Skatturinn er ekki enn byrjaður að geta afgreitt umsóknir um fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti samkvæmt hinu svokallaða „Allir vinna“-úrræði stjórnvalda, þrátt fyrir að rúmur einn og hálfur mánuður sé síðan stjórnvöld kynntu auknar endurgreiðslur virðisaukaskatts sem hluta af aðgerðum sínum vegna heimsfaraldursins.
Lög sem kváðu meðal annars á um tímabundna hækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts fyrir unna vinnu úr 60 prósentum upp í 100 prósent voru samþykkt á Alþingi þann 31. mars. Tæknilega útfærslan á málinu hefur verið í vinnslu hjá Skattinum síðan.
Tilkynning birtist á vef stofnunarinnar 16. apríl þar sem tekið var fram, að gefnu tilefni, að umsóknir um endurgreiðsluna væru „ekki tilbúnar“ og unnið væri að því að breyta rafrænu umsóknareyðublöðunum þannig að þau tækju meðal annars til bílaviðgerða og annars kostnaðar sem stjórnvöld ákváðu að hafa með í úrræðinu.
„Bæði breytingar á endurgreiðsluhlutfalli og nýjar reglur um endurgreiðslur vegna bílaviðgerða hafa kallað á tæknivinnu sem hefur tekið lengri tíma en hægt var að sjá fyrir – og er ekki lokið,“ segir Snorri Olsen ríkisskattstjóri í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Vonast til þess að hægt verði að afgreiða umsóknir „innan tíðar“
Ríkisskattstjóri segir að verið sé að forrita ný umsóknareyðublöð, ásamt öllu sem þeim tilheyri. Hann segir jafnframt að vonir standi til þess að hægt verði að fara að afgreiða endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna reikninga sem gefnir hafa verið út vegna vinnu frá því í byrjun mars „innan tíðar“.
Fullri endurgreiðslu virðisaukaskatts er ætlað að skapa aukinn hvata fyrir fólk til þess ráðast í framkvæmdir og kaupa þjónustu iðnaðarmanna og annarra, en sambærilegu úrræði var beitt eftir efnahagshrunið árið 2008 til þess að örva eftirspurn og sporna við hvoru tveggja atvinnuleysi og svartri vinnu.
Úrræðið er í gildi til ársloka og tekur til framkvæmda fólks á eigin heimilum og frístundahúsum, auk kostnaðar vegna heimilisaðstoðar og vinnu bifvélavirkja. Einnig geta félög á borð við íþróttafélög og björgunarsveitir fengið fulla endurgreiðslu virðisaukaskatts ef þau fara í framkvæmdir á eigin mannvirkjum.