Stjórn lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur ákveðið að lækka vexti á eldri verðtryggðum lánum úr 2,26 í 1,95 prósent. Vextir á lánunum höfðu staðið í stað frá því í byrjun ágúst í fyrra, en sjóðurinn hætti að lána á breytilegum verðtryggðum vöxtum í október 2019. Þrír aðrir lífeyrissjóðir bjóða upp á breytilega verðtryggða vexti undir tveimur prósentustigum: Stapi (1,9 prósent og upp að 70 prósent af kaupsamningi), Birta (1,74 prósent og 65 prósent af kaupverði) og Festa (1,7 prósent og 70 prósent af kaupverði). Lífeyrissjóður verzlunarmanna er hins vegar eini sjóðurinn af þremur stærstu og fjölmennustu sjóðum landsins (hinir eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) og Gildi) sem bjóða upp á slík kjör. Hjá LSR hafa breytilegir verðtryggðir vextir verið fastir í 2,3 prósentum frá því í júní í fyrra og hjá Gildi eru þeir nú 2,46 prósent.
Í gær greindi hann einnig frá því að stjórn sjóðsins hefði samþykkt að fara að að bjóða verðtryggð lán með 2,7 prósent föstum vöxtum til fimm ára. Sjóðurinn bauð þegar upp á fasta verðtryggða vexti út lánstímann sem eru nú 3,2 prósent. Auk þess mun hann lækka fasta vexti á óverðtryggðum sjóðsfélagslánum til þriggja ára næstkomandi föstudag úr 5,14 í 4,95 prósent.
Breyttu viðmiðum og hækkuðu vexti
Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna tók þá ákvörðun 24. maí í fyrra að hækka vexti á breytilegum verðtryggðum húsnæðislánum úr 2,06 prósent í 2,26 prósent frá og með ágústbyrjun 2019. Samhliða var ákveðið að hætta að að láta ávöxtunarkröfu ákveðins skuldabréfaflokks stýra því hverjir vextirnir eru og í stað þess myndi stjórn sjóðsins ákveða þá.
Verðbólga hefur að mestu haldist lág á Íslandi frá árinu 2014 og undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði, ef undanskilið er tímabil frá miðju ári 2018 og fram til loka árs í fyrra þegar hún fór aðeins yfir það. Verðbólga mælist nú 2,1 prósent.
Hættu að lána breytileg verðtryggð lán
Í október í fyrra greindi Kjarninn frá því að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefði breytt lánareglum sínum þannig að skilyrði fyrir lántöku voru þrengd mjög og hámarksfjárhæð láns var lækkuð um tíu milljónir króna. Hámarkslán er nú 40 milljónir króna. Þá ákvað sjóðurinn að hætta að lána nýjum lántakendum verðtryggð lán á breytilegum vöxtum.
Um var að ræða viðbragð við því að Lífeyrissjóður verzlunarmanna var kominn út fyrir þolmörk þess sem hann réð við að lána til íbúðarkaupa. Sjóðurinn greindi samhliða frá því að eftirspurn eftir sjóðsfélagalánum hefði aukist mikið frá því að lánareglur voru rýmkaðar í október 2015. Á þeim tíma voru sjóðsfélagalán um sex prósent af heildareignum sjóðsins en í október í fyrra voru þau um 13 prósent.
Hluti sjóðsfélaga greiðir lægstu vexti á Íslandi
Hluti lántakenda sjóðsins, sem höfðu tekið lán á breytilegum verðtryggðum vöxtum, sættu sig ekki við þá breytingu sem gerð var á ákvörðun vaxta þeirra í fyrra og sendu ábendingu til Neytendastofu. Hún komst að þeirri niðurstöðu að sjóðurinn hefði ekki mátt breyta því hvernig verðtryggðir breytilegir vextir hluta húsnæðislána sjóðsfélaga þeirra voru reiknaðir út. Það hafi verið í andstöðu við ákvæði eldri laga um neytendalán. Ákvörðunin hafði áhrif á öll lán með verðtryggða breytilega vexti sem gefin voru út frá ársbyrjun 2001 til apríl 2017 og varðar vaxtagreiðslur frá maí 2019. Um var að ræða átta prósent af öllum sjóðsfélagslánum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Sjóðurinn endurgreiddi í kjölfarið ofrukkuða vexti til þessa hóps.
Auk þess halda vextir á lánum þessa hóps áfram að stýrast af ávöxtunarkröfu áðurnefnds skuldabréfaflokks, HFF150434, að viðbættu 0,75 prósentustiga álagi. Ávöxtunarkrafa þessa flokks hefur hríðfallið undanfarna mánuði og vextir þess hóps sem er með breytileg verðtryggð lán sem tekin voru fyrir 1. apríl 2017, því sögulega lágir. Á greiðsluseðli marsmánaðar voru vextirnir 1,58 prósent, sem eru langlægstu breytilegu verðtryggðu vextir sem í boði eru á Íslandi.
Allan síðasta mánuð og framan af þessum var ávöxtunarkrafan oftast nær á bilinu 0,4 til 0,55 prósent. Sem stendur er hún 0,41 prósent.
Ef sú krafa myndi vera grunnur að vöxtum næsta mánaðar myndu þeir því vera 1,16 prósent.