Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var spurður út í nýleg ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, þess efnis að skoða þyrfti aukna tollvernd hérlendis til þess að styðja við innlenda framleiðslu, á fundi með félögum í Félagi atvinnurekenda (FA) í morgun. Bjarni sagðist ekki hlynntur því að hækka tolla til þess að efla innlenda framleiðslu.
Samkvæmt frásögn af fundinum á vef FA er ljóst að þessum leiðtogum ríkisstjórnarinnar greinir á um tollastefnuna, en Sigurður Ingi sagði í umræðum á Alþingi 14. apríl síðastliðinn að ef „við meintum eitthvað“ með því að auka innlenda framleiðslu væri að hans mati nokkuð augljóst að skoða þyrfti aukna tollvernd fyrir íslenska matvælaframleiðslu.
„Tollar eru jú notaðir til þess að vega upp kostnað við mismunandi stofnkostnað eða rekstrarkostnað við framleiðslu, það er hugsunin á bak við tolla. Við höfum látið það óáreitt í mjög langan tíma,“ sagði Sigurður Ingi.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, spurði Bjarna út í þessi ummæli. Svar Bjarna var á þá leið að þetta hugnaðist honum ekki.
„Ef menn vilja treysta matvælaöryggi og efla framleiðslu úr þeim gæðum sem við höfum á Íslandi þá eru fyrst og fremst tvær leiðir færar. Leiðin sem ríkisstjórnin hefur boðað er að efla innlendu framleiðsluna og hún felur ekki í sér tollahækkanir. Það væri þá hin leiðin, að taka af fólki valkosti með hreinum tollahækkunum,“ er haft eftir Bjarna á vef FA.
„Það er hægt að koma í veg fyrir að menn geti átt viðskipti með innflutninginn með því að reisa tollavegg. Ég er ekki hrifinn af því,“ er einnig haft eftir fjármálaráðherra og því bætt við að hann hafi látið fylgja að á hinn bóginn væri hægt að segja að það væri „sanngjarnt að jafna upp að einhverju marki ólíka samkeppnisstöðu þeirra sem eru að framleiða á Íslandi í samkeppni við vörur, sem flæða í mörgum tilvikum tollfrjálst til landsins eða með mjög takmörkuðum tollum og hafa verið niðurgreiddar í heimalandinu.“
„Það er leiðin sem ég er miklu hrifnari af, að styðja þessa innlendu framleiðslu en byggja að öðru leyti á valfrelsi neytendanna,“ er haft eftir Bjarna.
Stjórnvöld hafa að undanförnu kynnt aðgerðir til þess að styðja íslenska framleiðslu nú á tímum heimsfaraldurs, en til dæmis stendur til að verja 500 milljónum króna í sérstakan Matvælasjóð, sem ætlað er að efla nýsköpun og þróun í íslenskri matvælaframleiðslu.
Þá hefur einnig verið samið um að ríkið leggi 100 milljónir til kynningarátaks undir heitinu „Íslenskt - gjörið svo vel“, en átakið snýst um að hvetja landsmenn til að skipta við innlend fyrirtæki á fjölbreyttum sviðum við val á framleiðslu, vörum og þjónustu.