Seðlabanki Íslands hefur greint frá því að hann muni hefja kaup á skuldabréfum ríkissjóðs á eftirmarkaði í byrjun maímánaðar. Peningastefnunefnd bankans tilkynnti að kaupin myndu verða í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér 23. mars.
Heildarfjárhæð kaupanna mun geta numið allt að 150 milljörðum króna en framkvæmd þeirra verður þannig að Seðlabankinn mun tilkynna fyrirfram um hámarks fjárhæð skuldabréfakaupa í hverjum ársfjórðungi. Á öðrum ársfjórðungi, sem lýkur í lok júní, mun bankinn kaupa bréf fyrir allt að 20 milljarða króna.
Í tilkynningu sem Seðlabanki Íslands sendi frá sér í dag segir að kaupin muni beinast að öllum markflokkum óverðtryggðra ríkisbréfa í íslenskum krónum með gjalddaga á árunum 2021, 2022, 2025, 2028 og 2031 og nýjum markflokkum óverðtryggðra ríkisbréfa sem kunna að bætast við. Seðlabankinn mun framkvæma kaupin annað hvort með því að leggja fram tilboð í viðskiptakerfi Kauphallar Nasdaq eða með útboði. Kaupin munu hefjast með framlagningu tilboða í viðskiptakerfi Kauphallarinnar.
Kaupin á skuldabréfunum eru svokölluð magnbundin íhlutun. Markmið kaupanna er að tryggja miðlun peningastefnunnar út vaxtarófið til að slakara taumhald peningastefnunnar skili sér með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja. Með öðrum orðum þá er þetta gert til þess að hafa bein áhrif á langtímakröfur á þau bréf, til lækkunar. Á mannamáli þýðir þetta að ríkið mun fá lægri vexti á skuldabréfin sem það þarf að gefa út og lánsfjármagn þess þar af leiðandi ódýrara.