Tekjur RÚV vegna efnis sem er kostað voru 864 milljónir króna á fimm ára tímabili, frá byrjun árs 2015 og út síðast árs. Mestar voru þær árið 2015, alls 210 milljónir króna, en minnstar í fyrra, alls 121 milljónir króna. Á milli áranna 2018 og 2019 drógust tekjur vegna kostunar saman um 54 milljónir króna, eða um rúmlega 30 prósent. Langmestur hluti þess efnis sem er kostað er íþróttaefni, svokallaðir stórviðburðir og leikið íslenskt efni.
Þetta kemur fram í svari Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirspurn Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns Vinstri grænna, sem birt var á vef Alþingis í gær.
Samkvæmt upplýsingum frá RÚV er ekki flokkað í bókhaldi þess hvort það eru fyrirtæki, samtök eða einstaklingar sem kosta efni og af þeim sökum ekki hægt að verða við ósk Kolbeins um þannig sundurliðun í svarinu.
RÚV hagnaðist um 6,6 milljónir króna á árinu 2019. Tekjur fyrirtækisins voru 6,9 milljarðar króna. Þar af komu 4,7 milljarðar króna úr ríkissjóði í formi þjónustutekna af útvarpsgjaldi, en 2,2 milljarðar króna voru tekjur úr samkeppnisrekstri.
Tekjur RÚV af auglýsingum og kostun voru samtals 1.837 milljónir króna í fyrra og lækkuðu um 199 milljónir milli ára, eða um tíu prósent. Aðrar tekjur af samkeppnisrekstri, sem felur meðal annars í sér útleigu á myndveri RÚV, jukust hins vegar í fyrra úr 315 milljónum króna í 366 milljónir króna, eða um 51 milljón króna.
Samtök borguðu 1,4 milljónir fyrir fræðsluþætti um fjármál
Kolbeinn spurði einnig hvort að fjármögnun Samtaka fjármálafyrirtækja og Landssamtaka lífeyrissjóða á fræðsluþætti um fjármál fyrir ungt fólk á RÚV, sem báru nafnið Klink og voru í umsjón Júlí Heiðars Halldórssonar og Þórdísar Birnu Borgarsdóttur, samræmdist reglum um birtingu viðskiptaboða og kostunar dagskrárefnis. Fjármálavit, fræðsluvettvangur á vegum samtakanna, greiddi laun þáttastjórnendanna tveggja og ekki var upplýst um að sumir viðmælendur þáttanna væru starfsmenn bankastofnananna. Verkefnið var á vegum RÚV Núll og samstarfið komst á eftir að verkefnastjóri RÚV Núll leitaði eftir að koma því á.
Í svari Lilju kemur fram að samtökin hafi styrkt þáttagerðina um 1,4 milljónir króna. Þar segir einnig að umrætt dagskrárefni sé til athugunar hjá fjölmiðlanefnd. „Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að taka afstöðu til þessa máls á meðan það er til umfjöllunar hjá fjölmiðlanefnd.“
Sundurliðun á kostuðu efni
Í árlegum ársskýrslum RÚV er kostun flokkuð eftir dagskrárliðum en ekki eftir framleiðslu eða þáttum. Hér að neðan er hægt að sjá þá dagskrárliði sem voru kostaðir á árunum 2016 til 2019. Ekki er til slíkt yfirlit fyrir árið 2015.
Eftirtaldir dagskrárliðir voru kostaðir á árinu 2019 (121 milljón króna):
Bikarkeppni í handbolta, Bikarkeppni í körfubolta, Bikarkeppni í blaki, Brot, EM í frjálsum íþróttum, undankeppni EM í knattspyrnu, EM í sundi, Eurovision og Söngvakeppnin, Hestaíþróttir, HM í frjálsum íþróttum, HM í handbolta, HM félagsliða, HM og heimsbikarmót í skíðaíþróttum, HM kvenna í fótbolta, Íslandsmótið í fimleikum, Íslandsmótið í keilu, Íslandsmótið í golfi, Landsleikir í fótbolta, Landsleikir í handbolta, Landsleikir í körfubolta, Meistaradagar í íþróttum, Menningarnótt, Mótorsport, Ófærð, Reykjavíkurleikarnir, Reykjavík Crossfit mótið, Reykjavíkurmaraþon, Skólahreysti.
Eftirtaldir dagskrárliðir voru kostaðir á árinu 2018(175 milljónir króna):
Bikarkeppni í handbolta, Bikarkeppni í körfubolta, Bikarkeppni í blaki, EM í frjálsum íþróttum, HM í knattspyrnu, EM í sundi, Eurovision og Söngvakeppnin og tengd dagskrá, Hestaíþróttir, HM í frjálsum íþróttum, EM í handbolta, HM félagsliða, HM og heimsbikarmót í skíðaíþróttum, Íslandsmótið í fimleikum, Íslandsmótið í keilu, Íslandsmótið í golfi og golfmótaröðin, Landsleikir í fótbolta, Landsleikir í handbolta, Landsleikir í körfubolta, Meistaradagar í íþróttum, Menningarnótt, Mótorsport, Ófærð, Reykjavíkurleikarnir, Reykjavíkurmaraþon, Skólahreysti og Vetrarólympíuleikar.
Eftirtaldir dagskrárliðir voru kostaðir á árinu 2017 (165 milljónir króna):
Alla leið, Álfukeppnin í fótbolta, Bikarkeppni í handbolta, Bikarkeppni í körfubolta, Bikarkeppni í blaki, EM í frjálsum íþróttum, EM kvenna í fótbolta, HM í sundi, Eurovision, Fangar, Hestaíþróttir, HM í frjálsum íþróttum, HM í handbolta, HM félagsliða, HM og heimsbikarmót í skíðaíþróttum, Íslandsmótið í fimleikum, Íslandsmótið í keilu, Íslandsmótið í golfi og golfmótaröðin, Íslandsmótið í handbolta, Íþróttamaður ársins, Landsleikir í fótbolta, Landsleikir í handbolta, Landsleikir í körfubolta, Meistaradagar í íþróttum, Menningarnótt, Mótorsport, Reykjavíkurleikarnir, Reykjavíkurmaraþon, Skólahreysti, Söfnunarútsending og Söngvakeppnin.
Eftirtaldir dagskrárliðir voru kostaðir á árinu 2016 (193 milljónir króna):
Akureyrarvaka, Alla leið, Bikarkeppni í handbolta, Bikarkeppni í körfubolta, Bikarkeppni í blaki, EM í frjálsum íþróttum, EM í sundi, Eurovision, Fangar, Gettu betur , Hestaíþróttir, HM í frjálsum íþróttum, HM í handbolta, HM og heimsbikarmót í skíðaíþróttum, Hraðfréttir*, Íslandsmótið í fimleikum, Íslandsmótið í badminton, Íslandsmótið í golfi og golfmótaröðin, Íslandsmótið í handbolta, Íþróttaafrek Íslendinga, Íþróttamaður ársins, Landsleikir í fótbolta, Landsleikir í handbolta, Landsleikir í körfubolta, Ligeglad, Menningarnótt, Ófærð, Ólympíuleikarnir og Ólympíumót fatlaðra, Popp- og rokksaga Íslands*, Reykjavíkurleikarnir, Reykjavíkurmaraþon, Sjónvarpið í 50 ár, Skíðamót Íslands, Skólahreysti, Söngvakeppnin, Söngvakeppnin í 30 ár*, Útsvar*, Vikan með Gísla Marteini*.
* Kostun á stjörnumerktum dagskrárliðum hefur verið aflögð í samræmi við nýjar auglýsingareglur RÚV.