Alþjóðlega fjártæknifyrirtækið Rapyd, sem hefur höfuðstöðvar í London, hefur keypt alla hluti í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Korta. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Seðlabanka Íslands.
Stærsti eigandi Korta fyrir söluna var Kvika banki, með 44,5 prósent eignarhlut. Aðrir eigendur voru íslenskir fjárfestar sem tóku þátt í að kaupa Korta haustið 2017 með því að endurfjármagnaða það árið 2017 í kjölfar þess að félagið, sem hét áður Kortaþjónustan, tapaði öllu eigin fé sínu samhliða gjaldþroti flugfélagsins Monarch.
Í tilkynningu sem Kvika sendi til Kauphallar í gærkvöldi segir að allir hluthafar í Korta séu aðilar að sölusamningnum. „Kaupverðið greiðist með reiðufé. Hluti kaupverðs tekur mið af rekstri Korta á þessu ári og því liggur ekki fyrir hvert endanlegt kaupverð verður fyrr en í upphafi næsta árs. Núverandi mat bankans á kaupverði fyrir eignarhlut bankans í Korta er að það verði í samræmi við bókfært virði hlutarins um sl. áramót og hafi því ekki áhrif á afkomu bankans á þessu rekstrarári.“
Í tilkynningu sem Korta sendi frá sér í gær segðir að Rapyd sé með höfuðstöðvar í London og bjóði upp á fjártæknilausnir sem geri kaupmönnum kleift að taka við rúmlega 900 greiðslulausnum í yfir 100 löndum.
Arik Shtilman, forstjóri Rapyd, segir að með kaupunum opnist tækifæri fyrir Korta til þess að veita íslenskum fyrirtækjum þjónustu á sviði greiðslumiðlunar með bættu vöruframboði og fjártæknilausnum frá Rapyd. „Korta passar vel í okkar stefnu við að stækka frekar innan Evrópu og við hyggjumst efla starfsemi Korta í Reykjavík. Við hlökkum til að vinna með Korta teyminu til að auka frekari vöxt og útrás á Íslandi og víðar.“