Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, fjallaði um neytendamál og aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 faraldursins í dagskrárliðnum störf þingsins í dag. Hún segist hafa samúð með ferðaþjónustunni – ekki síst með ferðaskrifstofum sem glíma nú við lausafjárvanda. Hún segir þó að leiðin sem ríkisstjórnin hafi valið sé með eindæmum. „Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin hafi valið þá leið að ganga svo freklega á rétt neytenda.“
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði í samtali við fréttastofu RÚV í vikunni að ráðist væri að rétti neytenda úr öllum áttum. Ferðaskrifstofur neituðu að endurgreiða ferðir sem ekki verða farnar. Líkamsræktarstöðvar, tónlistar- og myndlistaskólar rukkuðu fyrir tíma sem ekki er hægt að nýta. Verði stjórnarfrumvarp sem nú er fyrir Alþingi að lögum væri verið að varpa lausafjárvanda ferðaskrifstofa yfir á herðar neytenda.
Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Jóhannes Þór Skúlason, svaraði Breka og sagði það af og frá að neytendur væru gerðir að lánastofnunum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki.
Af því að neytendur eru ekki útgerðarmenn?
Þorgerður Katrín vildi undirstrika að hún skildi lausafjárvanda ferðaskrifstofa og að hann þyrfti að leysa. Það yrði þó ekki gert með því að ganga á réttindi neytenda. „Ég sit í atvinnuveganefnd og um þetta mál var engin umræða í morgun af því að greinilega eru einhver áhöld um hvernig eigi að leysa málið innan stjórnarflokkanna. Það liggur líka ljóst fyrir að þessi leið ríkisstjórnarinnar gengur freklega gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar, gegn eignarréttinum,“ sagði hún á þingi í dag.
Hún spurði af hverju þetta skyndilega sinnuleysi ríkisstjórnarflokkanna, þar með talið Sjálfstæðisflokksins, væri gagnvart eignarréttinum. „Af hverju er ekki hægt að taka tillit til neytenda? Af því að neytendur eru ekki útgerðarmenn? Af því að Neytendasamtökin eru ekki samtök hagsmunaaðila í útvegi?“ spurði hún og bætti því við að leiðin sem ríkisstjórnarflokkarnir hefðu ákveðið gengi bæði gegn eignarrétti og hagsmunum neytenda.
„Við þurfum engu að síður að taka utan um ferðaskrifstofurnar. Ef málið breytist ekki í meðförum nefndarinnar mun ég þess vegna leggja til tillögu í anda Dana, þ.e. að verja neytendur en halda líka uppi eðlilegu umhverfi, eins eðlilegu og hægt er í því annarlega umhverfi sem við búum við núna. Ég furða mig á leið Sjálfstæðisflokksins sem allt í einu sýnir svo skringilegt sinnuleysi gagnvart eignarréttinum,“ sagði hún að lokum.