Ólöf Skaftadóttur, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, tók í aprílmánuði við sem samskiptastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA). Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, sem kom út í dag.
Ólöf tekur við starfinu af Herði Vilberg sem ráðinn hefur verið sem verkefnastjóri á markssviði Íslandsstofu. Hann hafði starfað hjá SA í 15 ár.
Ólöf lét af störfum sem ritstjóri Fréttablaðsins í október í fyrra, samhliða því að Helgi Magnússon fjárfestir, og meðfjárfestar hans, keyptu upp það hlutafé í Torgi, útgáfufélagi blaðsins, sem þeir áttu ekki fyrir. Hún hafði tekið við ritstjórastarfinu í júní 2018 i kjölfar þess að Kristín Þorsteinsdóttir, sem hafði verið aðalritstjóri og útgefandi Fréttablaðsins, steig til hliðar og einbeitti sér að starfi útgefanda.
Ólöf hafði áður starfað um nokkurra ára skeið hjá fjölmiðlafyrirtækinu 365 sem síðar var skipt upp í það sem myndar í dag annars vegar stóran hluta Torg og hins vegar fjölmiðlahluta Sýnar. Fyrst sem blaðamaður, svo sem umsjónarmaður helgarblaðs Fréttablaðsins og við ritstjórn hins svokallaða opna glugga á Stöð 2 sem kemur á eftir kvöldfréttum stöðvarinnar.
Frá 2017 var hún aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins og, líkt og áður sagði, ritstjóri í rúmt ár þar til að hún hætti störfum í lok október í fyrra.
Ólöf er með BA-gráðu frá Háskóla Íslands í ritlist.