Samkeppniseftirlitið hefur tilkynnt Brimi hf., sem er skráð á íslenskan hlutabréfamarkað, að það muni hefja sjálfstæða rannsókn á því hvort stofnast hafi til yfirráða Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. og tengdra aðila í Brimi vegna tiltekinna viðskipta Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. og tengdra aðila á árinu 2019 með eignarhluti í Brimi. Að mati eftirlitsins voru þessi viðskipti „til þess fallin að hafa áhrif á mat á yfirráðum í félaginu í skilningi samkeppnislaga. Í þessu máli yrði tekin afstaða til þess hvort að við mögulega myndun yfirráða í Brimi hafi verið framkvæmdur samruni af hálfu aðila í andstöðu við 3. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Brimi til Kauphallar Íslands. Þar kemur einnig fram að tíðindin af rannsókninni hefðu verið boðuð í ákvörðun eftirlitsins varðandi kaup Brims á Fiskvinnslunni Kambi hf. og Grábrók ehf. sem var tilkynnt Brim í gærkvöldi.
Hætti í síðustu viku
Brim er sú útgerð sem heldur á mestum kvóta allra á Íslandi, eða 10,13 prósent. Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 44,65 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 3,51 prósent af öllum aflaheimildum. Útgerðarfélag Reykjavíkur er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar,. Til viðbótar heldur útgerðarfélagið Ögurvík, að fullu í eigu Brims, á 1,55 prósent af úthlutuðum kvóta. Þessi hópur útgerða sem tengjast Guðmundi er því með 15,19 prósent af úthlutuðum kvóta.
Guðmundur var ekki einungis aðaleigandi stærsta eiganda Brims. Hann var líka forstjóri félagsins frá því í júní 2018 og þangað til í síðustu viku. Þá tilkynnti hann um að hann myndi láta af störfum sem forstjóri af persónulegum ástæðum. Guðmundur situr þó enn í stjórn Brims.