Fréttablaðið mun frá og með næstu viku ekki lengur koma út á mánudögum. Útgáfudagar blaðsins verða því fimm í stað sex eins og nú er.
Fréttablaðið er fríblað sem er dreift í 80 þúsund eintökum á hverjum útgáfudegi. Lestur þess hefur dregist verulega saman á undanförnum áratug. Heilt yfir hefur hann minnkað um 40 prósent frá því í apríl 2010 og í síðustu birtu könnun Gallup sögðust 37,7 prósent landsmanna lesa blaðið. Lestur þess hefur minnkað um 55 prósent hjá lesendum í aldurshópnum 18 til 49 ára á áratug, og í þeim aldurshópi er lestur blaðsins nú 28,9 prósent.
Í frétt á vef blaðsins segir að þetta sé liður í nauðsynlegri hagræðingu í rekstri fjölmiðla Torgs, sem gefur út Fréttablaðið, Markaðinn, DV og tengda vefmiðla. Þar er haft eftir Jóhönnu Helgu Viðarsdóttur, forstjóra Torgs, að boðaðar styrktargreiðslur til fjölmiðla, sem kynntar voru á þriðjudag, séu til bóta en breyti stöðu samstæðunnar ekki verulega. „Nú eigum við eftir að sjá hvernig fyrirhugaður rekstrarstyrkur stjórnvalda til einkarekinna fjölmiðla mun verður nánar útfærður og sömuleiðis er þinglegri meðferð málsins er ekki lokið. Það er því óvíst hvernig niðurstaðan endanlega verður. Við teljum hins vegar ekki hjá því komist að fækka útgáfudögum um einn í viku. Ég vil taka fram að engar uppsagnir fylgja þessari aðgerð nú um mánaðarmótin.“
Helgi á í dag 82 prósent hlut í Torgi. Aðrir eigendur eiganda útgáfufélagsins, félagsins HFB-77 ehf., eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, með tíu prósent hlut, Jón G. Þórisson, annar ritstjóri Fréttablaðsins, með fimm prósent hlut, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi.