Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur boðað formenn stjórnmálaflokkanna til fundar næstkomandi föstudag vegna stjórnarskrárvinnu sem flokkarnir hafa sinnt á þessu kjörtímabili en hlé var gert á þeirri vinnu vegna COVID-19 faraldursins. Þetta kom fram í máli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Þorgerður Katrín benti á að skýrt hefði komið fram í viðhorfskönnun Félagsvísindastofnunar hvert viðhorf þjóðarinnar væri. „Það er alveg skýrt samkvæmt viðhorfskönnuninni að eindreginn vilji þjóðarinnar er sá að það eigi að endurskoða það ranglæti sem felst í því misvægi atkvæða sem við búum við í dag. Þetta er eitt skýrasta dæmið um almannahagsmuni á okkar tímum. Og núna þegar við höfum tækifæri til að fara í þessi mál með allt veganestið sem við höfum, þessi skýru skilaboð, þá verðum við að mínu mati að taka á þessu. Þetta er eitt af þeim kjarnamálum sem Viðreisn byggir meðal annars sinn málflutning og stefnu sína og hugsjónir á, að einn maður er ígildi eins atkvæðis,“ sagði hún.
Þorgerður Katrín spurði Katrínu hvort hún myndi beita sér fyrir því að þetta mál yrði tekið upp.
Ekki á upprunalegu áætluninni
Forsætisráðherra svaraði og sagði að til stæði að ræða mál er varða forsetaembættið og framkvæmdavald á fundinum á föstudaginn. Hún sagði að ekki hefði verið á upprunalegri áætlun hennar fyrir þetta kjörtímabil að ræða jöfnun atkvæða þar sem hún hefði skipt vinnunni við heildarendurskoðun stjórnarskrár niður á tvö kjörtímabil.
„Ég hef hins vegar sagt að sé áhugi fyrir því á vettvangi formanna að breyta þeirri áætlun er ég reiðubúin til þess og meðal annars þess vegna var þetta eitt af þeim atriðum sem við settum inn í ekki bara viðhorfakönnunina sem hæstvirtur þingmaður nefnir heldur einnig í rökræðukönnunina sem fór fram í framhaldinu,“ sagði forsætisráðherrann.
Hún nefndi að þar hefði nákvæmlega hið sama komið fram og Þorgerður Katrín talaði um; að mikill áhugi væri á því að jafna vægi atkvæða. „Áhrif umræðunnar á rökræðufundinum voru í raun og veru þau að fólk var reiðubúið að horfa á fleiri leiðir en þær að breyta landinu í eitt kjördæmi, þ.e. það var reiðubúið að horfa til þess að breyta hugsanlega kjördæmaskipan til að jafna mætti vægi atkvæða en þessi almenna lína var mjög skýr eins og hv. þingmaður nefnir. Ég hyggst því taka það upp á fundinum á föstudaginn hvort áhugi sé fyrir því á þeim vettvangi að taka þetta mál á dagskrá á þessu kjörtímabili,“ sagði hún.