„Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við heimsfaraldri kórónuveiru einkennast af mótsagnakenndu stefnuleysi og skorti á framsýni,“ segir þingflokkur Pírata í yfirlýsingu, sem send var á fjölmiðla síðdegis. Þingflokkurinn segist auglýsa eftir „pólitísku hugrekki ríkisstjórnarinnar“ og er afar gagnrýninn á bæði þær aðgerðir sem kynntar voru í dag og samráðsleysi ríkisstjórnarinnar við minnihlutann á þingi og „aðra mikilvæga fulltrúa almennings.“
„Hagkerfi heimsins hefur stöðvast og alger óvissa ríkir um hvenær það fer í gang aftur og hvað þarf til, svo að það gerist. Viðbúið er að gjörbreytt heimsmynd og gjörbreytt hagkerfi taki við þegar heilsufarsógnin hverfur á braut. Viðbrögð stjórnvalda verða því að vera framsækin, frumleg og stórtækari en nokkru sinni fyrr. Slík viðbrögð verða ekki til í tómarúmi eða einangrun ─ og lítið mun gefast með því að hunsa fjölbreytt hugvitið í samfélaginu,“ segja Píratar og bæta við að í árferði sem þessu sé óásættanlegt að ríkisstjórn Íslands leggi á ráðin í lokuðum herbergjum án samráðs.
„Augljóst er að hugmyndir og viðbrögð sem samið er um í litlum einsleitum hópi ráðamanna skortir fjölbreytni, gagnrýna hugsun og breiða skírskotun,“ segja Píratar.
Segja forsendur ákvarðanatöku skorta
Þingflokkur Píratar segir að hvorki almenningur né stjórnarandstaðan hafi nokkurn aðgang að þeim upplýsingum og gögnum sem ríkisstjórnin byggir viðbrögð sín á.
„Sviðsmyndagreiningar liggja ekki fyrir, forsendur ríkisstjórnarinnar liggja ekki fyrir og pólitísk framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar er fullkomlega óljós. Gagnsæið er ekkert,“ segir í yfirlýsingu þingflokksins.
Þingflokkurinn segir ríkisstjórnina hafa „sögulegt tækifæri til þess að koma á sjálfbærari, lýðræðisvæddari og ábyrgari vinnumarkaði“ og til þess að „stuðla að því að næsta uppsveifla verði byggð á sjálfbærni og náttúruvernd,“ en láti þessi tækifæri „því miður“ renna sér úr greipum.
„Ríkisstjórnin hefur engin svör við því, hvernig samfélag við viljum byggja þegar þessi kreppa er afstaðin. Hún virðist staðráðin í að reyna að halda lífi í hagkerfi sem er að verulegu leyti horfið, með aðgerðum sem duga skammt,“ segir í yfirlýsingu þingflokks Pírata, en þar er einnig miklum vonbrigðum lýst yfir með þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í dag.
Gagnrýna harðlega að fyrirtækjum sé auðveldað að segja upp fólki
„Hlutabótaleiðin, sem ætlað var að halda ráðningarsambandi milli launþega og atvinnurekenda sætir nú þeim mótsagnakenndu breytingum að auðvelda á fyrirtækjum að slíta ráðningarsambandinu með mótframlagi ríkisins við greiðslu uppsagnarfrests. Þingflokkur Pírata gagnrýnir það harðlega að til standi að auðvelda fyrirtækjum hópuppsagnir,“ segir í yfirlýsingunni.
Piratar segja að víðsvegar um heiminn hafi ríkisstjórnir sett „sjálfsögð og eðlileg skilyrði“ um samfélagslega ábyrgð fyrir ríkisstuðningi til fyrirtækja.
„En á Íslandi fá stöndug fyrirtæki sem hafa skilað eigendum sínum milljörðum í arð undanfarin ár aðgang að fjármunum ríkisins án teljandi skuldbindinga af þeirra hálfu. Samtímis eru þúsundir smærri fyrirtækja skilin eftir með óljósar framtíðarhorfur. Þingflokkur Pírata leggur áherslu á að fyrirtæki sem geyma fjármuni í skattaskjólum fái ekki aðgang að fjármunum hins opinbera. Sömuleiðis væri eðlilegt að skilyrða alla ríkisaðstoð, þar á meðal hlutabótaleiðina, við að ekki verði greiddur út arður eða bónusar í tilgreindan tíma eftir að fjárhagsaðstoð ríkisins lýkur,“ segir þingflokkurinn.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hingað til jafngildi viðbragðsleysi
Píratar segja heimilin enn engin svör fá um framtíðarhag sinn og öryggi og bæta við að ef það breytist ekki muni eftirspurn eftir vörum og þjónustu í landinu hverfa.
„Heimili landsins horfa nú fram á tekjufall og óvissa framtíð en ekkert bólar á beinum stuðningi til almennings. Rúmlega 38.000 voru á atvinnuleysisskrá í marsmánuði en ekki stendur til að hækka bætur. Fólkið í landinu myndar eftirspurn eftir vörum og þjónustu og sú eftirspurn mun hverfa verði ekkert gert til þess að tryggja fjárhagslegt öryggi þeirra,“ segir í yfirlýsingu þingflokksins, þar sem borgaralaun eru nefnd sem leið til þess að koma til móts við almenning.
„Flest fólk vill vinna, vera hluti af og þjóna sínu samfélagi. Borgaralaun munu ekki koma í veg fyrir það heldur þvert á móti styðja við og styrkja getu fólks til þátttöku og þar af leiðandi getu hagkerfisins til að keyra sig aftur í gang,“ segir þingflokkurinn.
„Samkvæmt reiknilíkani Viðskiptaráðs er það góð ráðstöfun að auka verulega opinberar fjárfestingar á þessu ári; það muni efla hagvöxt til næstu ára auk þess að minnka höggið nú í ár. Píratar hafa lagt áherslu á fjárfestingu í fólki, á stóraukið fé til nýsköpunar, rannsókna og þróunar, og grænan samfélagssáttmála með jafnrétti og sjálfbærni að leiðarljósi til framtíðar.
Til eru ótal leiðir til að bregðast við. En aðgerðir ríkisstjórnarinnar hingað til hafa jafngilt viðbragðsleysi. Þingflokkur Pírata hvetur ríkisstjórnina til þess að sýna hugrekki, hugsa stórt og nálgast vandamálið af opnum hug, í samráði við þjóðina. Henni ber lýðræðisleg skylda til þess,“ segir þingflokkur Pírata.