Fylgi Miðflokksins mælist 9,5 prósent í nýrri könnun MMR og er það í fyrsta skipti í tæpt ár sem flokkurinn mælist með undir tíu prósent fylgi. Hann er nú sjöundi stærsti flokkur landsins og mælist með minna fylgi en Framsóknarflokkurinn, sem forsvarsmenn Miðflokksins klufu sig úr fyrir kosningarnar 2017, í fyrsta sinn frá því í apríl í fyrra.
Hann reis hæst í lok nóvember í fyrra þegar fylgi hans var 16,8 prósent. Þá var Miðflokkurinn næst stærsti flokkur landsins og munurinn milli hans og þess stærsta, Sjálfstæðisflokksins, var einungis 1,3 prósentustig. Í dag mælist Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar með 22,7 prósent fylgi, sem er 0,8 prósentustigum minna en í byrjun apríl. Það er 13,2 prósentustigum meira en Miðflokkurinn mælist með. Sú mikla fylgisaukning sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk í kjölfar þess að áhrif kórónuveirunnar fóru að koma fram að fullu hérlendis, þegar hann reis upp í 27,4 prósent í könnun sem birt var 20. mars, er nánast að öllu leyti gengin til baka.
Flokkur fólksins bætir einnig við sig fylgi og mælist nú með 4,7 prósent. Báðir þessir flokkar ættu því góða möguleika á að koma inn mönnum á þing miðað við núverandi aðstæður. Ef af því yrði myndi flokkunum á Alþingi fjölga úr átta í níu.
Stuðningur við ríkisstjórnina fellur um rúm fimm prósentustig og mælist nú 51,1 prósent.
Stöðnun á miðjunni en Vinstri græn tapa
Samfylkingin heldur áfram að dala í fylgi og mælist nú með 13,1 prósent stuðning. Það er minnsta fylgi sem hún hefur mælst með frá sumrinu 2019, en Samfylkingin er samt sem áður næst stærsti flokkur landsins samkvæmt könnun MMR.
Fylgi Pírata er 12,3 prósent og Viðreisn myndi fá tíu prósent atkvæða ef kosið yrði í dag. Fylgi þeirra tveggja breytist nánast ekkert milli kannana.
Vinstri græn tapa 1,9 prósentustigi frá síðustu könnun og njóta nú stuðnings 10,4 prósent kjósenda á meðan að Framsóknarflokkurinn bætir við sig einu prósentustigi og mælist með 9,8 prósent stuðning.
Könnunin var framkvæmd 15. -17. apríl 2020 og var heildarfjöldi svarenda 1.051 einstaklingur, 18 ára og eldri.