Í nokkrum tilvikum hefur þurft að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana svo ekki kæmi til lyfjaskorts hérlendis vegna hamsturs. Það á til dæmis við um malaríulyfið Plaquenil sem að einhverju marki hefur verið notað sem tilraunameðferð við COVID-19, en í því tilviki var afgreiðsla lyfsins til að mynda takmörkuð við 30 daga skammt og ávísun lyfsins bundin við tilteknar sérgreinar.
Þetta kemur fram í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn Kjarnans.
Í svarinu segir að hingað til hafi svo til alveg tekist að koma í veg fyrir lyfjaskort hérlendis sem hefði getað leitt af COVID-19 faraldrinum. Þar komi margt til.
„Lyfjastofnun fór þegar í lok janúar í víðtækar aðgerðir sem miðuðu að því að tryggja lyfjaöryggi í landinu eins og hægt væri. Þær fólust meðal annars í því að greina birgðastöðu lyfja í landinu og þar skipti máli mikið og náið samstarf við lyfjafyrirtæki, innflutningsaðila og dreifingarfyrirtæki. Einnig þurfti að tryggja og treysta allar flutningsleiðir lyfja til landsins með hliðsjón af ferðatakmörkunum víðs vegar,“ segir í svarinu.
Þá nefnir Lyfjastofnun samstarf evrópskra lyfjastofnana undir hatti Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) „sem allajafna er mikið og gott, en var eflt í tengslum við COVID-19; einn sérfræðihópur EMA sinnir lyfjaöryggi og lyfjaskorti, og hefur sá hópur átt reglubundna símafundi þar sem sérstaklega er fylgst með framvindu mála vegna faraldursins. Í erlendu samvinnunni er síðan sérstaklega þétt og náið samstarf við norrænu systurstofnanirnar, en stærsti hluti þeirra lyfja sem fluttur er til Íslands kemur frá Norðurlöndum, einkum Danmörku.“
Margir óvissuþættir tengjast faraldrinum
Fram kemur hjá stofnuninni að álag í vinnu við að koma í veg fyrir lyfjaskort hafi vissulega verið meira í tengslum við faraldurinn en í venjulegu árferði. En í góðri samvinnu við lyfjafyrirtæki, erlendar systurstofnanir og aðrar innlendar heilbrigðisstofnanir hafi tekist að greiða úr þeim vandamálum sem upp hafa komið í tengslum við COVID-19.
Hvað varðar stöðu lyfjabirgða í nánustu framtíð séu engar sérstakar vísbendingar um að komið geti til lyfjaskorts hérlendis vegna COVID-19. Hins vegar sé því ekki að leyna að margir óvissuþættir tengist faraldrinum, til að mynda eftirspurn eftir lyfjum í öðrum löndum og framleiðslugeta lyfjafyrirtækja og flutningsmöguleikar í löndum sem eru stórtæk í lyfjaframleiðslu, eins og til dæmis Indland; þar séu enn í gangi harðar aðgerðir til að hefta útbreiðslu farsóttarinnar.