Seðlabanki Íslands er sú stofnun sem oftast hefur oftast brotið gegn jafnréttislögum frá árinu 2009, eða fjórum sinnum. Fyrsta brotið var árið 2012, bankinn gerðist tvívegis brotlegur við lögin á árinu 2015 og loks gerðist hann brotlegur við þau í fyrra, þegar hann réð minna hæfan karl í nýja stöðu upplýsingafulltrúa fram yfir hæfari konu. Það brot vakti mikla athygli og Seðlabankinn ákvaða að una niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. Í kjölfarið sagði hann, í svari við fyrirspurn Kjarnans, að verkferlar í þessum efnum hafa verið styrktir.
Engin önnur stofnun eða stjórnsýslueining hefur brotið nærri því jafn oft gegn lögunum og hann.
Í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Hönnu Katrínar Friðriksson, þingmanns Viðreisnar, um hvaða stofnanir hafi gerst brotlegar við jafnréttislög frá því að þau tóku gildi árið 2008 kemur fram að alls hafi stofnanir eða fyrirtæki á vegum hins opinbera sem hafa ekki einkaréttarlega stöðu brotið gegn lögunum 25 sinnum.
Fyrsta brotið átti sér stað innan Nýja Kaupþings banka á árinu 2009, þegar hann heyrði enn undir fjármála- og efnahagsráðherra og var að öllu leyti í ríkiseigu. Þá kærði kona sem starfað hafði hjá fyrirrennara bankans þann nýja fyrir að hafa boðið þremur körlum áframhaldandi starf í nýja bankanum en ekki henni, þrátt fyrir að hún teldi sig hæfari en þeir allir. Konan vann málið.
Síðasta brot gegn lögunum sem leiddi til endanlegrar niðurstöðu var þegar að ríkið komst að samkomulagi um 20 milljóna króna bótagreiðslu til Ólínu Þorvarðardóttur, fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar, í byrjun árs 2020. Kærunefnd jafnréttismála hafði komist að þeirri niðurstöðu að jafnréttislög hefðu verið brotin þegar gengið var framhjá henni við skipan þjóðagarðsvarðar árið 2018.
Fyrir viku var greint frá því að kærunefnd jafnréttismála væri með tvær kærur til meðferðar vegna ráðningar í starf útvarpsstjóra. Stefán Eiríksson var ráðinn í starfið og tók við því 1. mars síðastliðinn. Ekki hefur verið greint opinberlega frá því hvaða konur það eru sem kærðu ráðningarferlið.
Hægt er að sjá lista yfir þær 19 stofnanir eða stjórnsýslueiningar sem hafa gerst brotleg við jafnréttislög á gildistíma þeirra hér að neðan.
1. Nýi Kaupþing banki hf. – fjármála- og efnahagsráðherra (2009).
2. Forsætisráðuneytið – forsætisráðherra (2010).
3. Skjólskógar á Vestfjörðum – umhverfis- og auðlindaráðherra (2011).
4. Akureyrarbær – samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (2011, 2014).
5. Innanríkisráðuneytið – dómsmálaráðherra (2012, 2015).
6. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins – heilbrigðisráðherra (2012).
7. Seðlabanki Íslands – forsætisráðherra (2012, 2015, 2015, 2019).
8. Ríkisútvarpið – mennta- og menningarmálaráðherra (2013).
9. Landspítalinn – heilbrigðisráðherra (2013, 2018).
10. Kópavogsbær – samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (2014).
11. Ríkislögreglustjóri – dómsmálaráðherra (2014).
12. Sýslumaðurinn í Borgarnesi – dómsmálaráðherra (2014).
13. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja – heilbrigðisráðherra (2015).
14. Biskup Íslands – dómsmálaráðherra (2015).
15. Þjóðskjalasafn Íslands – mennta- og menningarmálaráðherra (2016).
16. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu – dómsmálaráðherra (2016).
17. Fjármála- og efnahagsráðuneytið – fjármála- og efnahagsráðherra (2017).
18. Reykjavíkurborg – samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið (2018).
19. Þingvallanefnd – umhverfis- og auðlindaráðherra (2018).