Samninganefnd Eflingar undirritaði í gærkvöldi kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga. Verkfall á þriðja hundrað félagsmanna Eflingar sem vinna hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi, og hófst fyrir viku, hefur verið aflýst frá og með deginum í dag. Verkfallið hafði áhrif á starfsemi hluta leikskóla og grunnskóla í sveitarfélögunum þar sem ræstingarfólk gekk ekki til starfa á meðan að því stóð.
Verkfallið hófst upphaflega 9. mars síðastliðinn eftir að hafa verið samþykkt með 90 prósent greiddra atkvæða á meðal félagsmanna en var svo frestað 24. mars vegna kórónuveirunnar. Kosið var aftur um verkfallsaðgerðir eftir páska og aftur samþykktu 90 prósent allra sem greiddu atkvæði aðgerðirnar. Verkfallið hófst síðan, líkt og áður sagði, á mánudag í síðustu viku.
Önnur meginatriði samningsins eru, samkvæmt tilkynningunni, samtals 90 þúsund króna hækkun grunnlauna í grunnþrepi yfir samningstímann, stytting vinnuvikunnar, 61 þúsund króna árlegt framlag í nýjan félagsmannasjóð og fleira.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, segir að í enn eitt skiptið hafi Eflingarfólk í
minnst metnu störfum samfélagsins sýnt að jafnvel „grimmustu stofnanir valdsins“ eigi ekki roð við þeim þegar þau komi fram baráttuglöð og sameinuð. „Í enn eitt skiptið hafa þau sannað að réttlát og staðföst barátta láglaunafólks í gegnum sitt stéttarfélag er ekki bara réttur okkar heldur skilar hún líka raunverulegum árangri. Ég vil líka benda á hversu mikilvæg skilaboð félagsmenn okkar senda inn í samfélagsástandið með þessum árangri. Ef einhver hélt að kórónaveirufaraldurinn og efnahagslægðin sem honum fylgir yrði átylla til að skerða kjör láglaunafólks og berja niður í þeim baráttuandann, þá hafa félagsmenn okkar hjá sveitarfélögunum sýnt að það er ansi stór misskilningur. Baráttan fyrir réttlátu samfélagi er lifandi og hefur aldrei skipt meira máli en einmitt núna.“