Bandaríska hagkerfið dróst saman um 4,8 prósent á fyrsta ársfjórðungi þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra, samkvæmt nýjum bráðabirgðahagtölum sem birtar voru vestanhafs í dag. Þetta er mesti samdráttur sem orðið hefur í Bandaríkjunum á ársfjórðungsgrundvelli frá því undir lok árs 2008, er hrun varð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.
Í skýrslu frá kaupsýslustofnun Bandaríkjanna, sem tekur hagtölurnar saman, segir að einkaneysla hafi dregist saman um 7,6 prósent og atvinnuvegafjárfesting um 8,6 prósent.
Samkvæmt frétt Washington Post búast greinendur við því að þetta sé bara byrjunin og sjá margir fyrir sér að samdrátturinn á öðrum ársfjórðungi, sem nær yfir tímabilið frá byrjun apríl og til loka júní, verði um eða yfir 30 prósent miðað við fyrra ár.
Janúar og febrúar voru enda nokkuð eðlilegir mánuðir í Bandaríkjunum, en svo fór faraldurinn á flug og höggið sem nú má merkja í hagtölunum átti sér stað seint í ársfjórðungnum, er gripið var til víðtækra sóttvarnaráðstafana í landinu, sem varð til þess að fyrirtækjum var lokað og fólk hélt sig heima.
New York Times hefur eftir Dan North, aðalhagfræðingi hjá greiðsluvátryggingarfélaginu Euler Hermes North America, að hagtölur annars ársfjórðungs verði án efa þær verstu sem flestir hafi séð á lífsleiðinni.
Þessar tölur sem bandarísk yfirvöld birtu í dag eru bráðabirgðaútreikningar, og enn eiga eftir að bætast við einhver gögn um stöðu mála sem verða tekin með í reikninginn.
Í frétt Washington Post segir að greiningardeildir fjármálastofnana á borð við Goldman Sachs og JPMorgan Chase búist við því að raunsamdráttur ársfjórðungsins muni nema á bilinu 8-11 prósent.
26 milljón umsóknir um atvinnuleysisbætur
Fjöldi atvinnuleysisumsókna hefur slegið öll met í Bandaríkjunum undanfarnar vikur, en tölur um fjölda vikulegra umsókna frá vinnumálastofnun landsins eru alltaf birtar á fimmtudögum.
Síðasta fimmtudag var greint frá því að 4,4 milljónir manna hefðu sótt um atvinnuleysisbætur og er fjöldi bótaumsókna því kominn upp í rúmar 26 milljónir á einungis rúmum mánuði.