Ekkert nýtt COVID-19 smit greindist á Íslandi í gær, í fyrsta sinn frá 29. febrúar. Fyrsta smitið hérlendis greindist degi áður, eða 28. febrúar. Alls voru tekin rétt innan við 200 sýni, 178 á sýkla- og veirufræðideild Landspítala og 15 hjá Íslenskri erfðagreiningu.
„Miðað við hvernig þetta hefur verið síðustu daga þá hafa verið fá tilfelli suma dagana og þetta kemur svo sem ekkert á óvart að það komi einn dagur þar sem við greinum ekkert tilfelli,“ sagði Karl G. Kristinsson yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideildinni í samtali við Vísi um hádegisbil, en þá staðfesti hann við miðilinn að ekkert sýni hefði greinst jákvætt þar í gær.
Nú er ljóst, samkvæmt tölum á covid.is, að ekkert sýni var jákvætt hjá Íslenskri erfðagreiningu heldur, en þar voru sem áður segir einungis 15 sýni tekin, sem er mun minna en undanfarna daga. Í fyrradag voru þannig tekin yfir fjögur hundruð sýni og tvö þeirra reyndust jákvæð.
Þrettán manns eru nú á sjúkrahúsi vegna veirusýkingarinnar, þar af fimm á gjörgæsludeild. 237 manns eru nú með virkan sjúkdóm á landinu, en í heildina eru tilfellin orðin 1.789 talsins hér á landi. 1.542 hafa náð bata, en tíu manns hafa látist eftir að hafa greinst með COVID-19.
Í heildina eru nú 726 manns í sóttkví, en 18.691 manns hafa lokið sóttkví nú þegar. Á Íslandi hafa verið tekin 45.286 sýni til þessa.