Staðfest smit af kórónuveirunni eru orðin 1773 hér á landi. Í gær voru þau 1.771 og hefur þeim því fjölgað um tvö síðasta sólarhringinn. Mun færri sýni voru tekin í gær en sex dgana þar á undan. 92 smit hafa nú greinst á Vestfjörðum.
Í dag eru 1.109 í sóttkví en í gær var fjöldinn 1.220. Alls hafa 18.129 lokið sóttkví.
Í dag eru 402 einstaklingar með virk COVID-19 smit en í gær var fjöldinn 434.
1.362 hafa náð bata.
Alls hafa 42.762 sýni verið tekið hér á landi frá upphafi faraldursins.
Í gær voru 96 sýni rannsökuð á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og reyndist eitt þeirra jákvætt. Hjá Íslenskri erfðagreiningu voru tekin 285 sýni og eitt var jákvætt.
Á sjúkrahúsi liggja 28 sjúklingar vegna COVID-19 sjúkdómsins, þar af fjórir á gjörgæslu, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is.
Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru tíu látin. Í gær lést kona sem bjó á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Hún var á níræðisaldri. Þetta er annað andlátið á Bergi sem tengist faraldrinum.
Samkvæmt því sem fram kemur á COVID.is hafa flest smit greinst í aldurshópnum 18-29 ára eða 364 talsins. Þá hafa 100 einstaklingar á aldrinum 13-17 ára greinst með veiruna.
Fyrsta smitið af kórónuveirunni greindist á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í lok febrúar. Greindum smitum tók að fjölga smám saman í kjölfarið en fjöldinn tók svo stökk 16. mars er 46 greindust. Flest smit greindust 23. mars eða 106.