Sá hluti rekstrar Reykjavíkurborgar sem fjármagnaður er með skatttekjum, svokallaður A-hluti, skilaði 1.358 milljón króna hagnaði í fyrra. Áætlun hafði gert ráð fyrir því að afkoma af rekstri hans yrði jákvæð um 3.572 milljónir króna. Því var afkoma A-hlutans 2.214 milljónum króna undir áætlun. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var svo umtalsvert lakari, var jákvæð um 930 milljónir króna en áætlanir hafi reiknað með að hún yrði rúmlega fjórir milljarðar króna.
Þetta kemur fram í ársreikningi Reykjavíkurborgar sem lagður var fyrir borgarráð í dag.
Hinn hlutinn í rekstri borgarinnar, B-hlutinn, nær yfir afkomu þeirra fyrirtækja sem borgin á að öllu leyti eða að hluta. Fyrirtækin sem teljast til B-hlutans eru Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Þjóðarleikvangs ehf.
Þetta skilaði því að samanlögð rekstrarniðurstaða borgarinnar var 792 milljónum krónum lakari en í fjárhagsáætlun, eða 11,2 milljarðar króna.
Töf á kjarasamningsgerð lagaði stöðuna
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands vegna þessa segir að verri rekstrarniðurstaða A-hlutans skýrist einkum af því að skatttekjur voru 1.451 milljónum króna undir áætlun og tekjur af sölu byggingarétta skiluðu 3.753 milljónum krónum minna en reiknað hafi verið með. Þá hafi annar rekstrarkostnaður Reykjavíkurborgar verið 2.117 milljónum króna yfir áætlun.
Á móti hafi launakostnaður verið 2.738 milljónum króna lægri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. skrifast það fyrst og síðast á að kjarasamningar við opinbera starfsmenn voru umtalsvert seinna á ferðinni en áætlanir gerðu ráð fyrir og drógust inn á árið 2020. Aðrar rekstrartekjur voru síðan 1.871 milljónum króna yfir áætlun.
Heildareignir samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í árslok 688,9 milljörðum króna. Heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 345 milljarðar króna og eigið fé var því 343,9 milljarðar króna. en þar af var hlutdeild meðeigenda 18,9 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er nú 49,9 prósent en var 49,4 prósent um síðustu áramót.
Borgarstjóri segir uppgjörið vera sterkt
Í fréttatilkynningu frá borginni segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að þetta sé sterk niðurstaða en framundan séu erfiðir tímar. „Þessi niðurstaða sýnir öðru fremur sterkan fjárhag borgarinnar eftir síðasta ár. Við höfum verið að malbika, leggja nýja hjólastíga, byggja nýja grunnskóla, ný íþróttamannvirki í austurborginni en um leið leggja áherslu á góða þjónustu. Þessi niðurstaða er því gott veganesti inn í þær efnahagslegu þrengingar sem við erum að sigla inn í núna í kjölfar Covid-19. Borgin mun geta tekið á sig umtalsverðan kostnað vegna Covid-19 en ef sveitarfélögin allt landið um kring eiga ekki að fara í niðurskurð á þjónustu þá þarf að koma yfirlýsing frá ríkinu um að það muni standa með sveitarfélögunum í gegnum þetta.“