Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ætlar að leggja til við heilbrigðisráðherra að barir og aðrir staðir með vínveitingaleyfi og hafa þurft að vera lokaðir undanfarnar vikur, fái að hefja rekstur á ný 25. maí og megi hafa opið til kl. 23 á kvöldin.
Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi í dag, en einnig sagðist hann ætla að leggja til við ráðherra að fjöldatakmarkanir yrðu rýmkaðar upp í 200 manns í næsta skrefi afléttinga, þann 25. maí. Í dag mega í mesta lagi 50 manns koma saman á sama stað.
Á börum og krám mun þurfa að virða tveggja metra regluna eins og kostur er, rétt eins og þarf í dag á veitingastöðum og annars staðar. Hið sama mun þurfa að gera í líkamsræktarstöðvum og sundlaugum, þegar almenningur fer að flykkjast á slíka staði á nýjan leik.
Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar á helmingsafköstum til að byrja með
Á fundinum í dag fór Þórólfur yfir það fyrirkomulag sem áætlað er að verði í sundlaugum landsins og líkamsræktarstöðvum þegar þeim verður gefið grænt ljós á að bjóða gesti velkomna á nýjan leik.
Þórólfur sagðist ætla að leggja það til við ráðherra að heildarfjöldi gesta á hverjum tíma færi ekki yfir helminginn af leyfilegum fjölda í sundlaugum og líkamsræktarstöðvum samkvæmt starfsleyfum þeirra.
Hann sagði að mögulega yrði hægt að auka leyfilegan fjölda gesta í skrefum fram til 15. júní. Á þeim tímapunkti yrði vonandi hægt, ef faraldurinn yrði áfram í lágmarki, að leyfa hámarksfjölda gesta á þessum stöðum.
Sundlaugarnar og líkamsræktarstöðvar verða þannig, samkvæmt orðum Þórólfs, á 50 prósent afköstum fyrst um sinn, ef heilbrigðisráðherra felst á tillögur hans.
Yfirgnæfandi líkur á að neikvætt próf sé í raun neikvætt
Þórólfur var spurður út í þær fyrirætlanir sem stjórnvöld kynntu í gær, að opna landamæri Íslands 15. júní og bjóða þeim ferðamönnum sem vilja koma til landsins upp á veiruskimun.
Hann var spurður hvort ekki væri hætta á að falskt öryggi fengist með þeim prófum sem stjórnvöld áætla, þar sem hætta væri á að fólk fengi rangt neikvætt sýni við komuna til landsins.
Þórólfur játaði því að svo væri og það hefði alltaf verið áhættan með þessi próf, að fólk væri akkúrat á þeim stað í meðgöngutíma veirunnar þar sem það væri ekki komið með einkenni og fengi neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku.
Hann sagði þó að líkurnar á því að fólk yrði akkúrat í þeim „glugga“ við komuna til landsins væru mjög litlar og áhættan því „algjörlega í lágmarki“.