Ísland fellur um eitt sæti milli ára á lista Reporters without boarders, eða Blaðamanna án landamæra, um fjölmiðlafrelsi. Ísland er nú í 15. sæti á listanum en var í sæti 14 í fyrra.
Noregur skipar efsta sætið, Finnland er í öðru sæti, Danmörk í því þriðja og Svíþjóð í fjórða sæti. Í fyrra voru Noregur og Finnland í sömu sætum en Svíþjóð í þriðja og Danmörk í því fimmta. Hin Norðurlöndin skipa því fjögur efstu sætin yfir þau lönd sem hafa mest fjölmiðlafrelsi á meðan að Ísland fellur niður listann.
Alls hefur Ísland færst niður um fimm sæti á listanum á tveimur árum, en landið sat í 10. sæti árið 2017.
Ekki er að finna ítarlega greiningu um forsendur sem liggja að baki matinu en í stuttri samantekt samtakanna um Ísland segir þó að aðstæður blaðamanna á landinu hafi versnað frá árinu 2012 vegna þess að samskipti milli stjórnmálamanna og fjölmiðla hafi súrnað. Það er sama röksemdarfærsla og var færð fyrir versnandi ástandi í umfjöllun samtakanna í fyrra og hitteðfyrra.
Ísland með tvöfalt hærri einkunn en Noregur
Í úttektinni er 180 löndum og svæðum raðað upp í röð eftir fjölmiðlafrelsi. Hún byggir á því að sérfræðingar svara spurningalistanum sem gerður er af samtökunum. Þau svör eru síðan greind og löndunum gefin einkunn. Því lægri sem hún er, því meira er fjölmiðlafrelsið. Noregur fær til að mynda einkunnina 7,84 og Finnland, Svíþjóð og Danmörk fá öllu einkunn sem er 9,25 eða lægri.
Ísland fær hins vegar 15,12 og stigafjöldi landsins eykst um 0,41 á milli ára. Það þýðir að einkunn Noregs er um helmingur af einkunn Íslands.
Norður-Kórea, sem vermdi neðsta sæti listans árum, komst upp í næst neðsta sætið í fyrra þegar landið hafði sætaskipti Túrkmenistan. Norður-Kórea endurheimtir hins vegar botnsætið í ár og Túrkmenar setjast í næst sæti við, eða í sæti 179. Þar fyrir ofan eru Víetnam, Djibútí, og Eritrea.