„Á þessum ótrúlegu óvissutímum neyðast allar þjóðir heims og einstaklingar til að gera áætlanir fram í tímann án þess að vita í raun hvernig sá tími verður,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ávarpi sínu til þjóðarinnar sem flutt var í Ríkisútvarpinu í kvöld.
Í ávarpinu, sem flutt var af því tilefni að á morgun verður slakað ögn á samkomubanninu sem verið hefur í gildi síðan um miðjan mars, sagði Katrín meðal annars að góðum árangri í sóttvarnamálum hérlendis yrði ekki stefnt í hættu við opnun landamæra Íslands, en eins og staðan er núna og fram til 15. maí þurfa allir sem til landsins koma að fara í sóttkví.
Forsætisráðherra sagði að við virtumst vera komin með yfirhöndina í baráttunni gegn veirunni, en björninn væri þó ekki unninn.
„Ef við förum of geyst, þá eru líkur á því að bakslag verði og þá þurfum við að byrja baráttuna upp á nýtt. Slíkt hefði skelfilegar afleiðingar fyrir efnahagslíf okkar og þjóðlífið allt og það er undir okkur sjálfum komið að gæta þess að slíkt gerist ekki,“ sagði forsætisráðherra.
Hún ræddi um efnahagsleg áhrif veirunnar, sagði þau djúp og að ófyrirséð væri hversu langvarandi þau yrðu.
„Við erum stödd í þoku og hún er myrk en við vitum samt að þoku léttir að lokum. Ekki er ósennilegt að ferðaþjónustan muni taka breytingum en hitt mun ekki breytast að hingað vill fólk koma til að upplifa okkar stórbrotnu náttúru,“ sagði Katrín og bætti við stjórnvöld teldu að jákvæð umfjöllun um Ísland á alþjóðavísu hefði sín áhrif og að sú þekking sem orðið hefur til í ferðaþjónustu myndi áfram nýtast.
En áhrif faraldursins teygja sig til fleiri greina en einungis ferðaþjónustunnar. Katrín fjallaði um stöðu þeirra þúsunda Íslendinga sem nýverið hafa misst vinnuna og sagði að fjölga þyrfti stoðunum undir íslenskt efnahagslíf.
„Það veit sá einn sem reynt hefur að vera atvinnulaus hvað það er erfitt og lamandi. Það er ekki eingöngu efnahagslegt áfall, heldur getur það líka verið sálrænt og líkamlegt. Ábyrgð okkar stjórnvalda er að styðja enn betur við fólk í erfiðum aðstæðum og það munum við gera. Því að nú er tíminn til að hugsa vel hvert um annað,“ sagði forsætisráðherra.
Hún bætti við að leiðarljósið framundan yrði að halda uppi atvinnustigi og tryggja afkomu og réttindi launafólks, auk þess að skapa ný störf, auka verðmætasköpun og framboð á menntun og þjálfun.
Ekki tíminn til að ala á sundrungu á milli ríkja
Katrín sagði að margt sem hefði gerst undanfarnar vikur og mánuði hefði komið óþægilega á óvart og nefndi í því samhengi lokuð landamæri á milli vinaþjóða og hatramma samkeppni ríkja heims um búnað og tæki fyrir heilbrigðisþjónustu. Hún sagði að þetta hefði þó breyst „þegar fyrsta fátinu lauk“ og að undanfarið hefði hún fundið fyrir sterkum tengslum á milli Norðurlanda og annarra Evrópuþjóða.
„Þjóðir heims standa frammi fyrir sameiginlegum óvini sem ekki verður sigraður nema í krafti samvinnu, vísinda og staðfestu. Í baráttu mannkyns við COVID-19 er alþjóðlegt samstarf forsenda þess að sigur vinnist. Nú er því ekki tíminn til að grafa undan samstarfi ríkja innan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eða með nokkrum öðrum hætti ala á sundrungu eða tortryggni ríkja á milli,“ sagði Katrín, og bætti við að faraldurinn hefði minnt okkur áþreifanlega á gildi vísinda og þekkingar og faglegra og fumlausra vinnubragða.
„Hér heima hafa stjórnvöld, vísindamenn og viðbragðsaðilar unnið sem einn maður og af því er ég stolt. Við höfum farið þá leið að beita hörðum sóttvarnaráðstöfunum að ráði okkar heilbrigðisvísindamanna sem hafa verið í takt við ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Þær hafa reynst okkur vel,“ sagði Katrín.
Áföll sem þetta sýni úr hverju fólk er gert
Forsætisráðherra sagði engan vita hvernig heimurinn myndi breytast eftir kórónuveiruna. „En sumt mun ekki breytast. Við munum áfram vera manneskjur, við munum áfram þrá og elska, muna og sakna, gleðjast og hryggjast. Áföll eins og þetta eru stundum eins og spegill sem sýnir úr hvaða efni fólk er gert og hvað skiptir máli í lífinu,“ sagði Katrín og bætti við að undanfarnar vikur hefðu reynt á þolrifin og framundan væru áfram strembnir tímar.
Hún hrósaði viðbrögðum fjölmargra aðila undanfarnar vikur og sagði samfélagið hafa gert margt til þess að lyfta okkur upp í þungbærum og erfiðum aðstæðum undanfarinna vikna.
Að lokum flutti Katrín þjóðinni skilaboð um vikurnar framundan:
„Frá og með morgundeginum hefjum við vegferð okkar, skref fyrir skref í átt að bjartari dögum. Við skulum njóta þess og muna að ástæðan fyrir því að hægt er að taka þetta skref í að slaka á samkomubanninu er sú að við höfum staðið okkur frábærlega vel og náð tökum á útbreiðslu veirunnar. En við skulum líka muna að faraldurinn geisar enn um heiminn og nú tekur við erfitt uppbyggingarstarf sem mun reyna á þolinmæðina. Ef við fögnum of snemma og missum einbeitinguna þá getur farið illa. Verkefninu er ekki lokið, og við verðum að vanda okkur.
Við verðum að vanda okkur fyrir börnin okkar, fyrir ömmur og afa, fyrir alla ástvini. Af því að markmiðið er að við gerum þetta saman og skiljum engan eftir þegar samfélagið opnast aftur. Við ætlum öll, ungir sem gamlir, veikir sem hraustir að geta notið sólarinnar, samvista og alls þess sem landið okkar góða hefur upp á að bjóða. Við fórum saman í þessar aðgerðir og við ætlum að koma út úr þeim saman.
Og ef okkur tekst vel upp eru allar forsendur til þess að batinn verði hraður. Ísland verður áfram land tækifæranna, land með öflugar grunnstoðir, stórbrotna náttúru og einstaka menningu en fyrst og fremst kærleiksríkt fólk sem getur allt sem það vill.
Píningsveturinn er að baki, sumarið heilsar okkur, lóan er komin og það á að hlýna í vikunni. Við erum hér öll saman á eyjunni okkar og finnum hvað lífið er dýrmætt og finnum að við eigum öflugt, frjálst og opið umhyggjusamfélag. Það er ekki sjálfgefið og það er þess virði að berjast fyrir. Það höfum við þegar sýnt og megum vita að það getum við saman,“ sagði forsætisráðherra.