Festi hf. hefur ákveðið að frá og með deginum í dag muni félagið ekki nýta hlutabótaleið stjórnvalda, en hluti starfsmanna fyrirtækisins, sem starfa fyrir dótturfélögin Elko og N1, hafa verið í skertu starfshlutfalli undanfarnar vikur.
Í tilkynningu frá Festi, sem Eggert Þór Kristófersson forstjóri félagsins undirritar, er áréttað að síðan hlutabótaúrræði stjórnvalda var kynnt til sögunnar hafi fyrirtækið ekki greitt út arð eða keypt eigin hlutabréf.
Ekkert kemur fram í tilkynningunni um hvort Festi hyggist endurgreiða þann ríkisstuðning sem í hlutabótaúrræðinu felst til baka, eins og Skeljungur ákvað að gera í gær.
Þar kemur hins vegar fram að vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins og samkomubanns stjórnvalda hafi verslanir Elko á Keflavíkurflugvelli og nokkrar þjónustustöðvar N1 orðið fyrir „algjöru eða miklu tekjutapi og verulegum takmörkunum á starfsemi“.
„Hlutabótaleiðin var nýtt að hvatningu stjórnvalda í stað þess að grípa til uppsagna og vernda þannig ráðningarsamband við starfsfólk, enda er okkur umhugað um að vernda störf og halda því góða starfsfólki sem hjá okkur starfar.
Ákvörðunin var tekin með góðum hug og hvarflaði það ekki að okkur að hún myndi orka tvímælis enda fór fyrirtækið í einu og öllu að tilmælum stjórnvalda,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins, sem segist hafa skýra stefnu um samfélagslega ábyrgð.
„Það eru einkennilegir tímar sem við lifum núna og margt óvænt sem kemur upp í daglegum rekstri sem við lærum af,“ segir í tilkynningu Festar.