Ekkert nýtt smit af COVID-19 greindist síðasta sólarhringinn og eru staðfest smit því enn 1.801. Rúmlega tuttugu manns eru með virk smit og í ljósi alls þessa telur Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tilefni til að taka stærri skref í þá átt að aflétta takmörkunum sem nú eru í gildi. Að sama skapi verðum við að vera undirbúin fyrir bakslag í formi hópsýkinga.
Þann 18. maí verða sundlaugar opnaðar á nýjan leik. Unnið er að tillögum um útfærslur á þeirri framkvæmd.
Næsta skref í almennri afléttingu takmarkana verður þann 25. maí. „Þar hefur fram til þessa verið rætt um 100 manna samkomur en ég held að það sé ljóst að við getum stigið stærra skref og ljóst að við förum í stærri tölur,“ sagði Þórólfur. „Það er óhætt að fara hraðar og brattar í þetta en við héldum sem er bara ánægjulegt.“
Nánari útlisting á tveggja metra nándarreglunni verður þá einnig tilkynnt, m.a. fyrir einstaka fyrirtæki, stofnanir og starfsemi.
„Í framhaldi af því held ég að þremur vikum seinna ættum við að geta stigið þriðja skrefið og ef allt gengur vel þá ættum við að geta farið bratt inn í þá afléttingu sömuleiðis,“ sagði Þórólfur. „Þannig að útlitið er gott um hverju við getum farið að aflétta á næstunni.“
Hægt er að fara hraðar í afléttinguna en áætlað var þar sem vel hefur gengið að bæla faraldurinn niður. Þórólfur sagði að gera mætti ráð fyrir bakslagi í formi hópsýkinga. Það þurfi þó ekki endilega að þýða „eitthvað mjög slæmt“ þar sem nú hefðum við öðlast góða reynslu af því að fást við slíkar sýkingar og fyrirkomulag heilbrigðiskerfisins ætti að geta ráðið við þær.
Ferðamenn þurfa áfram í sóttkví
Í gildi eru reglur um að allir sem koma hingað til lands þurfi að fara í tveggja vikna sóttkví. Þær gilda til 15. maí en Þórólfur telur ljóst að þær verði framlengdar. „Það er brýnt að taka ákvörðun um hvað tekur við eftir þetta,“ sagði hann og minnti á að þrátt fyrir þessar takmarkanir væru landamæri Íslands enn opin. Nú væru uppi ýmsar hugmyndir um hvernig hægt væri að opna þau ennfrekar.
Tryggja verði að veiran komi ekki aftur hingað og önnur bylgja faraldurs skelli á. „En íslenskt samfélag þarf á því að halda að hér verði opnað fyrir ferðamennsku af einhverju tagi,“ sagði Þórólfur. Það væri sitt hlutverk að gera tillögur sem snúist fyrst og fremst um heilbrigðissjónarmið en stjórnvalda að taka endanlegar ákvarðanir.
Sérstakur starfshópur vinnur enn að tillögum um hvernig best sé að gera þetta en hann mun ekki ná að skila af sér fyrir miðjan mánuð. „Það eru allar líkur á því að ég muni leggja til við heilbrigðisráðherra að framlengja þær ráðstafanir sem nú eru við lýði tímabundið þar til við fáum góðar niðurstöður í hvernig endanlegar aðgerðir eiga að vera varðandi landamæri Íslands. Við flýtum okkur ekki mjög hratt í því en gerum þetta eins vel og hægt er.“
Þórólfur minnti svo á að nú sem aldrei fyrr væri mikilvægt að fólk viðhefði þær einstaklingsbundnu sóttvarnaráðstafanir sem hamrað hefur verið á. Sé fólk með einkenni á það ekki að fara manna á meðal heldur hafa samband við sína heilsugæslu. Handþvottur er svo áfram gríðarlega mikilvægur. „Það eru þessar aðgerðir sem munu skila árangri.“