Íslensk stjórnvöld ætla að veita 276 milljónum króna til ýmissa alþjóðastofnana og samtaka, auk verkefna í þróunarsamvinnuríkjunum Úganda og Malaví, til þess að bregðast við COVID-19, samkvæmt áætlun sem alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofa utanríkisráðuneytisins hefur unnið um fyrstu viðbrögð við faraldrinum.
Fjallað er um áætlunina í skýrslu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnurráðherra um utanríkis- og alþjóðamál, sem lögð var fram Alþingi í gær.
Þar segir að áætlunin um þessi fyrstu viðbrögð sé heildræn og unnin upp úr neyðarköllum frá alþjóðastofnunum og öðrum samstarfsaðilum Íslands á vettvangi mannúðarmála og þróunarsamvinnu, auk þess sem hún byggi á upplýsingum frá fundum tengdum faraldrinum, meðal annars reglulegum fundum norrænna þróunarsamvinnuráðherra.
Fram kemur í skýrslunni að féð skiptist á milli ýmissa stofnanna og sjóða Sameinuðu þjóðanna, meðal annars Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), Flóttamannastofnunarinnar (UNHCR), Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna vegna COVID-19.
Þá verður fé veitt til Alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða kross Íslands, Alþjóðabankans, og einnig til verkefna í tvíhliða samstarfsríkjum Íslands, Úganda og Malaví.
„Þá hefur Alþjóðaframfarastofnun Alþjóðabankans (IDA), sem Ísland styður með 415 milljóna króna framlagi á árinu, brugðist skjótt við með víðtækum stuðningi við fátækustu ríki heims,“ segir í skýrslu utanríkisráðherra, en þar kemur einnig fram að Ísland hafi tekið þátt í viðræðum um það hvernig stofnir Alþjóðabankans muni bregðast við efnahagslegum og félagslegum afleiðingum COVID-19 faraldursins í gegnum kjördæmastarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.
„Þessu til viðbótar hafa þegar verið greidd kjarnaframlög til ýmissa stofnana og sjóða Sameinuðu þjóðanna sem geta meðal annars nýst fyrir COVID-19 baráttuna. Viðbúið er að bregðast þurfi við með frekari aðgerðum á síðari stigum,“ segir í skýrslu utanríkisráðherra.
Ísland muni ekki láta sitt eftir liggja í að styðja fátækustu ríkin
Í skýrslunni segir að heimsfaraldurinn hafi breytt heimsmyndinni, í stóru sem smáu, og glundroða hafi gætt í alþjóðlegu samstarfi þegar veiran fór að láta á sér kræla utan Asíu. Þegar á leið hafi þó rofað til og nú sé eining á meðal helstu samstarfsríkja Íslands um að standa vörð um alþjóðlegt samstarf og stofnanir á borð við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina.
„Meðal Norðurlandanna ríkir samstaða um að efla þurfi mannréttindi og lýðræði sem eiga undir högg að sækja á tímum kórónuveirunnar og styðja fátækustu ríkin, í samstarfi við alþjóðastofnanir og mannúðarsamtök, og mun Ísland ekki láta sitt eftir liggja í því efni,“ segir í skýrslu utanríkisráðherra.
Þar segir einnig að viðbúið sé að farsóttin hafi geigvænlegar heilsufars- og efnahagslegar afleiðingar í fátækum og stríðshrjáðum löndum og reikna megi með að þörfin fyrir neyðar- og mannúðaraðstoð vaxi gríðarlega.