Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun að ríkið hefði verið í samskiptum við Icelandair og að sérstakur starfshópur væri nú að störfum til þess að fá upplýsingar um stöðu félagsins til þess að undirbyggja ákvarðanatöku framtíðarinnar.
„Það sem hefur gerst á undanförnum vikum er að félagið sjálft hefur tekið frumkvæði. Það hefur verið greint frá því opinberlega í Kauphöll og nú er boðað að félagið hyggist fara í hlutafjáraukningu og um mögulega aðkomu ríkisins að málefnum félagsins í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu þess er nú verið að ræða á vettvangi ríkisstjórnarinnar og ég vænti þess að við getum brugðist við og lagt fram skýr svör um það hvernig við sæjum þá fyrir okkar að það gæti orðið með aðkomu ríkisins,“ sagði Bjarni en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði hann út í stöðu Icelandair og hver áform ríkisstjórnarinnar væru varðandi félagið.
Það er skoðun Bjarna að Icelandair sé eitt mikilvægasta fyrirtæki landsins og að allt viðskiptamódelið sem tengist Keflavíkurflugvelli sé í raun og veru undir. Þar af leiðandi hafi þau í ríkisstjórninni „sett kraft og tekið mjög alvarlega þeirri stöðu sem er uppi komin hjá fyrirtækinu“.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, steig næst í pontu og spurði Bjarna hvort til væri greining á því hvernig fjármunir myndu skiptast milli fyrirtækja vegna uppsagnaleiðarinnar og hvort eðlilegt væri að ráðstafa svo stórum upphæðum til að verja hlutafé fyrirtækis án þess að eiga nokkurn möguleika á að fá það með beinum hætti til baka og eignast tímabundið í fyrirtækinu.
Bjarni svaraði Loga og sagði að hann teldi ekki eðlilegt að verja hluthafa fyrirtækja með slíku inngripi. „Enda liggur það fyrir eins og ég er að skilja stöðuna að hluthafarnir eru að verða fyrir stórkostlegu tjóni þar sem félagið er að fara í hlutafjárútboð sem væntanlega mun þýða að hluthafarnir núverandi verða þynntir út. Og almennt um þá leið að ríkið taki stöðu sem hluthafi í fyrirtækjum þá myndi ég segja að það ætti ávallt að vera síðasti valkosturinn.“
Hvernig tryggir ríkið stöðu sína?
Hins vegar taldi Bjarni það sjálfsagt að ræða þessa hluti. Ef ríkið gengi í ábyrgðir fyrir lánum eða veitti lán að spurt væri hvernig það gæti tryggt stöðu sína – og fé almennings sem varið væri til slíkra aðgerða. „Fram til þessa höfum við náð samkomulagi hér á þinginu um að verja milljarða tugum í þessum tilgangi. Til dæmis með brúarlánaleiðinni [...] og stuðningslánunum. Þetta eru allt aðgerðir sem tryggja kröfur á fyrirtækin. Hlutastarfaleiðin hefur hins vegar verið öðru marki brennd. Þar höfum við ákveðið hér á þinginu að fara þá leið að styðja fyrirtæki vegna þess að við sjáum fyrir okkur að án stuðningsins myndi kostnaðurinn hvort sem er lenda á ríkinu í gegnum atvinnuleysistryggingar, í gegnum ábyrgðarsjóð launa og svo framvegis. Og í þeim tilgangi að fara í almenna efnahagslega aðgerð, höfum við verið að feta okkur þessa slóð.“
Bjarni var þeirrar skoðunar að þetta væru almennar efnahagslegar aðgerðir sem meðal annars Icelandair væri að njóta í þessu samhengi, og „að sjálfsögðu er ekki til sundurliðaður listi yfir þau fyrirtæki sem munu njóta þeirrar aðgerða sem kynntar voru hér í vikunni vegna þess að við erum ekki einu sinni búin að lögfesta þær“. Þess vegna væri ekki hægt að ræða um lista yfir fyrirtæki sem myndu nýta sér þær leiðir sem aðgerðapakkarnir bjóða upp á.
„En að sjálfsögðu verða það opinberar upplýsingar þegar fram í sækir hvernig úrræðið nýttist og hverjir nýttu það. Í mínum huga er þetta almenn efnahagsleg aðgerð sem við verðum að hafa trú á að skipti máli og við verðum að spyrja okkur hvað það myndi kosta ríkið til lengri tíma að gera ekki neitt,“ sagði Bjarni.
Enginn að tala um að gera ekkert
Logi kom aftur í pontu og sagði að enginn væri að tala um að gera ekki neitt, heldur með hvaða hætti ætti að gera það. Nú lægi fyrir að um það bil sjö milljarðar myndu gagnast Icelandair beint og spurði hann hvort eðlilegt væri að almenningur á Íslandi myndi verja sína stöðu – héldu flugfélaginu gangandi en fengju peningana til baka.
Fjármálaráðherra sagðist í framhaldinu ekki skilja af hverju Logi væri svona upptekinn af þessu eina félagi. „Við erum hér með 35 þúsund manns í hlutastarfaleið og það stefnir í að 50 þúsund manns verði í þeim úrræðum sem stjórnvöld hafa annaðhvort áður lögfest eða eru núna að bregðast við,“ sagði hann.
Hann spurði hvers vegna Logi vildi einungis ræða Icelandair. Hvers vegna boðaði Logi ekki þá stefnu sína að gegn stuðningi við fyrirtæki sem þurfa nauðsynlega að fá svigrúm til að endurskipuleggja fjárhag sinn vildi hann boða ríkisvæðingu allra slíkra fyrirtækja. Logi kallaði fram í og sagði að hann hefði ekki verið að tala um það. Bjarni sagðist þó skilja það þannig af orðum hans.