Alþýðusamband Íslands vill að íslenska ríkið eignist hlut í öllum þeim fyrirtækjum sem fá meira en 100 milljónir króna í stuðning frá ríkinu vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Einnig vill sambandið að fyrirtæki verði til framtíðar skyldug til þess að eiga fyrir launagreiðslum til þriggja mánaða, áður en þau geti greitt út arð, óumsamda kaupauka eða keypt eigin hlutabréf.
Þetta er á meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi Alþýðusambandsins í dag, þar sem þær aðgerðir sem sambandið telur „réttu leiðina“ í efnahagsmálum á tímum yfirvofandi kreppu og til framtíðar voru kynntar af Drífu Snædal forseta ASÍ og Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni 1. varaforseta sambandsins.
Alþýðusambandið segir réttu leiðina út úr kreppu vera að tryggja afkomu fólks og verja heimilin og leggur til nokkurn fjölda aðgerða sem hægt væri að grípa til strax í þessu skyni.
Þannig vill sambandið meðal annars að ákvæði um hlutabætur verði virkt „þar til þess er ekki lengur þörf“ og að komið verði til móts við foreldra ungra barna sem hafa þurft að vera frá vinnu vegna skerts leikskóla- og skólahalds.
Þá vill ASÍ að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar í 335 þúsund krónur þegar í stað og greiðslufrestir lána fólks sem verður fyrir afkomubresti verði tryggðir og lánstíminn lengdur sem þeim nemi. Einnig leggur ASÍ til að komið verði í veg fyrir að lántakendur húsnæðislána og leigjendur greiði kostnað vegna mögulegrar verðbólgu, með því að frysta tengingu við vísitölu.
Til viðbótar leggur ASÍ til að leigjendur sem hafi orðið fyrir miklu tekjufalli öðlist tímabundinn rétt til hærri húsaleigubóta, námsmenn sem ekki fái sumarstörf fái atvinnuleysisbætur og að framfærsla útlendinga á íslenskum vinnumarkaði sem falla utan kerfis verði tryggð.
Laun æðstu stjórnenda verði að hámarki þreföld meðallaun
Alþýðusambandið vill að „skýr skilyrði“ verði sett fyrir öllum opinberum stuðningi við fyrirtæki í gegnum kreppuna. Eitt skilyrðanna sem ASÍ nefnir er að laun æðstu stjórnenda fyrirtækis verði ekki hærri en sem nemur þreföldum meðalheildarlaunum í landinu, samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Einnig vill ASÍ að fyrirtæki sýni fram á að þau fylgi kjarasamningum, hafi ekki gerst sek um launaþjófnað og stundi ekki félagsleg undirboð. Þá vill ASÍ að eigendur fyrirtækja hafi þegar nýtt eigin bjargir og að tryggt sé að stuðningur ríkisins nýtist til að viðhalda störfum og skapa ný.
Að auki vill ASÍ, eins og áður sagði, að ef að opinber stuðningur við fyrirtæki nemi 100 milljónum króna eða meira eignist ríkið hlut í viðkomandi fyrirtæki, til samræmis við framlag sitt.
Gera kröfu um að verkalýðshreyfingin verði við borðið
Í ítarlegum bæklingi frá ASÍ, þar sem farið er yfir þessar tillögur sem nefndar eru að ofan og fleiri, segir að verkalýðshreyfingin geri kröfu um að vera „beinn þátttakandi í öllum ákvörðunum sem hafa áhrif á vinnumarkað og sem varða framtíð og afkomu launafólks.“
„Séu ákvarðanir um atvinnuuppbyggingu og félagslegar aðgerðir teknar án samráðs og án þeirrar reynslu sem í hreyfingunni býr er hætt við að þær dugi ekki til framtíðar. Samtök sem starfa í þágu almannaheilla og gæta réttinda viðkvæmra hópa eiga einnig rétt á að taka þátt í ákvarðanatöku sem þau varða,“ segir í bæklingnum.
Drífa Snædal sagði á fundinum í dag að í þessum tillögum ASÍ væri sótt til stefnu sambandsins í gegnum tíðina, reynslunnar frá síðustu kreppu, en ekki síður í alþjóðaumhverfið, bæði til alþjóðlegu verkalýðshreyfingarinnar og umræðu sem hefði átt sér stað á vettvangi stofnana á borð við OECD og Alþjóðabankans.