Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að því, í óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi í gær, hvort ríkisstjórnin hefði átt einhverja umræðu um hagsmunamat einstakra ráðherra gagnvart þeim umfangsmiklu efnhagsaðgerðum sem nú er verið er að ráðast í til að sporna við áhrifum heimsfaraldursins.
„Hefur ríkisstjórnin rætt um einhver hagsmunatengsl innan sinna raða? Hefur það komið til tals, að mögulegu séu ráðherrar á, að minnsta kosti á gráu svæði, þegar kemur að hæfi sínu í að gera þessar aðgerðir vegna tengsla sinna við fyrirtæki sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa veruleg áhrif á. Hefur þetta verið rætt, eða kemur til greina að ræða það?“ spurði Þórhildur Sunna.
Katrín svaraði því til að auðvitað gætu ráðherrar sagt sig frá málum, ef þau vörðuðu þeirra persónulegu hagsmuni. „Um það eru dæmi. Það hefur ekki gerst í tengslum við þessar aðgerðir,“ sagði forsætisráðherra, en svaraði því hins vegar ekki, hvort umræða hefði átt sér stað innan ríkisstjórnarinnar um þessi mál.
Hæfi ráðherra nýlega til umræðu
Þórhildur Sunna er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, en sú nefnd hefur meðal annars frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra og verklag þeirra. Málefni sem varða hæfi ráðherra til að taka ákvarðanir sem varða hagsmuni einstakra einkafyrirtækja hafa nýverið verið á borði nefndarinnar.
Í desember réðist nefndin í frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í ljósi tengsla hans við Samherja.
Ráðherrann hafði sjálfur lýst því yfir í stöðuuppfærslu á Facebook í desember 2017, eftir að gagnrýni kom fram vegna tengsla hans við Samherja og áratugavináttu við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra og einn aðaleiganda fyrirtækisins, að hann myndi meta hæfi sitt í málum sem vörðuðu fyrirtækið „líkt og allir stjórnmálamenn þurfa að gera þegar fjölskyldu-, vina- og kunningjatengsl gætu haft áhrif á afstöðu til einstakra mála“.