Íslendingar eru í miklu sterkari stöðu til að nýta sér „upphafið að hinum breytta heimi“ en margar aðrar þjóðir, sagði Ólafur Ragnar Grímsson í Silfrinu á RÚV í dag. Forsetinn fyrrverandi lagði til að Ísland myndi bjóða fólk velkomið til þess að flýja kórónuveiruna og að sett yrði upp einhvers konar „miðstöð“ til þess að setja fólk í sóttkví við komuna til landsins.
Ólafur Ragnar sagði að Ísland sé nú að njóta enn einnar bylgju jákvæðrar umfjöllun í alþjóðlegum fjölmiðlum vegna veiruviðbragðanna hérlendis við og að það skapi tækifæri, jafnvel til þess að bjóða Ísland fram sem valkost fyrir viðkvæma hópa sem vilja losna, til dæmis, úr þéttbýlum borgum erlendis.
„Hver vill vera í biðröð í London, París, svo maður nefni nú ekki Asíu eða innan um kraðakið á götunum þegar menn eiga kost á því að vera nánast einir í náttúrunni á Íslandi?“ sagði Ólafur Ragnar.
„Ég held að ef okkur tekst að hugsa þetta með nýjum hætti getum við boðið veröldinni tækifæri, aðstöðu og upplifun á næstu mánuðum og misserum og árum sem önnur lönd geta ekki,“ sagði Ólafur Ragnar, sem sagðist vita til þess að fjöldi fólks væri tilbúinn að ferðast þrátt fyrir að þurfa að vera í sóttkví.
„Eins og menn mynduðu Ferðaþjónustu bænda hér fyrir nokkrum áratugum, þá held ég að við þurfum að mynda einhverja miðstöð sem sameinar það að fylgjast með fólki, greina það, prófa það, setja það í sóttkví, en líka gefa því tækifæri að fara á Norðurland, Austfirði, Suðurlandið. Við þurfum að hugsa þetta upp á nýtt,“ sagði Ólafur Ragnar.
Telur stöðu Asíu og sér í lagi Kína vera að styrkjast
Hann var einnig spurður út í stöðuna í heimsmálum eins og hún blasir við honum á tímum faraldursins og sagði að Vesturlönd þyrftu nú að horfast í augu við það að heimsmyndin væri breytt og að viðbrögðin við veirunni í stærstu ríkjum Evrópu, að undanskildu ef til vill Þýskalandi, hefðu verið slöpp. Viðbrögðin í Bandaríkjunum hefðu síðan „endanlega rústað því að veröldin horfi til Bandaríkjanna sem fyrirmyndar eða til þess að veita forystu.“
Ólafur Ragnar sagði að ríki Asíu hefðu staðið sig mun betur í baráttunni við veiruna og að í kjölfarið myndu þau og sér í lagi Kína, standa sterkari eftir. Kína yrði þannig eina ríkið sem yrði aflögufært til þess að hjálpa Afríku, ef eða þegar kórónuveiran færi að valda hörmungum þar. Evrópa yrði það ekki og ekki Bandaríkin heldur. Þá hefði Evrópusambandið reynst vanmáttugt þegar á reyndi.
„Kína verður eina landið sem getur hjálpað Afríku. Ég held að það verði mjög erfitt, á Vesturlöndum, á næstu misserum og árum að telja almenningi trú um það að hinn mikli óvinur okkar á 21. öld sé Asía. Þvert á móti held ég að það verði mjög erfitt en líka ögrandi verkefni fyrir forystusveitir á Vesturlöndum, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, og fjölmiðlafólk, að hjálpa hinum lýðræðislegu samfélögum að átta sig á þessari nýju heimsmynd.
Þetta er hinn nýi veruleiki, sem við verðum að taka með í reikninginn, því þetta er ekki búið. Þetta er ekki eina tilvikið á næstu áratugum. Við þurfum að búa okkur undir það að veirur og náttúran banki upp á, og gleymum ekki loftslagsbreytingunum, með þeim hætti sem við höfum aldrei fyrr séð í sögu mannkyns,“ sagði Ólafur Ragnar.