Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd segir að ekki sé girt fyrir að fyrirtæki sem setji upp fléttur til að greiða lægri skatta á Íslandi njóti stuðnings úr ríkissjóði vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.
Hún segir meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar mistúlka tekjuskattslögin með því að segja nægilegt að gera kröfu um að þeir sem njóti stuðnings ríkisins hafi „fulla og ótakmarkaða skattskyldu“ á Íslandi og leggur til að frekari kröfur verði gerðar til þess að koma í veg fyrir að fé úr ríkissjóði renni til fyrirtækja sem hafa stundað skattasniðgöngu.
„Allir sem afla sér tekna hér á landi eru með fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér. Ekkert fyrirtæki er þar undanskilið. En það útilokar ekki skattundanskot eða skattasniðgöngu með aðstoð aflandssvæða,“ segir Oddný, í nefndaráliti sínu vegna lagafrumvarps um stuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldursins.
Oddný segir engin ný skilyrði séu sett fyrir stuðningi úr ríkissjóði í breytingartillögu meirihluta nefndarinnar og bætir við að það sem meirihlutinn hafi sett fram sé „eingöngu til að slá ryki í augu þingmanna og almennings.“
Fyrrverandi ríkisskattstjóri sömu skoðunar
Í nefndaráliti sínu vísar Oddný til umfjöllunar Indriða H. Þorlákssonar, fyrrverandi ríkisskattstjóra, sem ritaði pistil um málið á vefsíðu sína á dögunum og sagði þar í inngangi að kunnátta í tekjuskattslögum virtist ekki hátt skrifuð á Alþingi nú til dags.
„Skattundanskot og skattasniðganga með aðstoð aflandssvæða felst í því að skattaðili með „fulla og ótakmarkaða skattskyldu“ hér á landi flytur tekjur sem hér er aflað til félags utan skattalögsögu Íslands, oftast skúffufyrirtækis á lágskattasvæði. „Full og ótakmörkuð skattskylda“ kemur ekki í veg fyrir það. Hún er þvert á móti nauðsynleg forsenda því annars er ekki um neinar tekjur að ræða. Þessar ráðstafanir sem slíkar eru yfirleitt ekki ólöglegar en þær kunna að fela í sér að með þeim sé verið að sniðganga skattalögin, að láta líta svo út að tekjur íslenska rekstararaðilans séu tekjur einhvers annars,“ ritaði Indriði í grein sinni.
Oddný leggur til að lögin sem kveða á um stuðningslán og lokunarstyrki við lítil fyrirtæki, gildi ekki um einstaklinga eða lögaðila sem hafi með höndum „eignarhald eða stjórnun í hvers kyns félagi, sjóði eða stofnun sem telst heimilisföst í lágskattaríki“ í skilningi tekjuskattslaga, „né um lögaðila í beinu eða óbeinu eignarhaldi eða undir stjórn hvers kyns félags, sjóðs eða stofnunar sem telst heimilisföst í lágskattaríki.