskerfinu. Sullivan og fleiri (2009) sýndu fram á að dánartíðni eykst um 50-100 prósent á árunum strax eftir víðtækar uppsagnir. Þó að dánartíðni lækki aftur, helst hún marktækt 10 -15 prósent hærri jafnvel 25 árum eftir efnahagsáfall.“
Mikilvægt að nýta svigrúmið ekki í almennar aðgerðir
Guðrún segir í greininni að í ljósi þessa sé afar mikilvægt að takmarkað svigrúm hins opinbera nýtist þeim sem verða fyrir alvarlegustum áföllum er tengjast COVID19, í stað almennra aðgerða. Stærstur hluti fyrirtækja á Íslandi séu fyrirtæki einyrkja og fyrirtæki með færri en tíu starfsmenn. „Þeir sem eru með lægst laun, minnsta menntun og þeir sem eru á miðjum aldri verða fyrir mestum skakkaföllum til lengri tíma. Það er því afar mikilvægt að ná að halda rekstri gangandi þannig að hægt sé að viðhalda atvinnusambandi milli launþega og vinnuveitenda. Ella fellur mikill kostnaður á báða aðila eftir að vírusváin er yfirstaðin. Vinnuveitendur þurfa að leita að nýju starfsfólki og þjálfa upp og launþegar missa stóran hluta tekna sinna, ef ekki næst að viðhalda a.m.k. hlutastörfum til málamynda hjá sama vinnuveitanda. Tíu prósent hlutastarf á krepputímum er miklu betra en uppsögn.“
Sérsniðnar lausnir til handa þessum hópum séu líklegri en almennar aðgerðir til sjá til þess að vírus sem ætti að leiða til skammtímaniðursveiflu verði ekki að langvinnri efnahagskreppu og langtímaerfiðleikum fyrir einstaklinga og heimili sem missa vinnunna vegna vírusins. Þúsundir launamanna séu nú að upplifa áfall og streitu vegna efnahagslegrar afkomu sinnar sem geti tekið djúpstæðan toll af sálarlífi fólks. „Það er því mikilvægt að hugsa um það hvernig maður sjálfur getur verið góður vinur þeirra sem lenda í áfallinu. Félagstengsl í gegnum tölvuna og útivist þegar veðrið batnar er það sem hægt er að veita, að svo stöddu. Hrós, hvatning og annar andlegur stuðningur kostar ekkert en getur reynst ómetanlegur, jafnvel lífsnauðsynlegur, þeim sem verða fyrir atvinnumissi af völdum alheimsatburðar af þessu tagi. Efnahagserfiðleikarnir breiðast nú yfir fjölda fólks í gegnum rekstrarerfiðleika lítilla fyrirtækja.“
Beinn stuðningur hins opinbera við heimili í fjárhagserfiðleikum til handa þeim sem missi vinnuna sem og einyrkja sem verða fyrir tekjumissi, sé nauðsynlegur. „Þar munar mest um hækkaðar barnabætur og rausnarlegar atvinnuleysisbætur þeim til handa. Almennar hækkanir á barnabótum ættu að bíða betri tíma.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.