Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, gerði frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um útlendingamál að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Hún sagði að óskandi væri að þeir stjórnarliðar sem hefðu talað í þessu máli af hálfu Vinstri grænna – og ýmist lýst yfir efasemdum eða allt að því andstöðu – hefðu kjarkinn til að standa með þeim efasemdum sínum í málinu og stoppa það.
Hún benti á að frumvarpið væri að mestu óbreytt frá upphaflegu frumvarpi sem þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, lagði fyrst fram í samráðsgátt. Þar væri fjallað um möguleika fólks á alþjóðlegri vernd á Íslandi og möguleika stjórnvalda til að vísa þessu sama fólki burt.
„Rauði þráðurinn í frumvarpinu er að styrkja stoð Dyflinnarreglugerðarinnar. Í samhengi hlutanna hér held ég að það hljóti einfaldlega að þýða að þeir sem hafa fengið inni einhvers staðar annars staðar, hvar sem það nú er, eigi ekki skjól hér. Engu skiptir hvar það er, í hvaða löndum það er eða við hvaða aðstæður það er og hvaða aðstæður bíða fólks þar. Það er einfaldlega þannig að mjög lítið er á bak við þann merkimiða að hafa til dæmis fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi og það að halda því fram að það sé raunveruleg vernd fyrir fólk sem sent er út í vonleysi er ekki góð pólitík,“ sagði hún.
Styttri málsmeðferðartími ekki stóri sannleikurinn
Þingmaðurinn sagði að allt þetta væri sett fram undir formerkjum skilvirkni og einfaldari málsmeðferðar. Þótt það væri vissulega ágætt og alltaf kappsmál að stytta málsmeðferðartíma leyfði hún sér að fullyrða að það væri ekki biðtíminn sem hefði truflað almenning hér.
„Styttri málsmeðferðartími er ekki stóri sannleikurinn þegar niðurstaðan verður vond og jafnvel ómannúðleg. Það er ekki það sem kallað hefur verið eftir. Við höfum séð sorglegar sögur fólks, fullorðinna og barna, sem sækja skjól á Íslandi og það er fólk sem raunverulega þarf á þessari vernd að halda. Þetta mál er að mínu viti skref til baka.
Þorbjörg Sigríður spurði dómsmálaráðherra í framhaldinu hvort einhugur væri um þetta mál í ríkisstjórninni og hvort ráðherra nyti stuðnings samráðherra sinna úr öðrum flokkum.
Verðum að forgangsraða fyrir þá sem þurfa raunverulega vernd
Áslaug Arna svaraði og sagði að ekki væri rétt að frumvarpið væri óbreytt. „Vegna athugasemda frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna var til dæmis fallið frá því að kæra fresti réttaráhrifum sem og var tekið út að það þyrfti verulegar ástæður vegna endurupptöku.“
Hún sagði að það skipti einmitt máli hvar fólk hefði verið. „Við beitum til dæmis ekki Dyflinnarreglugerðinni er varðar Grikkland og Ungverjaland vegna þeirra stöðu sem þau lönd eru í í dag. Við sendum fólk ekki til baka í flóttamannabúðir í Grikklandi.“
Varðandi frumvarpið sjálft væru þau að líta til málsferðartímans vegna þess að óásættanlegt væri að svo margir sem koma hingað þyrftu að bíða í fjölda mánaða eftir endanlegri niðurstöðu.
„Við verðum að forgangsraða fyrir það fólk sem er í raunverulegri þörf fyrir vernd. Verndarkerfið okkar er einmitt ekki hugsað fyrir fólk sem er með vernd í öðru ríki nú þegar. Þrátt fyrir breytingarnar í frumvarpinu fá þeir sem eru með vernd annars staðar einstaklingsbundna skoðun, þ.e. fá viðtal og geta lagt fram þau gögn sem þeir óska eftir og fært fram rök fyrir sinni vernd hér þrátt fyrir vernd annars staðar. Endursendingar mega aldrei brjóta í bága við 42. gr. útlendingalaga sem byggist á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu,“ sagði ráðherrann.
Einstaka fyrirvarar hjá Vinstri grænum
Áslaug Arna sagði jafnframt að auðvitað ætti að ræða það að fólk sem er með vernd annars staðar og með réttindi eins og ríkisborgarar annarra Evrópuríkja ætti að geta komið hingað og fengið frekar atvinnuleyfi. „Við ættum að hugsa það út frá því að þau eiga ekki endilega heima í verndarkerfinu okkar þar sem við verðum að forgangsraða betur. Þrátt fyrir að 531 einstaklingur hafi fengið vernd í gegnum það kerfi okkar á síðasta ári verður okkur að ganga betur í stjórnsýslu útlendingakerfisins. Það er óásættanlegur biðtími í dag. Við verðum að geta afgreitt mál betur og hraðar á þeirri forsendu að fólk geti fyrr hafið árangursríka aðlögun.“
Varðandi samstöðu í ríkisstjórninni þá sagði hún að einstaka fyrirvarar væru hjá Vinstri grænum við nokkur atriði frumvarpsisn. Hún svaraði því ekki hvort hún nyti stuðnings samráðherra sinna úr öðrum flokkum.
Lýsir skorti á mannúð, samkennd og ábyrgð
Þorbjörg Sigríður tók aftur til máls og sagði að valdið væri dómsmálaráðherra og ríkisstjórnarflokkanna þriggja. Hún endurtók spurninguna: „Er samstaða í ríkisstjórnarflokkunum þremur?“
Hún vék máli sínu að þeim fyrirvörum sem Áslaug Arna nefndi. „Allir sem hafa hlýtt á það hverjir fyrirvararnir eru átta sig á því að þeir eru veigamiklir. Mér finnst svör dómsmálaráðherra því miður ramma ágætlega inn að hverju er stefnt og ég hef áhyggjur af því. Mér finnst þessi pólitík lýsa skorti á mannúð, samkennd og ábyrgð. Þeir stjórnarliðar sem hafa talað í þessu máli af hálfu VG hafa ýmist lýst yfir efasemdum eða allt að því andstöðu,“ sagði hún.
Óskandi væri, að mati Þorbjargar Sigríðar, að þeir hefðu kjarkinn til að standa með þeim efasemdum sínum í málinu og stoppa það. „Sannarlega verður að forgangsraða, sannarlega verður að horfa til þeirra sem eru í mestri þörf, en áhyggjuefnið er hvar sú lína er dregin. Vernd mun standa mjög fáum til boða verði þetta niðurstaðan, jafnvel ekki þeim sem sannarlega þurfa á henni að halda. Niðurstaðan verður: Hingað geta fáir leitað og mörgum verður vísað burt. Það er pólitík sem er ekki hægt að taka undir.“
„Við gerum betur en nokkur önnur lönd í kringum okkur“
Dómsmálaráðherra kom í pontu í annað sinn og sagði að það væri alrangt hjá þingmanni að eftir að þetta frumvarp færi í gegn myndu fáir eiga þess kost að fá vernd, að það myndi standa fáum til boða. „Það er alrangt hjá hæstvirtum þingmanni. Við sjáum það í dag að allir þeir sem fá jákvæð svör í kerfinu okkar í dag eru einmitt þeir sem eru í raunverulegri þörf fyrir vernd, að flýja ofsóknir í heimalandi sínu. Aukinn fjöldi úr þeim hópi kemur hingað að sækja um í fyrsta skipti á Íslandi og hefur ekki sótt um í öðru landi, er ekki með vernd annars staðar og þarf raunverulega á vernd að halda. Þeir sem falla undir það að vera með vernd annars staðar fá oftast neikvætt svar í íslensku kerfi í dag þannig að raunverulega breytir þetta mjög litlu nema því að hraða svarinu.“
Hún sagði að það sem Þorbjörg Sigríður kæmi inn á – mannúð, samkennd og ábyrgð – væri einmitt það sem útlendingalöggjöfin og útlendingastefna Íslands gengi út á, sem og að gera vel við þá sem koma hingað í raunverulegri þörf fyrir vernd.
„Við erum að gera vel, við gerum betur en nokkur önnur lönd í kringum okkur við að taka á móti fólki, hvort sem við miðum við fjölda eða hvernig við erum að bregðast við COVID, og gefa fólki alþjóðlega vernd vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi sem mun hafa áhrif á 225 einstaklinga,“ sagði hún að lokum.