Finnur Oddsson, sem síðustu sjö ár hefur verið forstjóri Origo, tekur við sem forstjóri smásölurisans Haga af Finni Árnasyni. Greint var frá þessari ákvörðun í tilkynningu til Kauphallar Íslands í kvöld. Finnur Oddsson er með doktorspróf í atferlisfræði frá West Virginia University og lauk AMP námið frá IESE í Barcelona. Hann var á árum áður framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Finnur segir í tilkynningunni að tvennt móti sérstaklega umhverfi smásölu á okkar tímum, annars vegar hraðar breytingar á hegðun neytenda og hinsvegar tækni. „Hvoru tveggja eru sérstök áhugasvið hjá mér. Það eru því forréttindi að fá, í samstarfi við framúrskarandi hóp starfsfólks hjá Högum, að móta starfsemi og framtíð þessa sögufræga forystufyrirtækis i smásölu á Íslandi. Staða Haga er einstaklega góð og það eru spennandi tækifæri framundan.“
Greint var frá því 30. apríl síðastliðinn að Finnur Árnason, sem hefur verið forstjóri smásölurisans Haga frá árinu 2005, hefði óskað eftir því að láta af störfum. Á sama tíma var sagt frá því að Guðmundur Marteinsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Bónus sem er í eigu Haga um árabil, einnig óskað eftir því að hætta. Þeir tveir hafa verið lykilmenn í þeim mikla vexti sem Hagar hafa gengið í gegnum á þessari öld og hófu báðir störf þar fyrir aldarmót.
Í fjölmiðlum undanfarna daga hefur verið greint frá því að starfslok þeirra muni kosta Haga um 300 milljónir króna.
Hagar reka 46 verslanir innan fimm smásölufyrirtækja og tveggja vöruhúsa. Þá rekur félagið 28 Olísstöðvar um land allt auk 41 ÓB-stöð. Meginstarfsemi Haga er á sviði matvöru en innan þess eru tvær af stærstu verslunarkeðjum landsins, Bónus og Hagkaup, svo og stoðstarfsemi á sviði innkaupa og dreifingar.