Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra út í aðgerðir ríkisstjórnarinnar gagnvart unga fólkinu í landinu í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Þingmaðurinn sagði að í kjölfar hrunsins fyrir rúmlega áratug hefði verið gripið til fjölmargra úrræða sem áttu að bæta hag landsmanna. „Leiðréttingin, eins og hún var kölluð, er dæmi um aðgerð stjórnvalda sem greiddi milljarðatugi til eldri kynslóða og eignafólks. Talað var um forsendubrest sem réttlætti þessa gríðarlegu eignatilfærslu en yngri kynslóðin fékk enga leiðréttingu. Sú kynslóð er enn að berjast við að geta fjárfest í húsnæði. Sú kynslóð er fyrsta kynslóð Íslendinga í áratugaraðir sem býr við lakari lífskjör en kynslóðin þar á undan.“
Hún sagði að leiðréttingin og niðurfelling skulda hefðu ekki náð til þessarar kynslóðar enda hefði hún ekki verið þátttakandi í því skuldakapphlaupi sem átti sér stað árin á undan. Í góðærinu sem nú hefði keyrt á vegg hefði hún heldur engra fríðinda notið.
Öryggisleysið um þessar mundir óásættanlegt
Þórhildur Sunna sagðist enn fremur hafa þungar áhyggjur af því að nú ætti enn og aftur að skilja unga fólkið eftir. „Ég hef þungar áhyggjur af aðgerðaleysi stjórnvalda sem ég finn fyrir gagnvart félagslegu öryggi ungs fólks og að það muni leiða af sér enn dýpra kynslóðabil lífsgæða í landinu, að ungt fólk og þá sér í lagi námsmenn sem ekki fá notið úrræða stjórnvalda til jafns við aðra neyðist til að skuldsetja sig enn frekar og að ekki sjái fyrir endann á því.“
Hún sagði að öryggisleysið sem unga kynslóðin byggi við um þessar mundir væri óásættanlegt. „Þessi ríkisstjórn virðist staðráðin í að svara þessari kynslóð engu um framtíð sína í komandi efnahagslægð. Námsmenn sem sannarlega hafa orðið fyrir forsendubresti vegna áhrifa heimsfaraldursins fá engin svör um fjárhagslegt öryggi sitt nema kannski að þeim býðst að skuldsetja sig frekar með sumarnámslánum sem enginn bað um.“
Þórhildur Sunna spurði því Katrínu hvort hún ætlaði „virkilega að skilja ungt fólk eftir enn eina ferðina“.
Margar aðgerðir komið mjög til móts við ungt fólk
Katrín vildi byrja á að taka það fram að leiðréttingin hefði verið í tíð fyrri ríkisstjórnar á árunum 2013 til 2016 þannig að hún gæti illa borið ábyrgð á henni. „Hins vegar hafa margar þær aðgerðir sem núverandi ríkisstjórn hefur gripið til einmitt miðað að því að koma til móts við ungt fólk, meðal annars vegna þess sem fram kom þegar við fórum í rannsókn á því hvernig lífskjör í landinu hafa þróast á árunum 1991 til 2017 og hefur nú verið uppfærð til 2018. Þar kemur fram að yngri kynslóðin hefur setið eftir þegar kemur að lífskjörum. Meðal annars þess vegna höfum við ráðist í aðgerðir til að hækka barnabætur og lengja fæðingarorlof. Í þinginu er frumvarp um Menntasjóð námsmanna sem snýst um að taka í raun og veru upp styrkjakerfi til námsmanna. Allar þær aðgerðir koma mjög til móts við ungt fólk,“ sagði ráðherrann.
Hún nefndi jafnframt sérstakar aðgerðir og sagði að nú þegar hefði verið gripið til aðgerða til að skapa 3.000 sumarstörf á vegum ríkis og sveitarfélaga sem hún vonaðist til að yrði auglýst sem fyrst.
„Þá hefur sömuleiðis verið sett inn gríðarleg innspýting í Nýsköpunarsjóð námsmanna sem nam 80 milljónum króna en nemur nú 500 milljónum króna og mun skapa 500 ný störf á þeim vettvangi og uppi eru áform um sumarnám fyrir þá námsmenn sem geta nýtt það til að flýta námi sínu,“ sagði hún.
Katrín telur enn fremur að stjórnvöld muni þurfa að taka stöðuna til að átta sig á því hvort einhverjir „lendi á milli skips og bryggju þrátt fyrir allar þessar umfangsmiklu aðgerðir og koma þá til móts við þann hóp námsmanna með einhverjum hætti. Ekki er hægt að segja annað en að töluvert hafi þegar verið undirbúið sem mun mæta mjög mörgum námsmönnum á komandi sumri.“
Margir atvinnulausir í sumar
Þórhildur Sunna fór aftur í pontu og sagði að forsætisráðherra héldi „hér ræðu um alla þá hluti sem hún telur ríkisstjórnina vera að gera fyrir ungt fólk og námsmenn“ en að hún hefði samt ekki svarað því skýrt hvað tæki við hjá þeim námsmönnum sem ekki fá vinnu í sumar.
„Við vitum alveg að það verður töluvert um námsmenn sem ekki fá vinnu í sumar, það liggur fyrir. Þar með hefur hæstvirt ríkisstjórn ekki orðið við þeirri skýru kröfu stúdentahreyfingarinnar að stúdentar búi við fjárhagslegt öryggi. Vissa stúdenta um sitt fjárhagslega öryggi nær varla fram að næstu mánaðamótum. Hvers konar skilaboð eru það til ungs fólks að það eigi að bíða upp á von og óvon um að fá kannski stuðning stjórnvalda? Hvers vegna er þessi tregi hjá ríkisstjórninni til að taka af allan vafa um að námsmenn muni eiga rétt á atvinnuleysisbótum?“
Hún lauk máli sínu á því að spyrja hvort Katrín væri sammála Ásmundi Einari Daðasyni félagsmálaráðherra að ekki ætti að láta þessa nemendur fá pening fyrir að gera ekki neitt og vísaði hún þar í orð ráðherrans í Silfrinu í gær.
Þarf auðvitað að ráðast í aðgerðir til að grípa þá sem lenda milli skips og bryggju
Katrín svaraði aftur og gerði athugasemd við það orðalag Þórhildar Sunna „sem segir að ríkisstjórnin telji sig vera að gera hluti, þegar ég fer yfir öll þau mál sem hafa verið afgreidd á þessu kjörtímabili og gagnast svo sannarlega ungu barnafólki og hefur verið barist fyrir árum, ef ekki áratugum, saman. Ég vitna þá sérstaklega í fæðingarorlofið og Menntasjóðsfrumvarpið og margt fleira. Hæstvirtur þingmaður verður að virða staðreyndir þegar hún kemur hér upp,“ sagði hún.
Forsætisráðherra sagði enn fremur að Þórhildur Sunna léti eins og það væri engin aðgerð að fara í 3.500 sumarstörf. „Ég er nokkuð viss um að það er það sem flestir námsmenn vilja gera, þeir vilja eiga kost á starfi yfir sumarið og sérstaklega einhverju áhugaverðu starfi. Þegar hæstvirtur þingmaður lætur eins og það að fara í sumarnám séu ekki raunverulegar aðgerðir fer hæstvirtur þingmaður hreinlega ekki rétt með. Það sem ég sagði áðan er að síðan þarf auðvitað að ráðast í aðgerðir til að grípa þá sem lenda milli skips og bryggju í þessum aðgerðum. Þessi útfærsla liggur hjá félags- og barnamálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra og mér er kunnugt um að þau munu kynna nánari útfærslur í þessari viku,“ sagði hún að lokum í svari sínu.
Skynjar mikið vantraust og skilningsleysi í garð ungs fólks
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, fjallaði um málið á Facebook í dag en þar sagði hún að ef úrræði félagsmálaráðherra fyrir stúdenta væru svona frábær þá kostaði það ekki neitt að veita stúdentum lágmarksfjárhagsöryggi með atvinnuleysisbótum.
„Nema hann vantreysti ungu fólki svona gríðarlega og haldi að ungt fólk velji bætur framyfir vinnuúrræði ríkisstjórnarinnar. Eftir að hafa hlustað á svör hans og forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum rétt í þessu skynja ég mikið vantraust og skilningsleysi í garð ungs fólks,“ skrifaði hún.
Ef úrræði félagsmálaráðherra fyrir stúdenta eru svona frábær þá kostar það ekki neitt að veita stúdentum lágmarks...
Posted by Halldóra Mogensen on Monday, May 11, 2020