RÚV hagnaðist um 6,6 milljónir króna á árinu 2019. Tekjur fyrirtækisins voru 6,9 milljarðar króna. Þar af komu 4,7 milljarðar króna úr ríkissjóði í formi þjónustutekjna af útvarpsgjaldi, en 2,2 milljarðar króna voru tekjur úr samkeppnisrekstri, sem er að uppistöðu sala auglýsinga og kostaðs efnis.
Í tilkynningu frá RÚV segir að auglýsingatekjur hafi lækkað um tæplega 200 milljónir króna milli ára. „Möguleikar RÚV til þess að afla auglýsingatekna hafa verið takmarkaðir á undanförnum árum auk þess sem auglýsingamarkaðurinn er að breytast. Ljóst er að lækkun auglýsingatekna hefur mikil áhrif á fjármögnun RÚV þar sem fjármögnun almannaþjónustunnar byggist að hluta til á tekjum af sölu auglýsinga.“
Í árslok námu heildareignir félagsins 8,1 milljarður króna og eigið fé var 2,1 milljarður króna. Eiginfjárhlutfall var 26,2 prósent í árslok 2019. Fjöldi ársverka á árinu 2019 var 271.
Rekstrarhagnaður RÚV fyrir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta var 290 milljónir króna í fyrra.
Hefði verið ógjaldfært án lóðasölu
Afkoma RÚV á árunum 2013 til 2018 var jákvæð um 1,5 milljarða króna, en sú afkoma skýrðist fyrst og fremst af hagnaði vegna sölu byggingaréttar á lóð félagsins við Efstaleiti. Ef litið er á afkomu félagsins fyrir tekjuskatt og söluhagnað hefði heildarafkoma félagsins á þessu tímabili var hún neikvæð um 61 milljón króna. Án lóðasölunnar hefði RÚV ohf. orðið ógjaldfært.
Þetta er kom fram í stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á RÚV sem birt var nóvember í fyrra.
Þar benti ríkisendurskoðandi enn fremur á að RÚV beri að uppfylla lagalegar skyldur um stofnun dótturfélaga fyir aðra starfsemi en fjölmiðlun í almannaþágu. Það hafði RÚV ekki gert þrátt fyrir að lagaákvæði krefjist þess á þeim tíma sem stjórnsýsluúttektin var gerð.
Í árslok í fyrra var stofnað dótturfélagið RÚV Sala ehf., sem mun sjá um starfsemi samkeppnisrekstrarhluta RÚV frá og með árinu 2020.